Gagnrýni formanns iðnn. á skipulagsstjóra ríkisins

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 10:06:53 (3507)

1999-12-20 10:06:53# 125. lþ. 50.91 fundur 242#B gagnrýni formanns iðnn. á skipulagsstjóra ríkisins# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[10:06]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta er afar alvarlegt mál og ekki á bætandi við aðra lausa enda sem hafa reynst vera í þessu stóra máli, Fljótsdalsvirkjun. Ég hef eins og aðrir fylgst með því hvernig umfjöllun hefur verið um þetta mál í fjölmiðlum um helgina. Það var alveg ljóst og kom fram í máli mínu fyrir helgi að skýr svör voru af hálfu Skipulagsstofnunar ríkisins um það sem leitað var eftir á umræddum fundi iðnn., en miðað við það sem hér hefur komið fram, að komin sé greinargerð frá skipulagsstjóra, þá geri ég kröfu til þess, herra forseti, að iðnn. komi saman og fari yfir þá greinargerð, fari yfir þetta mál vegna þess að það er ekki hægt að halda áfram hér eins og ekkert hafi í skorist og ekki er nægjanlegt að greinargerðin sem hugsanlega er komin frá skipulagsstjóra ríkisins verði lögð fram hjá þingmönnum. Nú verður iðnn. að koma saman, fara yfir málið og fá fulltrúa frá Skipulagsstofnun ríkisins á fund sinn. Annars getum við ekki haldið áfram umfjöllun eins og ekkert hafi í skorist.