Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 15:15:01 (3451)

1999-12-18 15:15:01# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Steinar gerði hér að umtalsefni þrjá minni hluta umhvn. sem skiluðu áliti um þessa þáltill. iðnrh. og vildi meina að álit tveggja þingmanna í hv. umhvn., Ólafs Arnar Haraldssonar og Katrínar Fjeldsted, væri álit meiri hlutans vegna þess að þrír aðrir hefðu í rauninni stutt það álit og þar með væru komnir fimm, en álit það sem við fjögur sendum frá okkur væri þess vegna ekki álit 1. minni hluta.

Mig langar til þess að spyrja hv. þm. að því hvort hann viti þá hvernig þeir þingmenn sem hann telur að hafi meiri hluta, Ólafur Örn og kó, ætli sér að styðja eða fella eða sitja hjá við afgreiðslu þessarar þáltill. sem er hér til umræðu. Það hefur nefnilega komið fram í iðnn. að þessir aðilar, þessir fimm aðilar eru ekki samstiga um það hvernig þeir ætla að greiða atkvæði um tillöguna þegar hún kemur til afgreiðslu í þinginu. Þar með er það nokkuð ljóst að álit þessara aðila (Gripið fram í.) eru ekki samstiga og þau eru ekki sammála um álitin og þar með getur þetta ekki talist vera meirihlutaálit (Gripið fram í.) í venjulegum skilningi þess orðs og þar með eru ... (Gripið fram í.)

(Forseti (ÍGP): Má forseti biðja hv. þingmenn um hljóð. Hér talar einn ræðumaður í einu.)

Herra forseti. Ég heyri að þetta er mjög viðkvæmt umræðuefni og mjög þungt fyrir fólk að heyra sannleikann í þessu máli.

Ég er einfaldlega að reyna að draga fram hvort hv. þm. hafi gert sér grein fyrir stöðu málsins þegar hann talar um álit umhvn.