Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 12:41:08 (3531)

1999-12-20 12:41:08# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[12:41]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði um það í ræðu sinni að hún furðaði sig á því að fulltrúar Samfylkingarinnar hefðu setið hjá þegar málið var afgreitt úr iðnn. Ég var sannfærð um að það hlyti að vera reynsluleysi hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar eða það væri þá bara það mottó vinstri grænna að vera alltaf á móti öllu þegar hann greiddi atkvæði á móti því að málið færi út úr iðnn. því að við höfðum verið allan daginn á fundi um málið, búið var að synja öllum beiðnum um að nokkur kæmi á fund nefndarinnar. Tilkynnt hafði verið að málið fengi ekki frekari meðferð í nefndinni.

Þegar málið var síðan tekið út kom hv. þm. vinstri grænna inn á fundinn, hafði ekki verið viðstaddur þegar var búið að synja allri meðferð á málinu, þegar málið var borið upp, hvort það ætti að fara út úr nefndinni. Að sjálfsgöðu sátum við þá hjá og afgreiðslan úr nefndinni var algjörlega á ábyrgð meiri hluta iðnn. vegna þess að það var búið að synja allri meðferð í nefndinni og það átti ekkert að vinna málið meira samkvæmt meiri hlutanum. (Forseti hringir.)

Ég taldi því að það væri þá annaðhvort reynsluleysið eða það að vera alltaf á móti hvað sem tautar og raular sem réði þarna ákvörðun hv. þm. þar sem hann skaust inn á fundinn þegar var verið að afgreiða málið út úr nefndinni en hafði ekki fylgst með frekari umræðu.