Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 14:00:38 (3542)

1999-12-20 14:00:38# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Fyrir skemmstu skilaði umhvn. Alþingis til iðnn. tveimur álitum varðandi það mál sem hér er verið að ræða, þáltill. um stuðning Alþingis við framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Annað af þessum álitum var stutt af fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni og þannig liggur það fyrir svo óyggjandi er, herra forseti, að meiri hluti umhvn. stendur saman málefnalega í þessu máli og styður það sjónarmið að nauðsynlegt sé að Fljótsdalsvirkjun lúti lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993.

Í áliti því sem stutt er af meiri hluta nefndarinnar eru gerðar margar alvarlegar athugasemdir við skýrslu Landsvirkjunar, Fljótsdalsvirkjun, umhverfi og umhverfisáhrif, en hún er eitt af grundvallargögnum málsins og eru þær athugasemdir studdar efnismiklum rökum vísindamanna og embættismanna sem komu á fund nefndarinnar.

Mikill meiri hluti þeirra gesta sem umhvn. kallaði á sinn fund lýsti stuðningi við það að virkjunin færi í mat samkvæmt lögum. Þeir af gestum nefndarinnar sem lýst hafa sig mótfallna lögformlegu mati voru hins vegar einungis hagsmunaaðilar á borð við Landsvirkjun, fulltrúar sveitarfélaga á Austurlandi, hagsmunasamtök íbúa á Austurlandi og ráðuneyti iðnaðar- og umhverfismála sem heyra undir ráðherra og geta varla talist hlutlausir aðilar.

Iðnrh. segir í grg. með þáltill. sinni að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun lúti leyfi frá þáv. iðnrh., Jóni Sigurðssyni, sem útgefið er 24. apríl 1991. En hann lætur þess jafnframt getið að sveitastjórn Fljótsdalshrepps hafi ekki veitt leyfi fyrir öðrum framkvæmdum en þeim sem lúta að aðkomugöngum virkjunarinnar. Þar með lýsir ráðherrann því yfir, herra forseti, að leyfi Fljótsdalshrepps hafi þurft fyrir áframhaldandi framkvæmdum árið 1991.

Skilningur skipulagsstjóra ríkisins er eilítið annar hvað varðar þetta atriði, en í áliti hans til umhvn., dags. 3. des. 1999, kemur fram að engar beinar leyfisveitingar vegna framkvæmda hafi verið fyrir hendi samkvæmt skipulagslögum, nr. 19/1964, með síðari breytingum, sem í gildi voru þegar virkjunarleyfi þáv. iðnrh. var gefið út, en að hans mati hafi leyfi þáv. iðnrh. verið ígildi framkvæmdaleyfis. Hins vegar hafi ekki verið til staðar leyfi fyrir húsbyggingum vegna virkjunarinnar, þar með talin eru stöðvarhús og aðrar þær húsbyggingar í tengslum við virkjunina sem reisa hefði þurft.

Iðnrh. og skipulagsstjóri virðast því sammála um að leyfi hafi skort 1991 fyrir ákveðnum þáttum framkvæmdarinnar þó að ágreiningur sé um hvers konar leyfi hafi skort.

Herra forseti. Síðan komu til sögunnar ný skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, en skv. 27. gr. þeirra laga eru framkvæmdir á borð við stíflugerð, vegi, veitur og efnistökustaði háðar framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Slíkt leyfi frá sveitarstjórn Fljótsdalshrepps, herra forseti, er ekki til staðar. Og einnig skortir enn byggingarleyfi fyrir öllum húsbyggingum tengdum virkjuninni. Milli skipulagsstjóra og iðnrh. er uppi ágreiningur um þessa túlkun.

Álit skipulagsstjóra ríkisins til umhvn. staðfestir einnig þann ágreining sem ríkir um skipulagsþátt málsins, en samkvæmt áliti skipulagsstjóra kalla fyrirhugaðar framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun á gerð deiliskipulags, annars vegar fyrir aðkomu og stöðvarhússvæði og hins vegar fyrir stíflusvæði. Á grundvelli samþykkts svæðisskipulags miðhálendisins geta því sveitarstjórnir Fljótsdalshrepps og sveitarstjórn Norðurhéraðs auglýst deiliskipulagstillögu fyrir stíflusvæði virkjunarinnar og sveitarstjórn Fljótsdalshrepps getur, að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar, auglýst deiliskipulagstillögu fyrir aðkomu og stöðvarhússvæði.

Það er ekki vitað, herra forseti, hversu langt vinna við deiliskipulagstillögur þessar er á veg komin. En þetta álit stangast hins vegar á við álit hæstv. iðnrh. sem lýst er í grg. með tillögunni, en þar segir, með vísan til 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgðar í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, að sveitarstjórn geti, án þess að fyrir liggi staðfest aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag og að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar, leyft einstakar framkvæmdir sem um kann að vera sótt.

Hæstv. iðnrh. er því þeirrar skoðunar að hægt sé að undanskilja framkvæmdirnar staðfestu eða auglýstu deiliskipulagi.

Vegna þess ágreinings, herra forseti, sem ríkir um skipulagsþátt málsins og leyfisveitingar vegna framkvæmdanna er álit skipulagsstjóra ríkisins, dags. 3. des. 1999, birt í heild sinni með nál. 1. minni hluta iðnn. þannig að öllum sé ljóst í hverju þessi ágreiningur er fólginn. En um það eru engar deilur að ágreiningur er til staðar. Og hæstv. iðnrh. hefur viðurkennt, bæði héðan úr þessum ræðustól og í grg. með þáltill. sem hér um ræðir, að leyfi frá Fljótsdalshreppi skorti.

Það er því alveg ljóst, herra forseti, að ein af meginstoðum þáltill. sem hér er til umfjöllunar er brostin. Það er ekki nóg að hafa virkjunarleyfið sem þáltill. byggir á að hluta til.

En þá er rétt að huga að því hvort framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun stríði gegn tilskipun sem EES-samningurinn leggur okkur á herðar frá 27. júní 1985 nr. 85/337/EBE, og gegn tilskipun nr. 97/11/EC frá 3. mars 1997. Og þá er einnig rétt að kanna dómafordæmi frá Evrópudómstólnum í skyldum málum, sbr. kæru Náttúruverndarsamtaka Íslands til Eftirlitsstofnunar EFTA og umsögn Aðalheiðar Jóhannsdóttur til umhvn., dags. 1. des. 1999. Þessi fylgigögn fylgja einnig með í áliti 1. minni hluta iðnn. svo það sé alveg skýrt og stutt þeim rökum sem best eru talin um að hér sé um ágreining að ræða.

Þetta ýtir enn frekari stoðum undir það að einn grunnþátturinn í röksemdafærslu hæstv. iðnrh. er fallinn, stendur ekki réttur.

Annar þáttur sem hæstv. iðnrh. styður tillögu sína með er skýrsla Landsvirkjunar, Fljótsdalsvirkjun, umhverfi og umhverfisáhrif. Mikill fjöldi vísindamanna og sérfræðinga sem heimsótti umhvn. taldi framsetningu og túlkun rannsóknargagna í áðurnefndri skýrslu vilhalla framkvæmdunum og framkvæmdaraðila í hag. Þá hefur einnig komið í ljós að skýrslan gerir meira en efni standa til úr þeim gróðurfarsrannsóknum sem sagðar eru hafa átt sér stað á svæðinu sl. 25--30 ár. Þá er það einnig komið á daginn, herra forseti, að engar vistfræðirannsóknir hafa farið fram á svæðinu og þær gróðurfarsrannsóknir sem skýrslan byggir á eru lítið annað en tegundatalningar. Þar að auki virðast rannsóknir þær sem gerðar hafa verið komnar til ára sinna það mikið að öðrum aðferðum væri beitt við sams konar rannsóknir í dag.

Þá er skýrslan greinilega ekki skrifuð af líffræðingum, náttúrufræðingum eða vistfræðingum sem hlýtur líka að teljast veikleiki, herra forseti, en við getum nefnt í því sambandi áhrifin á náttúru svæðisins. Eyjabakkar eru að öllum líkindum flæðiengi, en engar rannsóknir hafa farið fram, herra forseti, til að skilgreina það vistkerfi gróðurs og dýra sem þarna er að finna og gera höfundar skýrslunnar enga tilraun til að varpa ljósi á vistfræðilega þáttinn. Skýrslan gerir enga tilraun til að meta verndargildi svæðisins, herra forseti.

En þegar þau gögn sem bárust umhvn. við afgreiðslu málsins eru skoðuð má draga þá ályktun að hér sé um einstakt landsvæði að ræða, herra forseti, og í alla staða óbætanlegt. Einungis er talið að til séu fimm eiginlegar gróðurvinjar á miðhálendi Íslands. Eyjabakkar eru sú stærsta, sú sem er í mestri hæð yfir sjávarmáli og, herra forseti, sú eina sem er hluti af samfelldri gróðurþekju frá fjöru til jökla. Fari fram sem horfir, herra forseti, með framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun er unninn óafturkræfur skaði á lífríki sem að öllum líkindum er einstakt í sinni röð.

Skýrsla Landsvirkjunar, sem er ein af meginstoðunum í þáltill. hæstv. iðnrh., gerir fremur lítið úr náttúruverndargildi svæðisins og gerir ekki grein fyrir því að það land sem þarna tapast er óafturkræft og verður að öllum líkindum ekki endurheimt á nokkurn hátt þrátt fyrir vilja til mótvægisaðgerða. Þær mótvægisaðgerðir sem skýrslan gerir ráð fyrir eru að mati margra gesta umhvn. ófullnægjandi. Þær áætlanir sem skýrslan gerir grein fyrir varðandi endurheimt votlendis í stað þess sem tapaðist færu allar fram á láglendi fjarri Eyjabökkum. Þá er einnig á það bent að ekki liggja fyrir nægilegar rannsóknir á því votlendi sem hefur verið endurheimt á landinu sl. ár svo ekki er hægt að draga neina ályktun, herra forseti, á grundvelli þeirra tilrauna til endurheimtar sem hafa farið fram hér á landi.

Í sumum tilfellum er ekki getið um neinar mótvægisaðgerðir. Til dæmis er ekki getið um frágang haugstæða með tilliti til landmótunar og annarra þátta þar að lútandi. Rannsóknir á öldurofi og foki virðast ófullnægjandi að mati gesta umhvn. og ekki er hægt að fallast á það, herra forseti, að það líkan sem skýrsluhöfundar notast við frá Iowa State University gagnist við íslenskar aðstæður, auk þess sem landhalli við lónið, bæði austan og vestan megin, yrði á stórum svæðum meiri en 7%. Ekki er vitnað í íslenskar rannsóknir sem þó eru til hjá Landsvirkjun vegna strandrofs við Blöndulón, en þær rannsóknir sýna fram á mikil merki um fok, m.a. 50x55 metra tungu af sandi sem huldi gróður árið 1998.

Skýrsluhöfundar eru gagnrýndir fyrir að ganga út frá meðalvatnshæð þegar mögulegt fok úr lónsbotninum er metið. Þá er nauðsynlegt að ganga út frá hæstu eða lægstu vatnsstöðu en ekki meðalvatnshæð. Á það er bent, herra forseti, að í þurru ári standi 20--30 km2 af lónsbotni ofan vatnsborðs. Og það er fráleitt að telja, herra forseti, að ekki rjúki úr því svæði. Ekki liggja fyrir nægilega miklar rannsóknir á grunnvatnsstöðu til að hægt sé að fullyrða að grunnvatnsborð hækki eftir að lónið yrði tekið í notkun, eins og gert er í skýrslunni.

Á það er einnig bent, herra forseti, að þurru áttirnar á svæðinu eru suðlægar. Og hvað þýðir það? Jú, leirinn úr lónsstæðinu kemur til með að rjúka til norðurs, ef eðlisfræðin bregst mér ekki. Og hvert rjúka þær þá? Yfir gróið land, yfir Fljótsdal, með ófyrirséðum afleiðingum.

Herra forseti. Um þetta er ekki getið í skýrslu Landsvirkjunar, einu af grunngögnunum undir þáltill. sem hér er til umræðu, tillögu sem Alþingi er ætlað að styðja með því framkvæmdir sem eru reistar á skýrslu sem er svo götótt sem raun ber vitni og ég hef nú tíundað að litlu leyti.

Herra forseti. Mig langar að fara örfáum orðum um dýralífið og dýralífsþætti skýrslunnar, en þeim þætti virðist sannarlega áfátt í mörgum atriðum.

[14:15]

Það er mat færustu sérfræðinga á sviði hreindýrarannsókna að ekki liggi fyrir nægilegar rannsóknir á fari og hegðun hreindýranna á svæðinu til þess að hægt sé að draga þær ályktanir sem skýrsluhöfundar gera. Til marks um það er skýrsla sem lögð var fyrir umhvn. og heitir Environmental Impact of the Fljótsdalur and Kárahnjúkar Hydro Electric Power Supply to Aluminium Smelters, by Norsk Hydro in Iceland, Preliminary Assessment of Impact on Reindeer. En í þeirri skýrslu, herra forseti, kemur m.a. fram að möguleg áhrif virkjunarinnar á íslenska hreindýrastofninn geta orðið mjög alvarleg. Á það er bent að hreindýrin hafi áður verið dreifð um allt land en landið umhverfis Snæfell er eini staðurinn þar sem þau hafa þraukað. Það bendir til þess að náttúrleg skilyrði þess landsvæðis henti hreindýrum umfram önnur svæði hér á landi. Afleiðingar þess að svipta dýrin þeim gróðri sem Eyjabakkasvæðið býður þeim upp á síðsumars getur þar af leiðandi leitt til þess að kýrnar nái ekki að fita sig nægilega mikið fyrir veturinn og að þær geti þar með ekki alið heilbrigða kálfa. Þannig kann kálfadauði að aukast til muna og á endanum kann það, herra forseti, að hafa umtalsverð áhrif á viðkomu stofnsins. Ýmislegt sem bent er á í skýrslunni þarfnast nánari athugunar áður en ákveðið er að svipta hreindýrin því landsvæði sem hefur veitt þeim lífsbjörg hingað til.

Herra forseti. Mikils misræmis gætir víða í skýrslu Landsvirkjunar þar sem eitt kemur fram í meginmáli en annað er dregið fram í samantekt eins og við sem áttum að nýta okkur skýrsluna létum okkur nægja að lesa samantektina, herra forseti. Sem betur fer létum við okkur það ekki nægja. En dæmi um slíkt misræmi sem ég nefni hér er að finna t.d. í kaflanum um áhrif virkjunarinnar á smádýralíf.

Á bls. 79 í skýrslu Landsvirkjunar er þess getið að þrátt fyrir erfiðar aðstæður sumarið 1979, þegar voraði óvenju seint og kannanir á smádýralífi fóru fram, hafi þær kannanir leitt í ljós að furðu margar tegundir lifi á svæðinu. Talið er að 120 tegundir skordýra hafi fundist, 9 tegundir áttfætlna, 3 tegundir lindýra, 3 tegundir liðorma, auk nokkurra þráðorma. En í samantekt kaflans, herra forseti, á bls. 80 segir hins vegar að smádýralíf sé fábreytt og á engan máta einstætt.

Herra forseti. Það er margs sem saknað er úr skýrslu Landsvirkjunar og þar af leiðandi erum við farin að draga í efa þennan stóra burðarás í þáltill. hæstv. iðnrh. En nú skulum við líta á enn einn þátt sem skýrsla Landsvirkjunar sinnir ekki nægilega vel og það er sá þáttur að meta aðra virkjankosti. Þeir valkostir sem skýrslan getur um eru settir fram á þann hátt, herra forseti, að það er erfitt að átta sig á ólíku gildi þeirra, kostnaði þeirra eða umhverfisáhrifum. Skýrsluhöfundar virðast afgreiða þá alla sem óframkvæmanlega eða a.m.k. verri en þann sem liggur fyrir með 43 km2 miðlunarlóni á Eyjabökkum.

Herra forseti. Varðandi framkvæmd á borð við þá sem hér er til umfjöllunar hlýtur að teljast skynsamlegt að vega og meta kostina á eins vandaðan hátt og framast er unnt svo um raunverulegt val á milli ólíkra kosta geti verið að ræða. Varðandi þá staðreynd að fyrsti áfangi álvers í Reyðarfirði útheimti meiri orku en Fljótsdalsvirkjun getur látið í té, eins og hún er hönnuð í þeim tillögum sem liggja fyrir, hefði verið skynsamlegt að meta kosti Hraunaveitu meiri áður en framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun hefjast. Sú virkjunartilhögun hefði ekki í för með sér miklu meiri umhverfisskaða en hlýst af þeirri tilhögun sem nú er í umræðunni en gæti, herra forseti, aukið afl virkjunarinnar umtalsvert. Með því móti væri hægt að sleppa við virkjun í Bjarnarflagi sem er nú gert ráð fyrir að afli þeirrar viðbótarorku sem þörf er til að uppfylla í orkuþörf fyrsta áfanga álversins.

Herra forseti. Hér er einungis ein lausn sem gæti leitt í ljós og vegið og metið eðlilega alla virkjanakosti sem eru í stöðunni. Sú aðferð heitir ,,Mat á umhverfisáhrifum, eins og kveðið er á í lögum um mat á umhverfisáhrifum``. Værum við að fara þá leið væri verið að meta alla kosti. Þá væri verið að spyrja þeirra spurninga sem við höfum spurt hér og þrástagast á úr þessum ræðustól, herra forseti, og ekki fengið nein viðhlítandi svör við.

Herra forseti. Þegar maður kemur að þessu máli á seinustu stigum þess er manni skapi næst að hætta við að flytja allar ræður, að hætta við að segja allt sem manni býr í brjósti því við vitum að það er ekki til neins. Við vitum að hæstv. ríkisstjórn Íslands ætlar málinu að fara í gegnum þingið. Við vitum að það er meirihlutavilji á Alþingi fyrir því að þessi þáltill. verði samþykkt. En, herra forseti, við vitum líka að úti í samfélaginu er stór hópur fólks, sennilega 60%, jafnvel 80% þjóðarinnar, sem er mótfallinn og á móti þessum meiri hluta hv. Alþingis. Fólk hefur talað og er að tala, það stendur eins og hrópendurnir í eyðimörkinni og biður um að lögformlegt mat verði látið fara fram á virkjuninni, en Alþingi, herra forseti, hlýðir ekki vilja þjóðarinnar. Meiri hluti Alþingis ætlar að láta þetta yfir okkur ganga hvað sem tautar og raular. Eins og ég sagði, herra forseti, er manni skapi næst að hætta að tala og gefast upp því á ákveðnum punkti hætta fórnarlömbin að berjast um á hæl og hnakka og lyppast niður og láta allan viðbjóðinn yfir sig ganga.

En, herra forseti, ég ætla að bíta á jaxlinn og ég ætla að sýna kjark og ég ætla ekki að lyppast niður strax þannig að ég ætla að halda áfram að tala. Ég hef hér nokkra pappíra sem mig langar til að vitna í og af því að mikið hefur verið talað um úrskurð skipulagsstjóra á umhverfismati á álverinu fyrirhugaða langar mig til að geta þess að þetta álver og allt sem hangir á þeirri spýtu er enn einn af máttarstólpunum undir þáltill. hæstv. iðnrh. Við erum búin að nefna skýrslu Landsvirkjunar, hún er eitt plaggið, greinargerð um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði er eitt plaggið, hún er góð og gild. Skýrsla um þjóðhagsleg áhrif álversins er eitt plaggið og svo að lokum athugun á samfélagslegum áhrifum þess.

Herra forseti. Þrjár af þessum meginröksemdum undir þessa till. til þál. standast ekki lengur. Í fyrsta lagi er skýrsla Landsvirkjunar ófullnægjandi plagg. Hún fullnægir ekki einu sinni kröfum þeim sem gerðar eru til frummatsskýrslu og þar með tek ég aftur, herra forseti, þau orð sem ég sagði úr þessum ræðustól við fyrri umræðu málsins þar sem ég hélt því fram að frummatsskýrsla Landsvirkjunar væri ágæt sem slík. Í sannleika sagt, herra forseti, er hún það ekki. Því á fundi umhvn. og skipulagsstjóra kom fram að hefði þetta plagg farið í venjubundið ferli hefði uppkast að skýrslunni verið lagt fyrir sérfræðinga Skipulagsstofnunar og þeir hefðu gefið ábendingar um hvað betur hefði mátt fara áður en skýrslan var gefin út. Og, herra forseti, ég ætla að telja upp örfá atriði af því sem skipulagsstjóri og fólk hans hefði gefið Landsvirkjunarmönnum í nesti við að ljúka skýrslunni.

Það hefði verið óskað eftir því að Hraunaveita meiri yrði reiknuð út til fulls og umhverfisáhrif hennar metin þar sem sáralítill aukinn umhverfisskaði hefði hlotist af þeirri framkvæmd. Óskað hefði verið eftir því að frekari umfjöllun um efnistökustaði færi fram því að í sannleika sagt, herra forseti, er einungis getið um efnistökustaði í þremur námum af átta í skýrslunni. Talað er um þró á Teigsbjargi, en ekkert getið um frágang efnis sem kemur þaðan. Ekki er lýst í neinu landmótunartillögunum, það er bara talað um að einhvers konar landmótun eigi að fara fram, en henni er ekki lýst. Þar hefði verið hægt að gefa sérfræðingum Landsvirkjunar ábendingu um hvernig þeir ættu að lýsa því. Síðan vantar hönnun vegar frá Laugará að stíflu. Það hefði skipulagsstjóri getað bent skýrsluhöfundum á fyrir fram og þeir hefðu getað gert úrbót þar. Þeim hefði verið bent á að ekkert gróðurkort væri fyrir vegastæði en margir vegir eru á grónu landi, herra forseti. Ekkert gróðurkort er til eða fylgir þessari skýrslu yfir það svæði sem þar yrði eyðilagt eða í uppnámi. Á þetta hefðu sérfræðingar Skipulagsstofnunar bent fyrir fram. Þeir hefðu bent á atriði er varða jarðvegs- og gróðureyðingu og þeir hefðu bent á atriði er varða strandrof þannig að þar hefðu Landsvirkjunarmenn fengið betra nesti og getað unnið betur.

Bent hefði verið á óskir um frekari upplýsingar er varða fok og þá hefði mátt vitna til þeirra skýrslna sem þegar eru til vegna rannsókna um fok úr Blöndulóni. Sennilega hefði verið bent á það líka að gögn sem eru til varðandi Blöndulón yrðu nýtt í skýrsluna. Sennilega hefði verið gerð athugasemd við það hversu gamlar gróðurfarsrannsóknirnar væru og það hefði verið óskað eftir því að Eyjabakkarnir og landsvæðið allt yrði borið saman við önnur sambærileg svæði á hálendinu. Það hefðu skýrsluhöfundar Landsvirkjunar fengið ábendingu um frá sérfræðingum Skipulagsstofnunar fyrir fram ef leitað hefði verið til stofnunarinnar. Sömuleiðis hefði skipulagsstjóri á því stigi gert athugasemdir við hugmyndir skýrsluhöfunda um mótvægisaðgerðirnar og óskað eftir frekari ummælum þar að lútandi.

Einnig hefði verið bent á að endurheimt votlendis sé erfitt mál og bent hefði verið á að það eru engar áætlanir um endurheimt votlendis tíundaðar í skýrslunni þannig að þar hefðu skýrsluhöfundar Landsvirkjunar getað fengið efni í frekari rannsóknir og frekari vinnu.

Einnig hefði verið talað um votlendisbanka. Þeim hefði verið bent á að þeir sem raska votlendi gætu mögulega greitt í bankann. Það eru alls kyns reglur um hvernig vernda má fræbanka og hvernig fræbankar geta unnið með landinu. Þetta vita sérfræðingar Skipulagsstofnunar og hefðu getað bent skýrsluhöfundum á fyrir fram. Svona gæti ég haldið áfram að telja, herra forseti.

Ef þetta mál hefði verið í hinu lögformlega ferli hefðum við betri frummatsskýrslu en raunin er á. Sem sagt, skýrsla Landsvirkjunar er, herra forseti, ófullnægjandi plagg, fullnægir ekki einu sinni kröfum þeim sem gerðar eru til frummatsskýrslu.

Annað plaggið sem er meginfóturinn undir tillögu hæstv. iðnrh. eru niðurstöður skýrslu Þjóðhagsstofnunar um þjóðhagsleg áhrif fyrirhugaðs álvers á Reyðarfirði en þau hafa, herra forseti, verið dæmd í meira lagi vafasöm. Margir sérfræðingar, eins og hefur komið fram úr þessum ræðustól, hafa gengið fram fyrir skjöldu og gert athugasemdir við hinn þjóðhagslega þátt. Og, herra forseti, það eru ótal fræðimenn og meira að segja a.m.k. þrír hagfræðingar Þjóðhagsstofnunar, sem ég hef hlustað á flytja lærð erindi upp á síðkastið, sem telja að einn afskaplega veigamikinn þátt vanti inn í það reikningsdæmi sem samkvæmt forstjóra Þjóðhagsstofnunar skilar okkur 3--4 milljörðum í tekjur af raforkusölu á ári.

Þátturinn sem vantar í dæmið er umhverfiskostnaðurinn, fórnarkostnaður umhverfisins. Sá þáttur hefur aldrei verið reiknaður. Ég sætti mig ekki við að Þjóðhagsstofnun reikni ekki þann þátt. Ég sætti mig ekki við það, herra forseti, að okkur sé gert að lúta meirihlutavaldi á Alþingi þegar einn af þeim veigamestu þáttum sem þetta mál fjallar allt saman um er óreiknaður. Ég held að við hljótum að eiga kröfu á að dæmið sé reiknað til enda.

Í þriðja lagi er skýrsla Nýsis um samfélagsleg áhrif, sem fylgir einnig tillögu hæstv. iðnrh., núna metin marklaust plagg. Hvar er hún metin marklaust plagg? Í skýrslunni um úrskurði Skipulagsstofnunar um álverið á Reyðarfirði. Hún er dæmd úr leik og það er óskað eftir öflugri rannsóknum og betri gögnum til þess að einhverjar stoðir geti talist vera fyrir þeim fullyrðingum að álver á Reyðarfirði hafi jákvæð samfélagsleg áhrif.

Þar með er aðeins einn af máttarstólpum tillögu hæstv. iðnrh. sem stendur eftir óhaggaður og það er greinargerð Orkustofnunar um orkuöflun fyrir álver á Reyðarfirði. Jú, það er rétt að 480 þúsund tonna álver í Reyðarfirði þyrfti u.þ.b. jafnmikla orku og við erum að framleiða í þessu landi í dag til allra okkar þarfa, til allra almenningsveitna og til allrar stóriðju sem fyrirfinnst í landinu í dag. Við erum að tala um að auka orkuöflun landsins um helming, um nákvæmlega það magn sem framleitt er í dag. Allt það magn á að fara í eitt fyrirtæki austur á Reyðarfirði, 480 þús. tonna álbræðslu. (Gripið fram í: Sjö teravattstundir.) Sjö teravattstundir, takk fyrir.

[14:30]

Á teikniborðinu eru fimm virkjanir vegna þessa álvers, a.m.k. fimm. Þessum virkjunum fylgja flóknar veitur, skurðir og guð veit hvað. Þetta eru virkjanirnar Fljótsdalsvirkjun, Kárahnjúkavirkjun, Brúarvirkjun, Arnardalsvirkjun og virkjun við Bjarnarflag. Greinargerð Orkustofnunar, herra forseti, er vandað plagg sem gerir góða grein fyrir ólíkum virkjanakostum að öðru leyti en því að kostnaðarhliðin er ekki skilgreind svo neinu nemi, einungis sagt að eitt sé hagkvæmt en annað ekki. Dæmin eru ekki reiknuð að öðru leyti. Það væri kannski ekki úr vegi að vitna í greinargerð Orkustofnunar, kaflann um Fljótsdalsvirkjun og ólíka möguleika á framkvæmd og tilhögun þeirrar virkjunar. Það eru ýmsir kostir í stöðunni, herra forseti.

Ég nefndi áður Hraunaveitu meiri, herra forseti. Jafnframt er möguleiki á minna lóni en lónið sem nú er gert ráð fyrir á Eyjabökkum veldur ágreiningi. Í skýrslu Orkustofnunar er þess getið, með leyfi forseta, að lónsstæði á Eyjabökkum sé mjög flatt og þar segir að til að ná í helming ráðgerðrar miðlunar þurfi t.d. lón sem væri 80% af flatarmáli fyrirhugaðs Eyjabakkalóns. Bara tilað ná helmingi af ráðgerðri miðlun þarf 80% af því landi sem fer undir vatn. Við sjáum hversu flatt landið er og illa til þess fallið að gera þar uppistöðulón.

Varðandi það hve illa það er til þess fallið getum við nefnt, herra forseti, að munurinn á yfirborði lónsins er gífurlegur frá vori og fram á haust. Í lægstu stöðu er lónið ekki nema 8 km2 að stærð en í hæstu eða stöðu 44 km2. Það sveiflast frá 8 km2 upp í 44 km2. Það er u.þ.b. 11 metra munur á vatnsyfirborðinu þannig að hólmarnir sem hv. þm. Kristján Pálsson hefur lagt til að verði settir út í lónið fyrir blessaðar gæsirnar yrðu í þurru ári a.m.k. ellefu metra fallusartákn um allt lón. Það yrðu nú hólmar hv. þm. Kristjáns Pálssonar fyrir blessaðar gæsirnar. Hvað ætli hv. þm. vilji láta marga fallusa rísa í lóninu? Ætli gæsirnar yrðu glaðar?

Ég ætla að halda áfram að vitna til, herra forseti, Orkustofnunar og skýrslu um orkuöflun fyrir álver á Reyðarfirði. Þar er getið um Hraunaveitu meiri sem, eins og ég hef sagt áður, er skynsamlegur kostur, ef við getum á annað borð talað um að skynsamlegt sé að virkja. Af þeirri framkvæmd mundi umhverfisskaðinn aukast sáralítið, a.m.k. hvað varðar Eyjabakkana sjálfa þó að veitur af austursvæðinu yrðu meiri og við vitum ekkert hvaða áhrif Hraunaveita meiri kæmi til með að hafa á grunnvatn eða vatnasvæðið austan Eyjabakka.

Í skýrslu Orkustofnunar kemur fram að unnt sé að ná umtalsvert meiri miðlun á Eyjabökkum en nú er ráðgerð með því að auka landrými lónsins sáralítið. Breyting í þá veru er í sjálfu sér ekki til þess fallin að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmdanna. En á tvennt verður þó að líta. Annars vegar mætti nýta lónið til verulega aukinnar orkuframleiðslu og þar með minni umhverfisáhrifa á hverja orkueiningu og hins vegar gerði stækkun lónsins frekari orkuöflun við Kröflu eða í Bjarnarflagi óþarfa í því skyni að afla viðbótarorku fyrir álver í Reyðarfirði. Slík stækkun virkjunarinnar rúmast innan gildandi heimildarlaga um Fljótsdalsvirkjun. Herra forseti, ég endurtek að slík stækkun virkjunarinnar rúmast innan heimildarlaga um Fljótsdalsvirkjun. Á hinn bóginn þyrfti nýtt framkvæmdaleyfi frá ráðherra.

Hvað ef yfirfallshæð yrði hækkuð í 677 m yfir sjávarmál sem í núverandi tillögum eru 664,5 m? Þá færi 3,3 km2 meira undir vatn og miðlunin mundi stækka um u.þ.b. 139 gígalítra, úr 500 í um 625 gígalítra. Þegar heimildarlögin um Fljótsdalsvirkjun voru samþykkt 1981 var reiknað með þessari yfirfallshæð. Auk þess var þá gert ráð fyrir samtals um 130 gígalítra miðlun á Fljótsdalsheiði. Það er áþekkt því sem Orkustofnun hefur áætlað að fá megi með lóni í Kelduá og ýmsum smálónum á Hraunum. Með því að nýta jafngildi þeirra miðlana sem heimildalögin gerðu ráð fyrir væri mögulegt að stækka veitu af vatnasviði Kelduár til Fljótsdalsvirkjunar að því marki sem hagkvæmt er. Fyrirkomulag slíkra veitna kemur fram á 4. korti, Fljótsdalsvirkjun með Hraunaveitu. Ég er enn að vitna, herra forseti, í greinargerð um orkuöflun fyrir álverið í Reyðarfirði. Nú er ég að koma að lokum kaflans. Honum lýkur svona, herra forseti, með yðar leyfi:

,,Eins og þegar hefur komið fram í 2. kafla þessarar greinargerðar kemur þessi breyting á fyrirkomulagi virkjunarinnar mjög til álita, þar sem þá væri að fullu séð fyrir orkuþörf umrædds álversáfanga. Unnt ætti að vera að ljúka framkvæmdum við þannig breytta virkjun í tæka tíð fyrir árslok 2003. Breytingin kallar á hinn bóginn`` --- og nú kemur rúsínan í pylsuendanum --- ,,á mat á umhverfisáhrifum á hinum breyttu þáttum.``

Já, herra forseti, þar með hef ég lokið umfjöllun um greinargerð um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði. Kjarni málsins er að ríkisstjórnin hæstv. vill ekki gera þessar breytingar, sem þó virðast vera afskaplega skynsamlegar, vegna þess að þá þyrftum við að fara í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum.

Herra forseti. Hér berst hæstv. ríkisstjórn um á hæl og hnakka við að forðast skynsamlegar ákvarðanir til þess að þurfa ekki að fara í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Ég sé ekki nokkur skynsamleg rök fyrir þessu háttalagi hæstv. ríkisstjórnar. Umfram allt ekki lögformlegt mat á umhverfisáhrifum!

Herra forseti. Eitt af því sem hæstv. iðnrh. Finnur Ingólfsson sagði í ræðu sinni hér á Alþingi þegar þessu máli var fylgt úr hlaði á sínum tíma er að Fljótsdalsvirkjun komi ekki til með að hafa svo neikvæð áhrif á hið náttúrlega umhverfi sitt að sá þjóðfélagslegi ávinningur sem hlýst af virkjuninni yfirvinni það ekki. Hver er allur þessi þjóðfélagslegi ávinningur? Við skulum aðeins líta nánar á það.

Ég hef undir höndum erindi flutt þann 23. nóv. 1999 á ráðstefnu Verkfræðingafélagsins og Tæknifræðingafélagsins sem haldin var undir heitinu Arðsemi virkjana, þátttaka Íslendinga í stóriðju. Erindið flutti dr. Páll Harðarson hagfræðingur á Þjóðhagsstofnun. Yfirskrif erindisins er Þjóðhagsleg arðsemi virkjana og stóriðju.

Herra forseti. Í erindi þessu kemur fram að mikil óvissa ríki þrátt fyrir allt um hversu mikill ávinningur hafi hingað til verið af stóriðjunni. Um það er óvissa, herra forseti, og það staðfestir dr. Páll Harðarson í þessu erindi. Það hefur komið fram að árlegur ávinningur af stóriðju sé talinn 90 milljarðar kr. á árabilinu 1966--1997, þ.e. 90 milljarðar kr. á verðlagi ársins 1997. Þetta mun samsvara árlegum ávinningi um 0,5% af þjóðarframleiðslu á hverjum tíma. Þetta eru kannski talsverð áhrif. Auðvitað viðurkenna það allir, en þess ber þó að geta, herra forseti, að þessi áhrif fást einungis þegar umhverfisþátturinn er ekki reiknaður inn í dæmið. Þarna er ekki reiknað með fórnarkostnaði, ekki króna greidd fyrir landið. Þarna er ekki sá kostnaður sem yrði af því að standa virkilega vel að öllum mótvægisaðgerðunum sem vinna þyrfti að. Aldrei hefur verið reiknað hversu mikið það kostar okkur að stunda allar þær mótvægisaðgerðir.

Herra forseti. Dr. Páll Harðarson fjallar um þjóðhagslegan hagnað okkar og segir að gróflega áætlað valdi 120 þús. tonna álver um 0,5% varanlegri hækkun þjóðarframleiðslu ef reiknað er með fullum fórnarkostnaði framleiðsluþáttanna, þ.e. um 3--4 milljarða kr. hækkun þjóðarframleiðslu miðað við núverandi verðlag. Hann segir að þá eigi eftir að taka til greina allan umhverfiskostnað vegna stóriðju og virkjanaframkvæmda. Síðan segir, herra forseti, í þessu erindi að þann kostnað verði að að taka til greina áður en ávinningur þjóðarinnar er metinn.

Herra forseti. Dr. Páll Harðarson segir að við verðum að taka umhverfisþáttinn inn í áður en þjóðhagslegur ávinningur er metinn. Ég spyr hæstv. iðnrh.: Hvenær ætlar hann að sýna okkur dæmi þar sem umhverfisþátturinn er reiknaður inn út frá þeim hugmyndum sem dr. Páll Harðarson er með í sínu erindi og ég er sannfærð um að hæstv. iðnrh. hefur heyrt? Hvenær fáum við að sjá umhverfisþáttinn reiknaðan inn í myndina?

Herra forseti. Ég ætla síðan að vitna beint í erindi dr. Páls, með yðar leyfi:

,,Þrátt fyrir að þjóðhagslegt mat á efnahagslegum áhrifum gefi vissulega vísbendingar um þjóðhagslega arðsemi framkvæmda og hafi þannig upplýsingagildi er ég þeirrar skoðunar að við þær aðstæður sem nú ríkja geti slíkt mat ekki legið til grundvallar ákvörðunum um hvort virkja skuli eður ei. Þar leikur arðsemismat Landsvirkjunar og annarra innlendra fjárfesta vegna nauðsynlegra framkvæmda aðalhlutverkið.``

Ég spyr hæstv. iðnrh.: Hvenær fáum við að sjá arðsemismatið? Ég minni á að samkvæmt NORAL-yfirlýsingunni sem undirrituð var 29. júní á Hallormsstað í sumar ætlaði Landsvirkjun að vera búin að semja um orkuverðið fyrir 31. des. 1999. Ég bendi hæstv. iðnrh. á að það eru ellefu dagar til stefnu. Arðsemismatið hlýtur að liggja fyrir og alþingismenn, sem eru að gera mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar út frá þeim þáttum sem hæstv. iðnrh. hefur lagt til grundvallar, eiga heimtingu á því að fá að sjá þetta arðsemismat.

Nei, herra forseti, við höfum ekki fengið að sjá arðsemismatið vegna þess að það er trúnaðarmál. Það er trúnaðarmál Landsvirkjunar, iðnrn., Norsk Hydro og einhverra fjármögnunaraðila, einhverra Íslendinga sem eru að reyna að reikna sig í gegnum það að 480 þús. tonna álver á Reyðarfirði sé arðbær framkvæmd.

[14:45]

Herra forseti. Ég hef sjálf heyrt úr röðum lífeyrissjóðanna að það gæti verið miklu skynsamlegra og áhættuminna að fjárfesta beint í Norsk Hydro en í áhættusömu álveri austur á Reyðarfirði. Það verður vonandi raunin að íslenskir fjárfestar komist til vits hvað þetta varðar og hætti við hugleiðingar um áhættusamt álver á Reyðarfirði og fjárfesti þá bara, ef þá langar að fjárfesta í málmbræðslu, í Norsk Hydro sem er að gera það gott.

En aftur, herra forseti, að arðsemismatinu og orkusölusamningunum. Orkusölusamningar Landsvirkjunar eru trúnaðarmál. En þó getum við rýnt, herra forseti, í ársreikninga Landsvirkjunar og það höfum við gert. Það hafa færir hagfræðingar og eðlisfræðingar gert og þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að Fljótsdalsvirkjun sé í hæsta máta óarðbær framkvæmd. Ekki bara einn hagfræðingur og ekki bara einn eðlisfræðingur og ekki einhverjir kverúlantar, herra forseti, heldur málsmetandi hagfræðingar sem ríkisstjórnin hefur oft leitað til. Þetta eru hagfræðingar á besta mælikvarða þjóðar okkar. Og hér hefur verið gert lítið úr útreikningum þeirra, þeir hafa reiknað dæmið aftur á bak og áfram og það hefur alltaf verið sagt: Þeir eru að gefa sér rangar forsendur. En hvaðan eru forsendurnar komnar? Þær eru komnar, herra forseti, úr ársreikningum Landsvirkjunar. Þeir útreikningar gefa okkur óyggjandi vísbendingar um að hér sé í öllu falli feigðarflan, kannski fullkomið feigðarflan í efnahagslegu tilliti.

Og hvað gerir hæstv. iðnrh. með mat þeirra hagfræðinga sem hafa tjáð sig um málið? Hann og forstjóri Landsvirkjunar ganga fram fyrir skjöldu og lýsa því yfir að mennirnir séu í sjálfu sér að reikna rétt. Jú, jú, þeim skjöplast ekki í að leggja eigi saman og draga frá. En forsendurnar eru rangar.

Herra forseti. Má ég benda á að þær forsendur eru komnar úr þeim opinberu plöggum sem við höfum aðgang að, ársreikningum og skýrslum Landsvirkjunar.

Eitt dæmi um ótrúverðugan og ósannfærandi málflutning hæstv. iðnrh. og forstjóra Landsvirkjunar kom þannig upp að þegar þeir fóru að skoða útreikninga hagfræðinganna og þessar neikvæðu útkomur og að því er virtist í miklu írafári og rökþroti að leita að feilum í útreikningunum, þá fundu Landsvirkjunarmenn það út að hagfræðingarnir væru með rangar forsendur hvað varðar meðalorkugetu virkjunarinnar. Þeir höfðu reiknað út frá því að hún væri 1.250 gwst. á ári. Þeir gefa sér rangar forsendur, sagði forstjóri Landsvirkjunar í fjölmiðlum, forsendur sem enn voru komnar úr skjölum Landsvirkjunar og af heimasíðu Landsvirkjunar. Og þegar þetta uppgötvaðist og hagfræðingarnir bentu á hvaðan forsendurnar væru komnar var því borið við að heimasíðan hefði verið skökk, vitlausar upplýsingar hefðu verið á heimasíðunni.

Þá voru upplýsingarnar þar sem sagt leiðréttar, og heildarorkugetan var hækkuð upp í tæplega 1.400 gwst., 1.390 gwst. Gott og vel. Hagfræðingarnir fóru aftur að reikna. Og síðan fóru Landsvirkjunarmenn að gera frekari athugasemdir. Þeir gerðu athugasemdir við ávöxtunarkröfuna og raunvaxtastigið. Gott og vel. Hagfræðingarnir breyttu aftur forsendum sínum og reiknuðu aftur upp á nýtt en allt kom fyrir ekki. Það vantaði enn þá geigvænlega mikið upp á að Fljótsdalsvirkjun gæti talist arðbær.

Herra forseti. Niðurstöðurnar voru allar á einn veg. Til þess að virkjunin kæmi út bara á núlli, varð orkuverðið að vera 1,35--1,45 kr. á kwst. Og má ég benda á, herra forseti, að á síðasta ári var meðalorkusala til stóriðju á 0,88 kr., þ.e. 88 aurar á kwst. Á sama tíma greiddu almenningsveiturnar 2,86 kr. Er það kannski svo að almenningsveiturnar séu að greiða niður orkuna til stóriðjunnar? Skyldi það vera, herra forseti?

Lög banna að orkusala til stóriðju sé greidd niður af almenningsveitum. En til að taka af allan vafa um þetta atriði, herra forseti, óska ég eftir svari frá hæstv. iðnrh., ef hann má vera að því að hlusta, og ég óska eftir rökstuðningi þar að lútandi: Stendur raforkusala til stóriðju undir sér eða er hún niðurgreidd af almenningsveitunum? (Iðnrh.: Núna?) Já. (Iðnrh.: Hún stendur undir sér.) Ég vil fá rökstuðning og útreikning. Og hvenær eigum við að fá að sjá, herra forseti, opinbert arðsemismat vegna þessarar virkjunar? Ég spyr hæstv. iðnrh. og ég vona sannarlega að í ræðum sínum, sem hann á auðvitað eftir að flytja í málinu síðar í dag eða á morgun eða hinn eða hinn, komi hann með þetta arðsemismat því annað er óeðlilegt.

Herra forseti. Á lofti eru ótal vísbendingar sem gefa tilefni til að efast um fullyrðingar stjórnvalda og Landsvirkjunar er lúta að arðsemi raforkusölu til stóriðju. Sömuleiðis eiga viðvörunarbjöllur þær sem hljóma í samfélaginu fullan rétt á sér því hér er verið að flana að hlutum og rasa um ráð fram án þess að nokkurrar varúðar sé gætt.

Það er ekkert nýtt í þessum málaflokki. Má ég benda á að þegar ráðist var í Blönduvirkjun á sínum tíma var ekkert vitað hvað gera ætti við raforkuna, ekki nokkur skapaður hlutur. Og þegar ráðist var í Kröflu var allsendis óvíst hversu mikils jarðhita væri þar að vænta. Og eftir því sem næst verður komist mun einnig hafa verið ráðist í Sigölduvirkjun af fljótfærni. Á Alþingi Íslendinga á nú að þvinga fram í skjóli meirihlutavalds samþykki fyrir því að fara út í enn eitt stóriðjuævintýrið og orkusalan er rökstudd með bulli, hreinu bulli, eins og um væri að ræða mögulegan lottóvinning, herra forseti. En það eru afar litlar líkur á því, herra forseti, að við vinnum í þessu lottói. Íslensk stjórnvöld hafa lagt sig fram um það og eytt miklu fé í að markaðssetja Ísland sem láglaunasvæði með orku á útsöluverði sem tilvalið umhverfi fyrir þá sem vilja setjast niður með eimyrjuspúandi málmbræðslur í fögru umhverfi þar sem meginreglur umhverfisréttar eru forsmáðar.

Herra forseti. Ég bendi hv. þm. og hæstv. ráðherrum á að þeim ber skylda til að fresta ákvörðun um þetta mál þar til öll gögn eru í þeirra höndum. Og í dag hafa þeir ekkert í höndunum sem bendir til þess að Fljótsdalsvirkjun borgi sig. Búi hæstv. ráðherrar yfir einhverjum upplýsingum sem afsanna fullyrðingu mína skora ég á þá að leggja þær fram hér og nú. Framganga stjórnvalda í þessu máli er til háborinnar skammar og það er þyngra en tárum taki að þurfa að standa hér eins og hrópandinn í eyðimörkinni með öll rökin sín megin, með öll bestu spilin á hendinni, en vita að maður þarf að lúta í lægra haldi fyrir þeim öflum sem svífast einskis í valdhroka sínum og óbilgirni, herra forseti. Það er verið að svindla í þessu tafli.

En lítum nú aðeins til framtíðar. Það er vitað að víða um hinn vestræna heim eru vísindamenn og hugvitsmenn í óðaönn að vinna að uppfinningum sínum, studdir af fjársterkum aðilum sem veðja á framtíðina. Margar eru þessar uppfinningar og rannsóknir þeim tengdar gerðar í því augnamiði að vernda umhverfið. Já, herra forseti, margar af uppfinningum dagsins í dag ganga út á það sjónarmið, sem óumdeilanlega vegur þungt í hinu tæknivædda borgarsamfélagi, nefnilega að náttúrlegt umhverfi sé orðið af svo skornum skammti í veröldinni að það beri að vernda það ef þess er nokkur kostur í sem upprunalegastri mynd. Aðrar uppfinningar ganga út á það að finna leiðir til að framleiða hráefni til iðnaðarframleiðslu án þess að mengun sé endilega óhjákvæmilegur fylgifiskur eins og hingað til hefur verið. Menn eru komnir langt á veg með að finna efni sem eiga í nánustu framtíð eftir að leysa af hólmi efni á borð við ál. Við fengum fyrir nokkrum dögum fréttir af því að íslenskur uppfinningamaður ætti þátt í uppfinningu á vindrafstöð og væri aðferð hans að gefa 20% meira afl slíkra rafstöðva en hingað til hefði reynst kleift. Bara þetta litla dæmi segir okkur, herra forseti, að við erum svo gamaldags, við erum svo aftarlega á merinni að vera að hugsa um þessar fáránlegu virkjanir sem eru á teikniborðinu uppi á hálendinu norðan Vatnajökuls.

En hvers vegna erum við ekki að ræða um eflingu hugvits og þekkingar hér á Alþingi? Hvers vegna erum við ekki að leggja drög að því að ungir Austfirðingar geti starfað við það sem þá langar til að starfa við? Ég trúi því ekki að alla unga Austfirðinga langi mest af öllu til að starfa í álveri, því trúi ég ekki. Og ég held því fram að það sé hallærisleg lausn á erfiðu atvinnuástandi sem ungt fólk færi í af því að ekkert annað byðist. Einungis vegna þess að ekkert annað byðist færi unga fólkið á Austfjörðum inn í álverið.

Og af því að staðarvalsnefnd fyrir álver á Reyðarfirði hefur verið svo ötul að gera skoðanakannanir og spurt ólíklegustu spurninga, eins og t.d. hvort Íslendingar vilji fá Norðmenn til Íslands, hvers vegna hafa þeir þá ekki sýnt okkur skoðanakönnun sem sýnir okkur vilja ungra Austfirðinga? Hvers konar störf þeir vildu stunda ef þeir gætu valið. Hvers vegna hafa brottfluttir Austfirðingar ekki verið spurðir í skoðanakönnunum hvort þeir mundu flytja aftur heim ef þeim byðist starf í álveri? Og hvers vegna hafa Íslendingar ekki verið spurðir grunvallarspurningarinnar: Mundir þú, góði Íslendingur, flytja austur á land ef á Reyðarfirði verður byggt 480 þús. tonna álver?

Það á eftir að spyrja ótal spurninga, herra forseti. Þær spurningar sem þó gefa okkur vísbendingar úr skoðanakönnunum eru fyrst og síðast spurningarnar sem lúta að lögformlegu mati á umhverfisáhrifum þar sem æ ofan í æ hefur komið fram meirihlutavilji þjóðarinnar fyrir því að þessi virkjun lúti lögformlegu mati. Og ef vilji eða döngun er til staðar í þessum sal samþykkja þingmenn ekki þáltill. sem hér er til umræðu nema það verði að undangengnu lögformlegu mati. Reyndar er ekki hægt að samþykkja þessa tillögu á nokkurn hátt þar sem allar forsendur hennar eru brostnar.

Fjölmiðlar hafa gengið fram fyrir skjöldu hver á fætur öðrum og reynt að leiða okkur það fyrir sjónir að hér sé um feigðarflan að ræða. Morgunblaðið hefur verið sterkasti bandamaður þeirra sem mæla varnaðarorð og tala fyrir lögformlegu mati. Og það er svo komið, virðulegi forseti, að ólíklegustu menn eru farnir að tala um Morgunblaðið sem sitt blað. En það er ekki bara Morgunblaðið, allir fjölmiðlar hafa gengið fram fyrir skjöldu meira eða minna og nú síðast Dagur. Mig langar til að fá að vitna í leiðara Dags þann 15. des., en þar segir Elías Snæland Jónsson, ritstjóri Dags, með leyfi forseta:

,,En þar sem ekki er farið eftir reglum um lögformlegt umhverfismat mun Landsvirkjun fá leyfi til framkvæmdanna án þess að hafa áður gert þær viðbótarrannsóknir og þær áætlanir sem sérfræðingar telja nauðsynlegar og án þess að þurfa að svara þeim mörgu spurningum sem enn eru uppi um áhrif virkjunarinnar. Þannig fer þegar eðlilegum kröfum um lögformlegt umhverfismat er hafnað.``

Þetta er óyggjandi, herra forseti. Fjölmiðlarnir hafa allir gengið fram fyrir skjöldu og þeir tala núna einu máli.

Ef við skoðum aðeins frekar þetta lögformlega mat á umhverfisáhrifum, herra forseti, og þau lög sem starfað er eftir í landinu og hv. Alþingi hefur samþykkt, þá langar mig að geta sérstaklega um það að líftími bráðabirgðaákvæðisins margfræga, undanþáguákvæðisins sem Fljótsdalsvirkjun er að fara í gegn á, er orðinn tveimur árum lengri en góðu hófi gegnir því samkvæmt tilskipun frá Evrópusambandinu áttu Íslendingar að vera búnir að breyta lögum sínum ekki síðar en 14. mars 1999 og í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins. Við erum með tillögu stjórnskipaðrar nefndar sem skilaði af sér þann 10. des. 1998 tillögu að frv. til endurskoðaðra laga um mat á umhverfisáhrifum sem, eins og ég sagði áðan, stjórnvöldum bar lagaskylda til þess að endurskoða í síðasta lagi fyrir mars 1999.

En umhvrn. hefur setið á þessu endurskoðaða frv. núna í meira en ár. Það er að mínu mati, herra forseti, með öllu óeðlilegt. Eins og kunnugt er hef ég spurt hæstv. umhvrh. hvernig á þessum drætti standi, hvort ekki sé von á því frv. Þann 20. okt. sl. svaraði hæstv. umhvrh. úr þessum stól að reiknað væri með að frv. yrði lagt fram á næstu vikum. Síðan eru meira en átta vikur, herra forseti. Þetta frv. er til og það er tilbúið og ég hef haldið því fram, herra forseti, og ég geri það enn að hér sé óeðlilega að verki staðið. Það ætti fyrir löngu að vera búið að leggja fram nýtt frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum.

[15:00]

En í tillögu stjórnskipaðrar nefndar, sem ég nefndi áðan, að endurskoðuðum lögum um mat á umhverfisáhrifum, er gert ráð fyrir því að umhvrh. geti, í þeim tilvikum sem fleiri en ein matsskyld framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði, ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega og lögð fram samtímis til athugunar Skipulagsstofnunar. Er ég þá komin að einu veigamiklu atriði í máli mínu sem gengur út á það, eins og ég hef gert grein fyrir áður, að þessi framkvæmd eigi að skoðast í heild sinni, virkjun í Fljótsdal, virkjun við Kárahnjúka, virkjun í Arnardal eða hvar svo sem annars staðar kæmi til greina að virkja fyrir 480 þús. tonna álver, allar línulagnir, hafnarframkvæmdir, álverið sjálft, vegaframkvæmdir, brúasmíð og svona má lengi telja. Þetta er stór og mikil framkvæmd þar sem hvert hengir sig á annars horn. Þessa framkvæmd ætti að meta sameiginlega frá upphafi til enda.

Ákvæði af því tagi sem ég var að gera grein fyrir hefði gert að verkum að þessar framkvæmdir, þrjár stórvirkjanir á hálendinu hið minnsta, sennilega fimm, ásamt öllum línulögnum og ásamt gufuaflsvirkjun í Bjarnarflagi, ásamt línulögnum til Reyðarfjarðar, ásamt álverinu sjálfu, höfn á Reyðarfirði, vegagerð og brúagerð hefði allt verið metið samtímis. Það er einungis þannig sem hægt er að segja til um umhverfisáhrif fyrirhugaðra stórframkvæmda svo einhver mannsbragur sé að. En um þessa skynsamlegu leið eru stjórnvöld að neita íslensku þjóðinni með því að liggja eins og klessur á löngu tilbúnu frv. til nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum.

Af því að hæstv. umhvrh. er staddur í salnum, og ég er afskaplega þakklát fyrir það, vil ég spyrja hæstv. umhvrh. hversu lengi hún ætli að lúra á þessu frv. enn um sinn. Og í framhaldi af því: Hvað eigum við að gera með orð hæstv. umhvrh. sem hún mælti úr þessum ræðustól 20. okt. sl. þar sem hún gaf þær yfirlýsingar að nýtt frv. yrði lagt fram á næstu vikum? En það bólar ekkert á því, herra forseti.

Ég held því enn fram að hæstv. umhvrh. sé að halda þessu frv. frá þinginu mögulega fyrir tilskipun frá flokksbræðrum hennar, hæstv. utanrrh. og hæstv. iðnrh., til þess að þeir fái óáreittir að troða Fljótsdalsvirkjun niður í kokið á þjóðinni með svívirðilegum bolabrögðum. Mér þætti vænt um að fá það staðfest eða eftir atvikum hrakið af hæstv. umhvrh.

En ríkisstjórnin hefur látið í veðri vaka að hér sé farið lýðræðislega að málum þar sem 63 þjóðkjörnir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi fái það verkefni að leggja mat á frummatsskýslu Landsvirkjunar. Lýðræðislega að verki verið, herra forseti.

Ég segi nei. Hér er ekki lýðræðislega að verki verið því hér er verið að þvinga hv. alþm. til að gera hluti sem þeir eru í raun og veru ekki færir um að gera. Hér er verið að láta okkur taka fram fyrir hendurnar á sérfræðingum sem lögum samkvæmt eiga að vera að inna þá vinnu af hendi sem við hv. alþm. erum að vinna.

Mig langar til að vitna til orða hæstv. utanrrh. sem hann viðhafði úr þessum ræðustól þegar Fljótsdalsvirkjun kom til fyrri umr. Þá sagði hæstv. utanrrh. að menn mættu ekki líta á það þannig að ekkert væri verið að vinna í umhverfismálunum í sambandi við málið, hann gat um miklar rannsóknir og að ríkisstjórnin mundi skýra sjónarmið sín. Ég er að vitna í ræðu hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar sem hann flutti á 5. fundi þessarar löggjafarsamkundu, 125. löggjafarþingi, þegar mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar var til umræðu, þ.e. þáltill. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Þá sagði hæstv. utanrrh., með leyfi forseta:

,,Miklar rannsóknir hafa átt sér stað og það mun koma fram skýrsla frá Landsvirkjun og ríkisstjórnin mun flytja þáltill. um þetta mál þar sem hún mun skýra sjónarmið sín og þá myndast möguleikar til að fjalla um þetta mál ítarlega á Alþingi, leita eftir áliti aðila og fá jafnframt álit þeirra sem vilja láta álit sitt í ljós.``

Hvað gerist svo með álit þeirra sem leitað hefur verið til? Ýmsir innan dyra hafa gert lítið úr áliti þeirra sem leitað hefur verið til. Þess er skemmst að minnast sem fram hefur komið í ræðum hv. þm. sem eiga sæti í hv. iðnn. að þar var ekkert gert með á annað hundrað bréf sem komu frá almenningi. Ég segi líka, herra forseti, að í hv. umhvn. fengum við ekki einu sinni leyfi til að prenta þessi bréf sem gögn í málinu. Því var hafnað, herra forseti. Það er nú þetta sem gert er með álit þeirra sem áttu að fá leyfi til að koma að málinu. Hér er verið að svívirða almenning, hér er verið að svívirða sérfræðingana sem vita mest í málinu og verið er að misnota hv. Alþingi.

Mig langar til að vitna aftur síðar í ræðu hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar þar sem hann var kominn þar í ræðu sinni að spurningin væri sú hvort rétt væri að setja Eyjabakka undir vatn eða ekki. Utanrrh. sagði í þessari ræðu að ef menn teldu það ekki rétt yrði ekki virkjað. Ef menn teldu ekki rétt að setja Eyjabakka undir vatn yrði ekki virkjað. En það kom ekkert fram í máli hæstv. utanrrh. hvaða menn ætti að hlusta á. En greinilegt er að hér er um menn og meiri menn að ræða.

Og áfram, ef ég fæ að vitna, með yðar leyfi, herra forseti, til ræðu hæstv. utanrrh. frá 5. fundi Alþingis nú í haust. Þá sagði hann:

,,Ég held að hv. alþm. séu alveg jafnfærir um að svara þeirri spurningu og skipulagsstjóri ríkisins og ég tel þá í reynd hæfari til þess. Ég tel að hv. alþm. hafi allar upplýsingar í höndum til að taka afstöðu til þess. Þeir geta leitað ráða hjá skipulagsstjóra ríkisins, ekki hef ég á móti því. En ég tel eðlilegt að það séu þingmenn sjálfir sem taka þá mikilvægu ákvörðun að þetta yrði með einhverju móti afturkallað.``

Herra forseti. Þetta segir maður sem í skjóli meirihlutavalds getur ráðið því sem hann vill ráða, nákvæmlega því sem hann vill ráða. Þetta er bara til að bæta gráu ofan á svart í þeirri aðför sem hér hefur staðið yfir úr þessum sal að embætti skipulagsstjóra ríkisins. Skipulagsstjóri þurfti að svara fyrir sig þegar þessi ummæli hæstv. utanrrh. voru viðhöfð og hann gerði það sem hann gat fyrir sig og stofnun sína til þess að bera hönd fyrir höfuð sér. Enn þarf skipulagsstjóri og Skipulagsstofnun að bera hönd fyrir höfuð sér. Ekki er sæmandi hv. Alþingi að ganga svona fram fyrir skjöldu og gera lítið úr stofnun sem við leitum til lögum samkvæmt og eigum að treysta. Þetta er fagstofnun sem er borið mikið traust til í samfélaginu og það er síst héðan sem eiga að koma endalausar efasemdarraddir og niðurrifsstarfsemi af þessu tagi á ekki að leyfast úr þessum stól, herra forseti.

Eins og ljóst er gæti ég talað í allan dag og ég gæti talað langt fram á morgundaginn. En ég er í sannleika sagt að hugsa um að reyna að hlífa hv. alþm. og þjóðinni við því, því margt hefur verið sagt og sennilega er þetta það mál sem Íslendingar hafa tekist á um hvað dramatískast af öllum málum sem upp hafa komið meðal þjóðarinnar síðan Laxárdeilan átti sér stað. Dramatíkin í málinu hefur verið afskaplega mikil og hún hefur verið á báða bóga, bæði hjá virkjanasinnum og hinum sem vilja ekki virkja, hinum sem vilja nota landið á annan hátt, hinum sem vilja láta meta kosti þessa lands og fá viðurkennt verðgildi þess.

Herra forseti. Hvers vegna erum við ekki að lúta lögum og setja virkjunina í lögformlegt umhverfismat? Hv. þm. Hjálmar Árnason hefur látið hafa það eftir sér í fjölmiðlum að það eigi að meta hérna 120 þús. tonna álver en ekki 480 þús. tonna álver. Hvers vegna? Jú, vegna þess að það sé það sem sé mest í umræðunni. Það sé eðlilegt að meta 120 þús. tonna álver fyrst það sé mest í umræðunni. Ég leyfi mér að andmæla þeirri fullyrðingu því það sem mest er í umræðunni er Fljótsdalsvirkjun. Ef það á að meta það lögformlega sem mest er í umræðunni á að meta lögformlega Fljótsdalsvirkjun og það á að byrja á því. Auðvitað væri skynsamlegast og okkur öllum mestur sómi að ef við værum að meta þessa framkvæmd heildstætt frá upphafi til enda.

En af því að ég er að undirbúa mig, herra forseti, undir það að ljúka máli mínu langar mig til að gera það með tilvitnun í skáld nokkurt sem ritaði árið 1970 grein undir yfirskriftinni ,,Hernaðurinn gegn landinu``. Þetta er Halldór Laxness sem fær að eiga lokaorðin í ræðu minni í dag, herra forseti, með yðar leyfi:

,,Vandræðin byrja þegar stofnun sem fæst við niðurskipun orkuvera handa einhverri tilvonandi stóriðju veitir virkjunarfyrirtækjum fríbréf til að sparka í landinu eins og naut í flagi og jafnvel hyllast til þess að skaðskemma ellegar leggja í eyði þau sérstök pláss sem vegna landkosta, náttúrudýrðar ellegar samhengis eru ekki aðeins íslensku þjóðinni hjartfólgin heldur njóta frægðar um víða veröld sem nokkrir eftirlætisgimsteinar jarðarinnar.

Ég sagði að vandamálið væri ekki stóriðja sem dembt væri yfir okkur með offorsi að nauðsynjalausu. Vandamálið er oftrú þeirra í Orkustofnun á endalausar málmbræðslur sem eiga að fylla þetta land. Þá fyrst er land og lýður í háska þegar svona kontór ætlar með skírskotun til reikningsstokksins að afmá eins marga helga staði Íslands og hægt er að komast yfir á sem skemmstum tíma, drekkja frægum byggðarlögum í vatni --- tólf kílómetrum af Laxárdal í Þingeyjarsýslu átti að sökkva samkvæmt áætlun þeirra --- og helst fara í stríð við allt sem lífsanda dregur á Íslandi.``