Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 16:24:16 (3459)

1999-12-18 16:24:16# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[16:24]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að gera lítið úr þeirri miklu vinnu sem hv. þm. hefur lagt á sig við að kynna sér málið. Ég veit og þekki að það hefur hv. þm. gert.

Þegar minnst er á 13 milljarða kr. tap og vitnað er í Sigurð Jóhannesson er gengið út frá röngum forsendum. Það er gengið út frá rangri afkastagetu virkjunarinnar og það er líka gengið út frá röngum reiknivöxtum af arðseminni.

Segjum nú að við getum sæst á og gefið okkur forsendurnar sem eru kannski 5% afkastavextir virkjunarinnar og afkastageta, eða reiknivextir eru upp á 5% og afkastageta virkjunarinnar fari úr 1.250 gwst. á ári í 1.400 gwst., þá vantar einn meginþáttinn. Ég verð að syrja: Hvernig ætlar hv. þm. að reikna út eða einhver annar arðsemi af framkvæmdum þegar meginforsendurnar vantar, sem er söluverðmæti virkjunarinnar á hverju einasta ári? Þar gefa menn sér gömul orkuverð í gömlum orkusölusamningum og nýjum orkusölusamningum sem eru ekki farnir að skila sér að fullu í tekjum Landsvirkjunar.

En það get ég fullvissað hv. þm. um að ekki verður gengið til samninga um raforkuverð nema það gefi fyrirtækinu arðsemi sem standi undir þeim kröfum sem eigendur fyrirtækisins hafa gert um að Landsvirkjun geti lækkað raforkuverð til landsmanna um 20--30% að raunvirði á fyrsta áratug næstu aldar.