Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 17:24:19 (3483)

1999-12-18 17:24:19# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KF (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[17:24]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. Kristján Pálsson vera kominn hér í málþóf við þingmenn með því að espa okkur hér upp ítrekað til að bera af okkur sakir og ég verð að gera það, herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson sagði áðan að ég hefði lýst því yfir að það hefðu verið mistök af 2. minni hluta umhvn. að lýsa ekki afstöðu til afgreiðslu málsins. En hv. þm. verður að hafa það í huga að við vorum ekki að skila álitinu inn til Alþingis eða inn í beina meðferð málsins heldur inn til iðnn. (Gripið fram í: Er þetta að bera af sér sakir?) Þetta er að bera af sér sakir, herra forseti, því ég er vænd um að hafa kallað slíkt mistök. Ég reyndi hins vegar og hef sennilega sagt í iðnn. að líklega hefði mátt bæta þessu við. En ég vísa því á bug að ég hafi sagt að það hafi verið mistök.

Herra forseti. Í öðru lagi þá vil ég í annað skipti mótmæla því að hv. þm. Kristján Pálsson komi hér upp og lýsi því hvernig ég ætla að greiða atkvæði um þetta mál. Það er í hæsta máta óviðeigandi og ég mótmæli þessari aðferð þingmannsins og segi: Við spyrjum að leikslokum hvernig greidd verða atkvæði í þessu máli og það kemur í ljós við afgreiðslu málsins en ekki í ræðum þingmannsins hér.