Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 16:22:51 (3552)

1999-12-20 16:22:51# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[16:22]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Katrín Fjeldsted hefur lýst skoðunum sínum í löngu máli og kom þar fram að þingmaðurinn vefengdi alla þætti málsins, taldi það rangt að ávinningur gæti verið af málinu byggðarlega séð, taldi rangt að um arðsemi gæti verið að ræða af framkvæmdinni, lýsti andstöðu við byggingu álvers í Reyðarfirði og almennt andstöðu við byggingu álvers í fjörðum og í stuttu máli lýsti andstöðu við alla meginþætti málsins. Ég spyr hv. þm. hvort ég hafi skilið mál hennar rétt. Ég gat ekki fengið aðra niðurstöðu úr máli hennar.

Þess vegna kemur á óvart að niðurstaða þessarar skoðunar kemur fram í þeirri tillögu að þingmaðurinn leggur til að fram fari mat á umhverfisáhrifum. Á hv. þm. von á því að slíkt mat á umhverfisáhrifum breyti byggðarlegu mati hennar á áhrifum framkvæmda á byggðir, breyti mati hv. þm. á arðsemi framkvæmdarinnar o.s.frv.? Ég fæ ekki séð að það geti verið. Ég skil því ekki alveg niðurstöðu hv. þm. út frá þeim sjónarmiðum sem hún setti fram í málinu.

Eitt vildi ég líka spyrja um af því að hv. þm. lagði mikla áherslu á nútímaleg vinnubrögð siðaðra manna þar sem hún taldi sig vera í þeim hópi og þá sem ekki eru sammála hv. þm. í öðrum hópi sem hvorki væru nútímalegir né siðaðir. Hv. þm. hefur ekki lýst skoðunum sínum á öðrum framkvæmdum sem unnar eru samkvæmt sama skilningi á lögum um mat á umhverfisáhrifum, svo sem um Nesjavelli og Svartsengi. Er allt í lagi með þær framkvæmdir, herra forseti?