Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 12:45:52 (3535)

1999-12-20 12:45:52# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[12:45]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ögurstundin er runnin upp, en enn er tími til að snúa til baka. Enn er tími til þess að bjarga málefnum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar úr sjálfheldu. En til þess, herra forseti, þarf vit, þor og framsýni og til þess þarf auðmýkt. Það þarf vit til þess að skilja staðreyndirnar sem við hv. þingmönnum blasa. Það þarf þor til þess að viðurkenna að áætlanir ríkisstjórnar Íslands eru feigðarflan. Það þarf nokkra framsýni til þess að átta sig á því að atvinnuhættir gamla tímans eiga ekki lengur við, ekki nú, hvað þá eftir hálfa öld.

Herra forseti. Auðmýktar er þörf, auðmýktar gagnvart komandi kynslóðum, gagnvart náttúrunni og auðmýktar gagnvart þeirri staðreynd að enginn hér inni, enginn hv. þm., veit með vissu hversu dýrkeypt fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun verður landi og þjóð. Sú óvissa ein ætti að nægja til þess að sannfæra hvert mannsbarn um að á ögurstundu skuli snúið til baka.

Í hausthefti Skírnis er athyglisverð grein eftir Guðmund Hálfdánarson sagnfræðing. Hún ber yfirskriftina Hver á sér fegra föðurland og fjallar um stöðu náttúrunnar í íslenskri þjóðernisvitund. Í greininni er eftirfarandi tilvitnun, með leyfi herra forseta:

,,Menn segja að við Íslendingar séum fátækir. En fátækt er margs konar. Stundum vantar auð, stundum vit eða þekkingu, stundum siðgæði eða fegurðarþroska. Sumir menn sjá enga fegurð í kringum sig, en aðrir mikla. Þeir fyrrnefndu eru fátækir, þeir síðarnefndu ríkir. Og þessi fátækt er almenn á Íslandi. Vegna hennar hryggjast margir að óþörfu yfir kjörum sínum, þrá fjarlæga og ófáanlega fegurð, en loka augunum fyrir þeirri fegurð sem umkringir þá. Þetta er sár fátækt.

En hitt er gulli dýrara, að finna uppsprettu gleði og nautna í línum fjallanna, í litbrigðum lands og lagar, við ströndina, í ólgu brimsins, í sveitinni, í hruni fossanna, á sumrin í litskrúða og formfegurð jurtanna, á vetrarkvöldum í tindrandi stjörnum og iðandi norðurljósum. Sá sem ann þessu er aldrei einn þótt fjarlægur sé hann öllum mönnum. Hann er í stöðugum lifandi tengslum við náttúruna, verður með dögum og árum auðugri að dýrðlegri, óafmáanlegum myndum þeirrar fegurðar sem allir eiga aðgang að en fáir finna.``

Þessi orð ritaði faðir Framsfl., Jónas Jónsson frá Hriflu, í Skinfaxa árið 1912, herra forseti. Sjónarmið sem þessi eiga sér fáa málsvara í hinum sama flokki árið 1999. Það er einmitt svo að sjálfsvitund og þjóðarvitund okkar Íslendinga er tengd náttúrunni traustari böndum en flestum öðrum þáttum sem samtvinnaðir mynda samfélagið sem við búum í. Líklega eru það einungis fornbókmenntirnar sem eru gildari þáttur í karakter hinnar íslensku þjóðar en náttúran sjálf. Það er því ekki að undra, herra forseti, að skáldin leyfi sér að lesa upp ljóð á Austurvelli til varnar landinu. Orð skáldanna, tungan, ljóðin, eru ekkert tyllidagaprjál. Þau nálgast best kjarna þeirrar baráttu sem nú er háð fyrir framtíðinni.

Herra forseti. Verndargildi svæðisins sem fer undir Fljótsdalsvirkjun hefur ekki verið metið. Er landið verðlaust? Skiptir engu máli að hugsanlega væru óbyggðirnar norðan Vatnajökuls okkur meira virði þegar til lengdar lætur óspilltar og ósnortnar af mannanna höndum?

Norskur umhverfisfræðingur, Ståle Navrud að nafni, var staddur hér á landi á dögunum. Hann flutti landsmönnum merkileg skilaboð og við skulum staldra við þau. Hann ræddi um efnahagslegt gildi náttúrunnar og að eftir því sem ósnortnum víðernum fækkar í Evrópu og reyndar á jörðinni allri, þá eykst gildi þeirra að sjálfsögðu. En gildi náttúrunnar má vel mæla í verðinu sem þeir sem nú eru uppi og komandi kynslóðir eru tilbúnir til þess að greiða fyrir varðveislu og vernd hennar. Sé slíkt ekki tekið með í reikninginn er gildi náttúrunnar undantekningarlítið gróflega vanmetið.

Ståle Navrud bendir líka á að norskar rannsóknir sýni að hagnaðurinn af því að stofna þjóðgarð reyndist þrisvar sinnum meiri en kostnaðurinn sem fylgdi því að stofna hann. Getum við, herra forseti, kastað þessum möguleika fyrir róða? Vill hið háa Alþingi bera ábyrgð á því?

Herra forseti. Þegar öllu er á botninn hvolft vitum við ekki hvaða verðmæti tapast við að virkja í Fljótsdal. Samt stendur ekki annað til hjá ríkisstjórn Íslands en að hefja framkvæmdir sem munu valda óafturkræfum náttúruspjöllum á svæði sem er einstakt á heimsvísu.

Herra forseti. Fyrr í þessari umræðu hafa verið færð mikil og ítarleg rök og allar staðreyndir tíndar til fyrir náttúrufarslegri sérstöðu Eyjabakkanna og svæðisins alls í raun norðan Vatnajökuls og ég ætla ekki að fara að tíunda það aftur. En í þessar framkvæmdir á að fara í þágu atvinnuuppbyggingar sem ber öll einkenni hinnar gjaldþrota byggðastefnu Sjálfstfl. og Framsfl. Er nokkur furða, herra forseti, þó menn spyrji sig um forsendur, tilgang og niðurstöðu? Er nokkur furða þótt þorri almennings standi agndofa gagnvart yfirgangi og fyrirhyggjuskorti íslenskra stjórnvalda?

Í tvo áratugi hefur Austfirðingum verið boðið upp á ofurlausnir að sunnan, sápukúlu sem springur ef samkomulag næst ekki um raforkuverð. Hvað ef samkomulag næst ekki um viðunandi raforkuverð, herra forseti? Hvað þá? Hverjar eru þá áætlanir ríkisstjórnar Íslands?

Og það er merkilegt, herra forseti, að sitja á hinu háa Alþingi og hlusta á þingmenn Sjálfstfl. lofsyngja kröfur neyslusamfélagsins ellegar beita þagnarafbrigðinu eins og það hefur verið kallað í þessari umræðu þó taka beri fram að hv. þm. Kristján Pálsson er heiðarleg undantekning þar á.

Vinnubrögðin í þessu máli eru þannig að stjórnvöld í Ráðstjórnarríkjunum sálugu hefðu verið fullsæmd af þeim, þ.e. hugmyndirnar sem hér búa að baki og það offors og sá skortur á ást á lýðræðinu sem þessi vinnubrögð bera vitni um. Það er sannast sagna undarlegt að standa við þröskuld nýrrar aldar, nýrrar aldar sem mun færa okkur líklega meiri velgengni, hraðari uppbyggingu þekkingar- og upplýsingasamfélagsins en nokkurn óraði fyrir og standa hér í kappræðu við stjórnvöld um framkvæmdir sem menn hefðu verið fullsæmdir í sovét á millistríðsárunum. Og eftir stendur að engrar varúðar skal gætt, verðmætin skulu ekki metin. Það er ekki hlustað á rök. Það er ekki tekið tillit til staðreynda og það er í raun og veru alveg sama hvað við í stjórnarandstöðunni höfum sagt á liðnum vikum og mánuðum, það hefur aldrei staðið til að hlusta á vilja stjórnarandstöðunnar í þessu efni. Þáltill. ríkisstjórnarinnar var til þess eins að stilla upp sínu liði og auðvitað telja saman í liði stjórnarandstöðunnar í leiðinni.

Nei, herra forseti. Hið háa Alþingi er orðið að leikvelli stjórnlyndra manna, manna sem tjáir ekki að rökræða við, manna sem gildir einu hvaða rök eru færð fyrir máli, hvaða staðreyndir blasa við. Þeir munu líka, herra forseti, bera fulla ábyrgð á þessu máli, fulla ábyrgð. Og svo verður það líklega eftir svona hálfa öld þegar langflestir sem nú sitja á hinu háa Alþingi verða komnir undir græna torfu, að niðurstaðan mun blasa við komandi kynslóðum. Niðurstaðan mun blasa við Íslendingum nýrrar aldar sem aldrei fengu tækifæri til þess að meta verðmæti þeirrar náttúru sem nú mun glatast.