Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 11:46:08 (3519)

1999-12-20 11:46:08# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[11:46]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að það sé atvinna í þessu landi. En það er líka nauðsynlegt að við förum ekki út í fjárfestingar sem verða með bullandi tapi. Útreikningarnir sem ég vitnaði til voru auðvitað miðaðir við það gangverð sem er á rafmagni og hæsta verð sem gefst á orkumarkaði í stóriðju í heiminum.

Ég held að það sé nauðsynlegt eftir þessa ræðu hæstv. ráðherra að iðnn. fái upplýsingar um þessa hluti og ef þetta er svona mikið leyndarmál þá fái þeir a.m.k. þessar upplýsingar (Utanrrh.: Hvað er ég búinn að segja við þig?) í trúnaði. Hvað getur hæstv. ráðherra farið lágt í samningunum? Hvað þarf hann að selja rafmagnið á til þess að þarna sé ekki tap?

Herra forseti. Við eigum fulla heimtingu á því að fá upplýsingar um hvað menn ætla að selja rafmagnið á. Ég vil fá útreikning á því frá mönnum sem kunna eitthvað í efnahagsmálum og eru sérfræðingar á þessu sviði. Ég vil fá upplýsingar um það og ég tel það vera skyldu okkar þingmanna að fá slíkar upplýsingar, þ.e. hvort hér er verið að fara út í eitthvert fjárfestingarglapræði eða ekki, fjárfestingarglapræði eins og margir hagfræðingar hafa bent á og þeirra rök hafa ekki verið hrakin.

Herra forseti. Ég vil fá upplýsingar um það frá hæstv. ráðherrum á hvaða forsendum þeir byggja sína útreikninga. Hæstv. ráðherra segir að ekki sé hægt að reikna út arðsemismatið af því hann viti ekki hvernig samningarnir verði. Á einhverju hljóta menn að byggja þegar þeir eru að undirbúa svona framkvæmdir.