Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 16:22:05 (3458)

1999-12-18 16:22:05# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, Frsm. 2. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[16:22]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Ég tek alveg sérstaklega undir þau orð ráðherrans hversu mikilvægt það er að forsendur séu réttar og að þingmenn séu örugglega að gefa sér réttar forsendur. Þess vegna fannst mér svo mikilvægt þegar ég var búin að sitja heilan laugardag á fundi, bara með Landsvirkjun, og Landsvirkjun var búin að bera brigður á þá útreikninga sem lágu fyrir frá hagfærðingum, að nú fengi iðnn. að kalla þá hagfræðinga til og fá skoðanaskipti um þau ólíku sjónarmið sem lögð væru til grundvallar. Um það höfum við deilt m.a. hér hversu alvarlegt það er að iðnn. átti tíma á mánudeginum frá klukkan fjögur en það var lokað á að fá nokkurn mann í heimsókn til nefndarinnar og fundur felldur niður á mánudeginum og iðnn. gefið frí.

Þess vegna hef ég þurft að kalla eftir viðbrögðum við gagnrýni Landsvirkjunar á eigin spýtur og ég hef gert það. Ég get fullyrt að sá hagfræðingur, sem ráðherra vísaði til, hefur gert grein fyrir því að jafnvel þó hann taki tillit til þessara breytinga úr 1.250 gwst. í 1.359 gwst. standi samt þau rök hans. Ég er líka með upplýsingar frá öðrum hagfræðingi sem nefnir þetta með ávöxtunarkröfuna af því að það er verið að tala um hana alveg niður í 3 eða 4%: ,,Ávöxtun ræðst af áhættu, ekki því hvort ríkið tekur lánin eða ekki og meðal\-ávöxtun á sambærilegum framkvæmdum á heimsmarkaði er 7,2%.``

Hann færir fullgild rök fyrir því sem ég hef hér getið um og ég ætla líka að minna á það, af því ég tók arðsemisþáttinn í mjög fáum orðum hér, að því máli verður fylgt eftir af þingflokki Samfylkingar síðar í umræðunni.

En þær upplýsingar standast sem ég hef aflað mér og þurfti, herra forseti, að gera utan við iðnn. vegna vinnubragðanna hér.