Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 17:17:39 (3478)

1999-12-18 17:17:39# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[17:17]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er að ég er mjög hissa á málflutningi hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar sem er nú skapstillingarmaður yfirleitt, að hann skuli leyfa sér að koma hér og tala um takmarkalausa vanþekkingu og svo að fullyrða það hér að engu hafi verið lýst yfir um afstöðu hans til þessa máls í hv. iðnn. (Gripið fram í: Þetta er alrangt.)

Meðflutningsmaður hv. þm. að áliti 2. minni hluta upplýsti í iðnn. að það hefðu verið mistök þeirra tveggja hv. þm. sem að þessu standa að ekki skyldi vera tekið fram að þeir ætluðu að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sem sat við hliðina á hv. þm. Katrínu Fjeldsted sem sagði þetta, mótmælti því ekki. Ég skil því ekki hvers vegna verið er að bera af sér sakir út af þessu. Er nokkuð saknæmt í rauninni að segja hvaða afstöðu menn ætli að taka? Er þetta ótrúlega viðkvæmt mál? Ég verð bara að segja, herra forseti, að ég skil ekki upphlaupið út af þessu máli.