Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 14:01:20 (3435)

1999-12-18 14:01:20# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að langt sé í land og verði sennilega aldrei að við beislum öll stórfljót. Í stuttu andsvari er svo sem ekki hægt að fara út í vangaveltur um virkjunarmöguleika. Við eigum ýmsa vannýtta möguleika svo sem sjávarföll sem líklega er mjög umhverfisvæn aðgerð. Á Írlandi eru menn byrjaðir að virkja öldur í tilraunaskyni að því er virðist með mjög lofandi árangri. Við heyrðum nýlega fréttir af nýtingu vindorku. Að vísu er það umdeilt atriði. Vindmyllur valda mikilli sjón- og hávaðamengun o.s.frv. Hins vegar kann okkur hv. þm. að greina á.

Ég er til í að fara í umræðu um neyslusamfélagið og græðgi okkar sem þjóðar. Ég er hins vegar jafnsannfærður um að við leysum það ekki með lögum. Það eru allsherjarumræður, pólitískar umræður sem þurfa að eiga sér stað. Vitund þjóðar verður aldrei breytt með lögum. Þar þarf samstillt átak margra aðila. Þingið kemur ekki eitt að því.