Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 17:05:56 (3468)

1999-12-18 17:05:56# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[17:05]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. gera afskaplega lítið úr því vandamáli sem umhverfis- og náttúruverndarsinnar hafa verið að lýsa vegna þessarar virkjunar. Það hefur verið margtíundað að verið sé að eyðileggja beitiland og aðstöðu fyrir gæsir í fjaðrafelli. Þarna sé helsta skjól þeirra, þessa dýrastofns yfir ákveðinn tíma sumarsins. Reynt er að bregðast við því. Hv. þm. gerir bara grín að þessu öllu saman og þetta skiptir bara engu máli. Ég átta mig ekki á þessu. Er hv. þm. í rauninni að segja að þetta skipti engu máli, þessar gæsir geti bara farið eitthvert annað?

Varðandi það hvað skipulagsstjóri segir í einhverju öðru bréfi, skipulagsstjóri segir náttúrlega svo margt um þetta mál að það er oft erfitt að henda beinlínis reiður á því hvað verið er að meina. En í þessu tilfelli, í þessu sérstaka bréfi, fer ekkert á milli mála að skipulagsstjóri efast ekki um að þessi virkjun þarf ekki að fara í umhverfismat og á það var ég að benda.