Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 11:48:59 (3521)

1999-12-20 11:48:59# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[11:48]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér í útreikningum er miðað við hæsta og lægsta verð sem gefst á þessum mörkuðum. Það er ekki nóg, herra forseti, að ríkisstjórnin hafi trú á þessu. Það er ekki nóg fyrir þingmenn að taka afstöðu með eða á móti því hvort að fara eigi út í þessa virkjun eftir því hvort ríkisstjórnin hafi trú á þessu eða ekki. (KHG: Við eigum fulltrúa í Landsvirkjun.) Hefur almenningur trú á þessu? (Gripið fram í: Já.) Hagfræðingar sem hafa birt sína útreikninga hafa ekki trú á þessu og þeir sýna fram á það með mjög gildum rökum að þetta getur ekki staðist, að þarna verði alltaf tap. Og sérstaklega þegar vísað er til þess hvernig hefur verið staðið að svona málum undanfarin ár.

Hvernig var ekki með Kröfluævintýrið og önnur virkjanaævintýri eins og hefur verið rakið hér í umræðunni? (KPál: Þá voru engir samningar.) Ja, ég ætla ekki að segja það í þessum ræðustól hvað ég vildi helst segja um þetta mál. En eftir þetta andsvar frá hæstv. ráðherra er ég vissulega enn harðari á því að iðnn. eigi að fá upplýsingar um hvað miðað er við, við hvaða verð er verið að miða, hvaða arðsemismat og alla þá útreikninga sem menn miða við þegar þeir undirbúa þessa framkvæmd.

Ég er ekki neitt að draga úr þessu. Ég fer með varnaðarorð. Ég fer með varnaðarorð eins og vissulega er full ástæða til í þessu máli, a.m.k. í framhaldi af skrifum virtra hagfræðinga sérmenntaðra í efnahagsmálum.