Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 17:20:11 (3480)

1999-12-18 17:20:11# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[17:20]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Þuríður Backman var út af fyrir sig að lýsa yfir ánægju með það sem komið hefur fram um mótvægisaðgerðir og ég þakka fyrir það. Aftur á móti segi ég að það er alveg rétt hjá hv. þm. að ég mun greiða atkvæði með þáltill. umhvrh. sem þýðir að ég muni samþykkja fyrir mitt leyti að áfram verður haldið með framkvæmdina. Ég segi þá: Þýðir það þá að þeim sem ekki ætla að greiða atkvæði sé alveg sama um Eyjabakkana? Og þýðir það þá að þeir sem ætla að greiða atkvæði á móti viljir einir umhverfismat? Það er sagt að ég sé á móti umhverfismati. Ég hef aldrei sagt að ég væri neitt á móti umhverfismati. (Gripið fram í.) Ég hef heldur aldrei sagt að ég styddi það að þessi virkjun færi í umhverfismat og ástæðan fyrir því að ég hef ekki gert það er mjög einföld. Það er búið að samþykkja það á Alþingi að virkjunin þurfi ekki að fara í umhverfismat. Þess vegna hef ég aldrei lagt því neitt lið að þessi virkjun fari í umhverfismat.