Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 14:19:04 (3447)

1999-12-18 14:19:04# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, Frsm. meiri hluta HjÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[14:19]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hafði svolítið gaman af því þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom upp og vitnaði til fyrri ræðu sinnar en kom síðan aftur og lýsti áhrifum þeirrar ræðu, þ.e. hvernig ég stæði óvarinn og með sundrað sverð o.s.frv. vegna áhrifamáttar (Gripið fram í: Vegna ræðu Rannveigar Guðmundsdóttur.) ræðu hv. þm. (ÖS: Vegna ræðu Rannveigar.)

Herra forseti. Ég hafna því að hér hafi verið um persónulegar ávirðingar að ræða. Ég hafna því, herra forseti. Ég vitnaði hér m.a. í bréf, opinber bréf sem lögð hafa verið fram og borist nefndinni m.a. Eitt bréf fékk ég þó síðar vegna þess að ég hafði sjálfur frumkvæði að afla þess og það er það sem ég lýsti að hefði vakið upp hjá mér verulegar spurningar um það hvers vegna við í hv. iðnn. vorum ekki upplýst um opinbert bréf frá opinberri stofnun. Ég dró það jafnframt fram, herra forseti --- og ég tel það ekki ávirðingar --- með því að skírskota til bréfa hvernig í fyrsta lagi framkvæmdaraðilinn er í rauninni að óska eftir því að matið verði miðað við 120 þús. tonn fyrsta kastið en vísar jafnframt til þess að á síðari stigum, ef og þegar kemur til frekari stækkunar, þá verði það tekið sérstaklega á grundvelli fyrsta áfanga. Það kemur svo jafnframt fram að fyrst telur skipulagsstjóri að hann hafi sjálfur óskað eftir því að fá að áfangaskipta verkinu en því hafi verið hafnað af framkvæmdaraðilanum. Og það stangast á við það sem stendur í upphaflegu bréfi. Það stangast á við það sem hefur komið fram í rauninni hjá öllum aðilum. Það kemur svo hins vegar, herra forseti, fram hjá skipulagsstjóra á fundi hjá hv. iðnn. að honum hafi síðan snúist hugur. Þetta segir hann fyrir framan alla hv. nefndina, þ.e. að hann hafi ekki treyst sér til að skilja á milli 120 þús. tonna álvers og 480 þús. tonna álvers án þess að viðhlítandi skýringar kæmu á því.

Ég tel þetta ekki persónulegar ákúrur. Ég vek þessar spurningar upp og það er nægur tími til þess að fara yfir það mál, herra forseti. Við erum hér að fjalla um Fljótsdalsvirkjun fyrst og fremst, um það snýst þáltill. Hitt málið er ekkert farið frá okkur.