Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 10:21:48 (3516)

1999-12-20 10:21:48# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, GIG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[10:21]

Gunnar Ingi Gunnarsson:

Herra forseti. Mér finnst andrúmsloft vera frekað eitrað á hv. Alþingi. Stemmningin verður gjarnan þannig þegar verið er að ræða umdeild og vafasöm mál. Nú er til umræðu till. til þál. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Mál hafa skipast þannig að hæstv. ríkisstjórn hefur valið þann kost að fá meiri hluta sinn á hinu háa Alþingi til að samþykkja að framhald verði á þeim framkvæmdum sem hér er verið að ræða um, sennilega vegna þess að ríkisstjórnin sjálf treystir sér ekki til þess að hafa ákvörðunina á sínum herðum einum.

Þetta mál hefur þegar valdið miklum erjum í íslensku þjóðfélagi og valdið togstreitu og deilum á hinu háa Alþinig. Þetta mál hefur valdið því að þjóðinni er skipt í flokka og hefur jafnvel sett af stað ágreining á milli landshluta og það á röngum forsendum. Þetta mál er þess eðlis að mínu mati að vart kemur annað til greina en að gefa því betri og lengri tíma. Víðtækari sátt þarf að nást í málinu. Það þarf að skoða það betur og því er hér lögð fram brtt. við áðurnefnda þáltill. þess efnis að framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun verði því aðeins heimilað af Alþingi að meiri hluti kjósenda hafi áður samþykkt framkvæmdina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Flutningsmenn eru, auk þess sem hér talar, hv. þingmenn Guðjón A. Kristjánsson og Árni Steinar Jóhannsson.

Sú umræða sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu undanfarið vegna þessa máls hefur kennt mér að það hafi leitt af sér misskilning og rangfærslur af þeirri stærðargráðu að ekki verður annað gert að mínu mati ef skynsemin á að vera leiðarljós en að stöðva málið. Ég tel að skynsamlegast sé að gera það á þann hátt sem hér er lagt til.

Sem dæmi um þann misskilning sem tengst hefur þessu máli er sú ályktun margra að þeir sem mótmæla þeim framkvæmdum sem hér eru á ferðinni séu allir á móti virkjunum og álverum, séu á móti stóriðju og séu jafnvel á móti því að Austfirðingum sé rétt hjálparhönd í þeirri erfiðu stöðu sem þar ríkir í atvinnumálum. Þetta er auðvitað fráleitt. Ég get sagt fyrir mitt leyti, herra forseti, að ég er afskaplega hlynntur því að vistvæn íslensk orka sé seld og nýtt skynsamlega í þágu almennings og ég er heldur ekki á móti stóriðju. Ég er ekkert endilega á móti Fljótsdalsvirkjun í sjálfu sér. En ég er algerlega á móti þeirri leið sem hér hefur verið valin og þeirri tímalegu spennitreyju sem hefur verið sett á þetta mál. Því að hin tímalega spennitreyja er heimatilbúin. Ég hef hvergi fundið haldbær rök sem segja mér að við séum í einhverri tímaþröng í málinu. Ég held að affarasælast sé að gera hlé á málinu og leggja það fyrir þjóðina og fá úr því skorið hvort þjóðarvilji sé á Íslandi til þess að halda áfram þeim framkvæmdum sem við erum að ræða um.

Málið hefur þróast þannig upp á síðkastið að að mínu mati snýst vandamálið alls ekki um hvort menn fallist á að Fljótsdalsvirkjun fari í lögformlegt umhverfismat eða ekki. Málið er orðið allt annað og mun stærra. Málið snýst ekki bara um Fljótsdalsvirkjun eina og sér. Málið snýst um það tvíeyki sem hér hefur verið til umræðu, virkjun og álverið sjálft. Að mínu mati verður ekki hjá því komist að ræða um málið í heild sinni og þar á meðal er ástæða til að skoða þá stöðu sem Íslendingar eru komnir í gagnvart Norsk Hydro.

Því hefur verið haldið fram að verið sé að ræða um byggðamál. Það er í sjálfu sér rétt að það eru mikilvægir staðbundnir hagsmunir á Austfjörðum í þessu máli. En spurningin um Fljótsdalsvirkjun og álver er spurning um heildarhagsmuni þjóðarinnar fyrst og fremst og það er fráleitt að gera það mál að togstreitu á milli Austfirðinga og landsins að öðru leyti. Sú tímaþröng sem hefur komið upp í þessu máli er auðvitað heimatilbúin og hún er sennilega afleiðingin af því að við höfum komið okkur í þá klaufalegu aðstöðu gagnvart Norsk Hydro að við erum nú rétt fyrir jól í spennu með þetta mál til afgreiðslu, fyrst og fremst til að uppfylla skilyrði sem okkur hafa verið sett eða við búið til sjálf.

[10:30]

Herra forseti. Hér er á ferðinni svo alvarlegt mál að full ástæða er til að vara við hugsanlegum afleiðingum af því ferli sem verið er að áforma vegna þess að ég get ekki betur séð en að sú sérkennilega mynd af íslensku lýðræði sé á hinu hv. Alþingi að búið sé að ákveða það fyrir fram að nýta meirihlutastöðu hæstv. ríkisstjórnar á Alþingi til að afgreiða þetta mál og þar með sé það fyrir fram ákveðið að þau rök, sem fram eru færð í málinu gegn því að framhald verði á framkvæmdum, séu fyrir fram dæmd úr leik.

Herra forseti. Ég man ekki betur en að það hafi gerst fyrir nokkrum árum að hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, hafi tilkynnt þjóðinni í fjölmiðlum að erlendur aðili væri alvarlega að íhuga að reisa hér á landi álver af stærðargráðunni 240--700 þúsund tonn og jafnframt að hinn erlendi aðili hefði áhuga á því að fjárfesta í nauðsynlegum virkjunum. Síðar kom í ljós að hér mun hafa verið átt við Norsk Hydro. Mál þetta hefur þróast þannig að í dag hefur Norsk Hydro bakkað með öll þessi áform þannig að nú virðist sá áhugi einn vera eftir hjá Norsk Hydro að vera 20% eignaraðili í dæminu og ég hef hvergi fundið neina haldbæra skýringu á þeim breytingum á viðhorfi og áhuga Norsk Hydro.

Samningsstaða Íslendinga gagnvart Norsk Hydro er afspyrnu léleg. Samningsstaðan er þannig að ætlunin er að reisa Fljótsdalsvirkjun og selja orkuna til eins aðila. Og við þann aðila, Norsk Hydro, erum við í viðræðum um verð á orkunni. Við erum þegar búin að fjárfesta í virkjunardæminu og áformin eru þau hjá hæstv. ríkisstjórn að halda áfram með þá fjárfestingu, vitandi það að við erum að ræða við eina kúnnann sem á að vera kaupandi að orkunni.

Í umræðunni um fjármögnun undanfarið hafa komið fram ýmsar hugmyndir. Fyrsta spurningin, herra forseti, sem ég tel að við þurfum að fá svar við er spurningin um hvort Íslendingar eigi yfirleitt að fjárfesta sjálfir í álverum. Ég tel að það sé afskaplega vafasamt og ætla að færa rök fyrir því síðar.

Einnig hafa komið upp hugmyndir um hvort íslenskir lífeyrissjóðir eigi að fá tækifæri til að vera með í fjárfestingu á álveri fyrir austan. Ég hef oftsinnis orðið var við það, herra forseti, að það eru margir á Íslandi sem vilja sækja í sjóði lífeyrisþega landsins. Það eru margir sem þola ekki þá tilhugsun að fjármunir hafi safnast fyrir hjá lífeyrissjóðum og komið hefur fram sækni í þá fjármuni með ýmsu móti.

Að undanförnu höfum við verið að ræða um íslenskt velferðarkerfi og í þeirri umræðu kom í ljós að það eru einmitt þessir lífeyrissjóðir sem eru aðalbakhjarl velferðar ellilífeyrisþega og öryrkja á Íslandi. Og það er að mínu mati fráleit tilhugsun að íslenskir lífeyrissjóðir fari að leggja áhættufé í álver á Íslandi.

Fyrir utan umræðuna um þennan hluta fjármögnunar hafa komið fram í fjölmiðlum mjög misvísandi upplýsingar um forsendur kostnaðar, forsendur fjármögnunar, og m.a. kom það fram í viðtali við hæstv. iðnrh., Finn Ingólfsson, í Morgunblaðinu í ágúst sl. að áætlaður stofnkostnaður Fljótsdalsvirkjunar væri um 30 milljarðar. Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, upplýsti í viðtali við Sigurð Jóhannesson hagfræðing í október sl. að áætlaður stofnkostnaður vegna Fljótsdalsvirkjunar og raflína tengdum væntanlegri álbræðslu í Reyðarfirði væri 25 milljarðar. En um þessar mundir koma upplýsingar frá fulltrúum Landsvirkjunar um að stofnkostnaðurinn sé 22 milljarðar.

Upplýsingar um væntanlega orkuframleiðslu í Fljótsdalsvirkjun hafa einnig verið með ýmsu móti. Í upphafi gaf Landsvirkjun upp áætlun sem snerist um 1250 gwst. á ári. Nýlega breyttust þær tölur í 1390 gwst. á ári. Þær misvísandi upplýsingar sem hafa komið fram að undanförnu, herra forseti, hafa gert það að verkum að þeir sem hafa viljað gagnrýna þessi áform á efnahagslegum forsendum hafa verið gerðir tortryggilegir á þeirri forsendu að þeir hafi ekki haft réttar upplýsingar og ekki notað réttar tölur.

Gagnrýnisraddir hafa komið fram sem hafa leitt rök að því að Íslendingar muni í framtíðinni standa frammi fyrir stórkostlegu tapi við rekstur þeirra virkjana sem um er að ræða. Í Morgunblaðinu fyrir stuttu kom fram að núvirt tap á rekstri Fljótsdalsvirkjunar í hundrað sé á bilinu 530--3280 milljónir miðað við að gerð sé ávöxtunarkrafa upp á 4--6%. Og það er tekið fram að þetta sé samkvæmt bjartsýnisspá, en að reikna megi með 12--13 milljarða tapi á sama tímabili ef miðað er við raunsæjar forsendur.

Sigurður Jóhannesson hagfræðingur segir í Frjálsri verslun fyrir stuttu, blaði nr. 9, að 13 milljarða tap verði á virkjuninni. Í dæmi sínu reiknar Sigurður með að 14 mill fáist fyrir orkuna og hann reiknar með 6% ávöxtunarkröfu. Til viðmiðunar má geta þess að nú þegar verðið á áltonni er u.þ.b. 1.500 dollarar er gert ráð fyrir að ÍSAL kaupi orkuna á 14 mill sem er 1 kr. fyrir kwst. um þessar mundir. Og það er áætlað að Norðurál greiði 10 mill fyrir kwst. og járnblendið um 8--9 mill. Í dæmi Sigurðar er gert ráð fyrir afskriftatíma virkjunar á 45 árum.

Einnig hefur komið fram, herra forseti, gagnrýni frá Þorsteini Siglaugssyni viðskiptafræðingi og er hún mjög svipuð þeirri sem hefur komið fram hjá Sigurði Jóhannessyni eins og ég hef rakið.

Viðbrögð við þessari gagnrýni hafa fyrst og fremst einkennst af því að menn hafa verið ásakaðir um að nota rangar forsendur. En þegar betur er að gáð hafa þeir gagnrýnendur fyrst og fremst notað forsendur sem hafa fengist hjá hinu opinbera.

Gert er almennt ráð fyrir því varðandi ávöxtunarkröfu að fjárfestingar af þessu tagi skili á bilinu 5,5--7% ávöxtun. Varðandi opinberar framkvæmdir í Bretlandi er gerð almenn krafa um 6% ávöxtun fjárins. Alþjóðabankinn hefur lengst af gert kröfu um 7% ávöxtunarkröfu.

Í umræðunni undanfarið hefur komið fram að Friðrik Sophusson, núverandi forstjóri Landsvirkjunar, hafi áætlað að Fljótsdalsvirkjun skili um 5,5% ávöxtun og í tölum Landsvirkjunar hefur verið rætt um ávöxtunarkröfu upp á 5--6%.

Í Morgunblaðinu 17. des. birtist grein Stefáns Péturssonar og Kristjáns Gunnarssonar, fulltrúa Landsvirkjunar, þar sem kemur fram að Landsvirkjun sé um þessar mundir að taka lokaákvörðun um þá ávöxtunarkröfu sem fyrirtækið mun nota í samningum við Norsk Hydro. En hvað vitum við um það verð sem er raunhæft að búast við frá stóriðju af þessu tagi? Hvað er það sem við fáum í dag fyrir kwst.?

[10:45]

Meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju árið 1998 voru 0,88 kr. fyrir kwst. og í umræðunni undanfarið hefur komið fram að menn gera jafnvel ráð fyrir því að verðið á áltonninu muni lækka á næstunni og mun það að sjálfsögðu hafa áhrif á það verð sem Landsvirkjun fær fyrir hverja kwst. því að eins og menn vita, herra forseti, er verð á kwst. yfirleitt tengt verði á áltonni á markaði.

Ég hef fengið þær upplýsingar, herra forseti, að kostnaðarverð við framleiðslu hverrar kwst. sé talið vera hér u.þ.b. 1,50 kr. og því sjáum við að dæmið er afskaplega dapurlegt þegar farið er yfir markaðinn og þær tölur skoðaðar sem sýna það verð sem við höfum fengið fyrir okkar orku undanfarið.

Menn hafa einnig verið að deila um afskriftatíma virkjana. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið, herra forseti, er gert ráð fyrir hjá Landsvirkjun að afskriftatími véla og búnaðar sé um 30 ár en 60 ár vegna steyptra mannvirkja. Nú er álitið að virkjun sé samansett af þessu tvennu í hlutfallinu 25% á móti 75% og það er þannig sem menn fá út afskriftatímann 45 ár. Í þeim dæmum sem gagnrýnendur þessara framkvæmdaáætlana hafa lagt fram hafa menn verið að nota upplýsingar sem ég hef verið að rekja hér. Og menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að hér sé á ferðinni veruleg áhætta og viðbrögð manna við þeirri gagnrýni bendi til þess að menn viti að þetta er mikil áhætta fyrir íslenskt hagkerfi. En það virðist vera sem svo að málið hafi tekið á sig þá mynd og fengið slíkt ferli í afgreiðslu að ekki sé tími til að skoða þær stærðir, menn séu búnir að koma sér í tímaþröng og ætli að skella skollaeyrum við þeim gagnrýnisröddum sem ég hef áður lýst.

Ég ætla mér ekki, herra forseti, að fara út í nákvæma umræðu um umhverfisáhrif, hvorki álvers né virkjunar. Það hafa menn þegar gert hér og munu gera í umræðunni í dag, menn sem hafa meiri upplýsingar og kunnáttu en ég hef í þeim efnum. En ég vek athygli á því að þingfundur dagsins byrjaði á átökum sem snúast um ábendingar skipulagsstjóra og kröfur um frekari skoðun og mat á umhverfisáhrifum. Þær deilur sem voru í upphafi þingfundar, herra forseti, segja mér það eitt að hér sé á ferðinni mál sem þurfi meiri tíma og þurfi frekari rannsókna við, mál sem kallar á betri sátt í þjóðfélaginu og það er þess vegna sem þessi brtt. er lögð fram, til þess að gefa mönnum tíma og andrúm til að stunda faglegri og vandaðri vinnu en hingað til.

Það er augljóst mál að fyrirhugaðar framkvæmdir munu hafa veruleg áhrif á íslenskt hagkerfi. Merkilegt er til þess að vita að það er eins og menn hafi ætlað að þær miklu fjárfestingar sem hér eru fram undan muni fyrst og fremst hafa staðbundin áhrif á Austurlandi, en muni ekki hafa skaðvænleg áhrif á hagkerfið í heild sinni þótt svo að við séum með þrisvar til fjórum sinni meiri verðbólgu í dag en að meðaltali í OECD-löndunum og að við séum að tala um jafnvel 20 milljarða fjárfestingar á ári hverju á næstunni.

Varðandi umræðuna um áhrifin á íslenska hagkerfið hefur mér, herra forseti, þótt sérstakt að fylgjast með þætti Þórðar Friðjónssonar þjóðhagstofustjóra í þessu máli. Þjóðhagstofustjóri hefur komið með varnaðarorð í fjölmiðlum, hefur boðað varúð og bent á að töluverð þensla sé í íslensku hagkerfi og menn verði að gæta sín. En sem samningamaður um álbræðslu álítur sami Þórður Friðjónsson að þetta sé ekkert mál. Þórður Friðjónsson telur einnig að það að lífeyrissjóðirnir komi til með að standa undir 30% af fjármögnun álvers sé heldur ekkert mál. Ég held að það sé afskaplega óheppilegt að gera þjóðhagstofustjóra landsins það að þurfa að sitja beggja megin borðs í svona máli því að ég er sannfærður um að ef við förum af stað með þær framkvæmdir sem eru áformaðar muni það auka verulega þenslu á landsvísu og muni gera ástandið hér á landi mun erfiðara en við viljum vera láta í umræðunni eins og hún hefur verið undanfarið.

Herra forseti. Umræðan um Fljótsdalsvirkjun og álver í Reyðarfirði hefur klofið þjóðina í andstæðar fylkingar. Eins og ég sagði áðan er meira að segja búið að gera umræðuna þannig að hún sé hagsmunaátök milli landshluta. Það er fráleitt að færa þessa deilu á slíkt plan því að það sem hér er verið að ræða um er auðvitað ekki einkamál Austfirðinga, þetta mál er mál þjóðarinnar í heild og það verður að nást frekari og meiri sátt um þetta mál en hingað til.

Þeir sem vilja staldra við og gefa málinu meiri tíma eru ekki á móti því að rétta Austfirðingum hjálparhönd í því atvinnuástandi sem þar ríkir. Þetta snýst ekkert um viðhorf þjóðarinnar til Austfirðinga. Þetta snýst um áform um Fljótsdalsvirkjun og álver, fjármögnun, umhverfisáhrif og allt annað það sem ég hef verið að ræða um.

Samningsstaða okkar gagnvart Norsk Hydro er að mínu mati fráleit. Eða hvernig lítur dæmið út? Dæmið lítur þannig út í mínum augum, herra forseti, að við höfum valið okkur einn kaupanda að vistvænni íslenskri orku. Við höfum þegar lagt mikið fé í framleiðslu orkunnar, í framleiðsluþáttinn. Við vitum hvert heimsmarkaðsverð er á þeirri orku og við vitum að við erum ekki samkeppnisfær þar. Við getum ekki keppt við Suðaustur-Asíu, við getum ekki keppt við Afríku og við getum ekki keppt við Suður-Ameríku. Við eigum að gera kröfu til þess að fá mun meira fyrir okkar orku en þessi lönd. Við eigum ekki að hafa hliðsjón af heimsmarkaðsverði á orku. Við erum í öðrum flokki.

Við eigum að staldra við og segja við Norsk Hydro: Við ætlum að bíða, gera hlé og skoða málið betur. Þjóðin þarf að vita hvers vegna Norsk Hydro hefur bakkað. Þjóðin þarf að vita hvers vegna Norsk Hydro hefur lagt til hliðar áformin um að byggja hér 240--700 þúsud tonna álver og jafnframt fjárfesta í virkjunum. Hvers vegna hafa þessi áform breyst?

Skyldi það vera vegna þess að Norsk Hydro hefur áttað sig á að þetta dæmi gengur ekki upp? Og ef svo er, að Norsk Hydro hefur áttað sig á því að dæmið gengur ekki upp, ætlum við samt að halda áfram af því að það hafa átt sér stað pólitískar yfirlýsingar, loforð og væntingar sem hafa sett þetta mál í þann farveg að við erum hér rétt fyrir jól að afgreiða þáltill. frá hæstv. ríkisstjórn?

Ég held að menn verði að gera sér grein fyrir því að hér er á ferðinni hið alvarlegasta mál sem kann að leiða af sér verulegt tjón, bæði fyrir land og þjóð.

[11:00]

Það eru rauð ljós alls staðar í kringum okkur í þessu máli. Við getum ekki afgreitt þetta mál og vita af þeim deilum sem eru í gangi í þjóðfélaginu, deilum um umhverfisáhrif, deilum um forsendur fjárfestinganna, deilum innan þings sem utan. Væri ekki eðlilegt í slíkri stöðu að stöðva málið af og jafnvel fá erlenda úttekt, ef við treystum útlendingum betur, á því máli sem hér er til umræðu?

Hvað segir sagan okkur? Muna menn eftir því þegar Union Carbide dró sig út úr samningum um eignaraðild að járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði? Þá sátu Íslendingar eftir allt í einu hálfruglaðir með sárt ennið og Sigölduvirkjun í fanginu sem var beinlínis ráðist í einmitt vegna fyrirhugaðrar járnblendiverksmiðju. En þá kom Elkem Spigerverket til hjálpar og það fékk 20% hlutdeild í verksmiðjunni í formi tækniþekkingar án þess að leggja eina einustu krónu í hlutafé. Kannast menn við það? Og síðan fékk Elkem Spigerverket 15 ára samning um sölu afurða sem nam 3% af veltu.

Þetta kallaði fyrrverandi forstjóri járnblendiverksmiðjunnar réttilega blóðpeninga. Og tókst með harðfylgi og hjálp góðra manna að losna undan þeim samningi 11 árum síðar. Talið er að Íslendingar hafi tapað alls um 12--15 milljörðum á því ævintýri. Og sumir hafa sagt að þær tölur kunni að vera smámunir einir samanborið við áætlað tap af 480 þúsund tonna álveri, eins og menn eru með áform um nú.

Við verðum að stöðva málið hér. Við megum ekki gera þau hrikalegu mistök sem virðast vera í uppsiglingu. Við verðum að ná betri samstöðu meðal þjóðarinnar um þessi áform. Við verðum að fá upplýsingar um hvers vegna Norsk Hydro hefur bakkað út úr málinu eins og gerst hefur. Og það gerum við, herra forseti, með því að leggja áformin um áframhaldandi framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun undir þjóðaratkvæði og nota tímann til að styrkja allan faglegan undirbúning og koma okkur í viðunandi samningsaðstöðu, bæði fyrir Austfirðinga og þjóðina í heild, vegna þess að Ísland hefur nefnilega sterka stöðu sem við nýtum ekki í þessu dæmi.

Við eigum mikla vistvæna orku hér á landi og hana eigum við að selja, herra forseti. Við eigum líka frábæran mannafla, höfum mikla kunnáttu og stöðugleiki er í íslensku þjóðfélagi. Allt þetta samanlagt á að gera Íslendingum kleift að gera betri samninga um orkusölu heldur en nokkurri annarri þjóð á að takast. Og það er þess vegna sem við verðum að stöðva málið hér og vinna það upp. Það væri fráleitt að gera annað.