Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 16:31:34 (3463)

1999-12-18 16:31:34# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[16:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þessar upplýsingar eru ákaflega mikilvægar. Það er rétt að rifja upp að hv. þm. Hjálmar Árnason talaði í þá veru að þær ábendingar og þau gögn sem bærust frá borgurum landsins út af þessu máli gegnum netið hefðu auðvitað vægi í málinu og það var ekkert hægt að skilja hv. þm. hvorki í fjölmiðlum né í þinginu öðruvísi en að þessu yrði með einhverjum hætti svarað. Nú er það upplýst hér að það sem hv. formaður iðnn. sagði um þessi mál reyndist vera rangt. Maður er dálítið hissa, að ég ekki segi bara steinhissa að það skuli vera þannig að borgarar landsins séu ginntir til þess að koma á framfæri athugasemdum sínum með ummælum hv. þm. Hjálmars Árnasonar og loforðum um að þau verði gögn í málinu en þau eru ekki einu sinni tekin til umræðu í nefndinni. Til hvers í ósköpunum, herra forseti, var verið að plata fólk með þessum hætti? Hvers konar framkoma er þetta gagnvart borgurum í landinu?

Ég mun auðvitað, herra forseti, ræða þetta ítarlegar við betra tækifæri í þingsal við hv. þm. Hjálmar Árnason því hann á ekki kost að koma upp hérna. En ég verð að segja að ég er aldeilis undrandi á þessum upplýsingum. Ég var meðal þeirra sem létu blekkjast, herra forseti, því að ég lét það meira að segja uppskátt hér í umræðum að ég teldi að þetta væri þó a.m.k. ófullburða lýðræði, ófullburða andmælaréttur. En nú kemur í ljós að meira að segja hann var fótumtroðinn og eins og allt annað sem þessir herramenn hafa sagt þá voru þetta bara leiktjöld, Pótemkintjöld, sem núna hefur verið svipt frá.