Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 18:44:27 (3488)

1999-12-18 18:44:27# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[18:44]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir allítarlega ræðu um einn anga þessa máls, þ.e. náttúrufarið og fegurðina. Hlutverk iðnn. var einmitt að bera þá þætti saman við aðra sem snerta þetta mál í heild sinni.

Ég vildi varpa þremur spurningum til hv. þm. um leið og ég þakka honum hlý orð í garð iðnn. Ég ítreka þakkir til hv. umhvn. fyrir hennar þátt í málinu.

Hv. þm. nefndi ítrekað í ræðu sinni að umhvn. hefði einungis haft eina viku til að skoða málið. Hefur þá hv. þm. gleymt þeim tíma sem báðar nefndirnar fengu í september? Hefur ekkert gerst í málinu síðan? Iðnn. vann töluvert og hefur unnið nánast stanslaust í þessu síðan.

Í annan stað vil ég spyrja varðandi tímann: Hvað telur hv. þm. að taka þurfi langan tíma til að fá niðurstöðu og taka ákvörðun?

Í þriðja lagi, herra forseti, vegna fullyrðinga um að almenningi hafi verið haldið frá: Hefur þingmaðurinn ekki orðið var við greinar, aðsent efni, tölvupóst eða fengið símhringingar o.s.frv. frá almenningi?