Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 15:15:11 (3544)

1999-12-20 15:15:11# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhvrh. fyrir að hafa setið hér við alla ræðu mína. Það er meira en hæstv. iðnrh. og hæstv. utanrrh. hafa gert þó ég hafi einnig beint máli mínu til þeirra ekki síður en hæstv. umhvrh.

Herra forseti. Mergurinn málsins í þessum skipulagsmálum er að um þau er ágreiningur. Ég tel að lögformlegt umhverfismat mundi færa okkur nær lausninni, nær því að miðla málum, þ.e finna hver hefur rétt fyrir sér, því það er ekki alveg einboðið að Skipulagsstofnun og lögfræðingar umhvrn. séu sammála. Mér virðist að formsatriðin séu ekki alveg samhljóða hjá þeim lögfræðingum sem hafa að þessu komið.

Ég bendi á að það er um mörg leyfi að ræða, herra forseti. Hér er t.d. um að ræða leyfi til framkvæmda. Ég vil leyfa mér að vitna í greinargerðina með þáltill. sem hér er til umræðu þar sem hæstv. iðnrh. viðurkennir að ekki liggi fyrir formlegt samþykki Fljótsdalshrepps fyrir frekari framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun umfram það sem hefur verið veitt leyfi fyrir hvað varðar aðkomugöng. Hæstv. iðnrh. viðurkennir því að ákveðin leyfi skortir frá Fljótsdalshreppi.

Það hefur líka komið fram í máli gesta sem hafa heimsótt umhvn., bæði frá skipulagsstjóra og sömuleiðis frá umhvrn., að ágreiningur um framkvæmdaleyfin séu til staðar, þ.e. hvort það eigi að veita byggingarleyfi samkvæmt gömlu lögunum eða nýju lögunum. Skipulagsstjóri segir að það sé alveg sama hvort litið sé á gömlu lögin eða nýju, ákveðnir þættir í leyfisveitingunum séu enn óafgreiddir.