Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 17:07:08 (3469)

1999-12-18 17:07:08# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[17:07]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er bara svo hissa á málflutningi hv. þm. að mér er eiginlega orða vant. Nú kemur þessi hv. þm., sem hefur hingað til verið tiltölulega hlynntur verndun Eyjabakka, og lýsir því yfir að hann vilji ekki bara hleypa þeim undir vatn heldur vill hann hækka stífluna og þá er hann farinn að vernda virkjun í Bjarnarflagi sem allir vita að er á sérstöku náttúruverndarsvæði sem sérstök lög gilda um og þarf auðvitað að fara í umhverfismat og er fráleitt að hlaupi í gegnum það mat, herra forseti.

En hv. þm. Hjálmar Árnason sagði fyrr í dag að hraukarnir á Eyjabakka væru einstæðir og það var rétt hjá honum. Nú langar mig að lesa stefnu ríkisstjórnarinnar sem birtist í riti sem gefið var út 1996 af Náttúruvernd ríkisins þar sem segir:

,,Kafli IV. Alþjóðlegar skyldur Íslands.

4.1. Verndun einstæðra jarðmyndana og landslags.

Íslendingum ber skylda til að vernda sérstaklega jarðmyndanir og kerfi sem eru sjaldgæf eða óvenjuleg á heimsmælikvarða.``

Það liggur fyrir að hraukarnir eru einstæðir á heimsmælikvarða. Hvað segir hv. þm. við þessu? Ætlar hann bara svona einn, tveir og þrír, án þess að hugsa sig betur um, að kasta þeim undir vatn? Hvað finnst honum að hér sé að gerast? Erum við ekki að brjóta þennan samning sem ég var að lesa upp úr?