Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 17:23:12 (3482)

1999-12-18 17:23:12# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[17:23]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég neyðist til þess að koma hingað til að bera af mér sakir vegna hins ótrúlega hugmyndaþróttar sem hv. þm. hefur sýnt hér í dag. Ég heyrði ekki betur en að hv. þm. hefði komið hérna fyrr í umræðunni og haldið því fram í sinni ræðu að ég hefði verið viðstaddur fyrstu skóflustungu Fljótsdalsvirkjunar, að því er mér skildist á hv. þm., og væntanlega tekið þátt í fagnaðarlátum þar að lútandi og að þar af leiddi að ég væri öllu þessu bixi hjartanlega sammála. Ég verð að hryggja hv. þm. með því að þó að í kolli hans vakni alls konar hugmyndir mismunandi góðar og ég sé aðdáandi sumra þeirra og aðdáandi hans að flestu leyti, að ég var nú ekki staddur þarna á þessum degi. Ég minnist þess ekki að ég hafi nokkru sinni verið viðstaddur fyrstu skóflustungu á mínum ferli nema einu sinni þegar verið var að taka fyrstu skóflustungu fyrir heilsugæslustöð úti á landi, en hún tengdist sannarlega ekki Fljótsdalsvirkjun þannig að ég vísa þessu algjörlega til föðurhúsanna og mælist undan því að hv. þm. geri mig að einhvers konar fórnarlambi þessa hugmyndaflugs sem hér brýst út eins og eldflaugasprengingar á gamlárskvöldi.