Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 14:12:49 (3443)

1999-12-18 14:12:49# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, LB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[14:12]

Lúðvík Bergvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason ber gríðarlega alvarlegar ásakanir á skipulagsstjóra í þessu máli. Það að hann skuli gera það í dag, 12 dögum eftir að bréfið er dagsett, er mjög alvarlegt mál. Ég ætla að beina þeirri spurningu til hv. þm.: Hvenær fékk hann þessar upplýsingar? Hafi hann vitað um þetta í marga daga án þess að kalla til fundar í hv. iðnn. þá er það mjög alvarlegur hlutur. Þá mætti draga af því þá ályktun að hann hafi beðið með að gera grein fyrir þessum upplýsingum til að setja þær fram í þessari umræðu í stað þess að gera eins og hv. formanni iðnn. ber að gera í umræðunni, þ.e. að kalla saman fund í iðnn. og láta reyna á það hvort þær ásakanir sem hann ber hér fram eru rangar eða réttar.

Hv. þm. á að gefa skipulagsstjóra færi á að svara fyrir sig, virðulegi forseti. Hv. þm. verður að gera þingheimi grein fyrir því hvenær hann fékk þessar upplýsingar og hversu lengi hann hefur setið á þeim. Hvers vegna ákvað hann að setja þær fram í þessari umræðu í stað þess að kalla til fundar í hv. iðnn.? Hann skuldar þingheimi svar við þeirri spurningu, virðulegi forseti.