Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 13:48:21 (3421)

1999-12-18 13:48:21# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég reyndi í upphafi ræðu minnar að vekja athygli á því sem ég tel mjög alvarlegt, að fullyrðingar stangast á, annars vegar í úrskurði og skýrslu skipulagsstjóra þar sem hann segir að framkvæmdaraðilar hafi neitað þeirri skoðun sinni að það ætti að áfangaskipta álverinu, þ.e. að taka 120 tonnin sérstaklega. Ekki þarf annað en að skoða bréfið, herra forseti, sem var upphaflega sent frá framkvæmdaraðila til að sjá að ekki fer milli mála að verið er að fjalla um 120 þús. tonna álver fyrst og fremst, hitt komi síðar.

Ég var líka að reyna að draga það fram, herra forseti, að mér finnst umhugsunarefni hvers vegna skipulagsstjóra snerist hugur í málinu. Það gerðist greinilega. Hann talar fyrst um að það hafi verið skoðun sín að það ætti að fjalla um 120 tonna álver en segir svo við hv. iðnn. að hann hafi ekki treyst sér til þess. Það kemur fram á síðustu dögum sem skipulagsstjóri er með málið hjá sér. Mér finnst alvarlegt að skipulagsstjóri skuli ekki hafa upplýst iðnn. um bréf frá Hollustuverndinni sem mælir með því að vinna við útgáfu starfsleyfis fyrir 120 þús. tonna álver hefjist.