Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 16:27:53 (3460)

1999-12-18 16:27:53# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, Frsm. 2. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[16:27]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Aldrei mun ráðherrann heyra mig kvarta undan vinnu sjálfrar mín hér á þingi, ég er að gagnrýna vinnubrögð nefnda. Við skulum tala um orkuverðið.

Alhæsta mögulegt orkuverð er sennilega 1,50 sem mundi skila 2% ávöxtun sem er allt of lágt. Hæsta raunhæfa orkuverð er kannski 1,20, það er orkuverð til nýrra álvera í Mósambík, Kína og Malasíu og enn þá lægra en það er að finna í þeim löndum.

Hvernig ætlar ráðherrann að ráða við það að gera kröfur um almennilegt orkuverð þegar hann er búinn að kosta öllu til í átökum þjóðar sinnar til að knýja fram stuðning Alþingis, ekki einhverja ákvörðun heldur stuðning Alþingis við áframhaldandi framkvæmd sem þeir hafa framkvæmdaleyfið að að eigin mati og eru búnir að kosta öllu til, byrjaðir á undirbúningi framkvæmdar, eins og þeir segjast þurfa að gera með nokkrum fyrirvara og setjast síðan að samningaborði hvort sem það samningaborð verður við Norsk Hydro eða annan aðila sem kemur í staðinn, og ætla að knýja fram hækkað orkuverð? Viðsemjandinn mun hafa íslensk stjórnvöld í hendi sér. Þeir eru búnir að kosta svo miklu til, þeir geta ekki hætt við, þeir geta ekkert annað gert en halda áfram og selja, jafnvel það þótt kaupandinn að utan ætli ekki að leggja kannski meira til en 20% og það í tækniþekkingu.

Þetta er vandi ríkisstjórnarinnar og þetta er sú hörmulega staða sem ríkisstjórnin hefur leitt fyrir þjóðina.