Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 16:26:08 (3554)

1999-12-20 16:26:08# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[16:26]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði. Hv. þm. gat ekki fært rök fyrir niðurstöðu sinni út frá þeim sjónarmiðum sem hún setti fram. Það er alveg augljóst mál að þegar hv. þm. hafnar því alfarið að rekstur stóriðjuvers við Reyðarfjörð hafi áhrif á byggðaþróun, þá breytir umhverfismat á Fljótsdalsvirkjun engu þar um.

Það er líka ljóst að verði valdir dýrari virkjunarkostir en áformað er í Fljótsdal, þá bætir það ekki arðsemismat hv. þm. á framkvæmdunum. Ég fæ því ekki skilið þá niðurstöðu sem þingmaðurinn kemst að, að vera á móti málinu á öllum stigum þess en segja svo í lokin að hann geri kröfu um umhverfismat. Af þeirri einföldu ástæðu hlýtur maður að álykta að hv. þm. muni vera á móti málinu hver sem svo niðurstaða af umhverfismati yrði og því á hv. þm. einfaldlega að stíga fram og segja þá skoðun sína og standa fyrir henni en skjóta sér ekki á bak við skjöld eins og þennan.

Hitt þótti mér mjög merkilegt þó að það sé kannski ekki beinlínis mitt mál hvernig hv. þm. afgreiddi Sjálfstfl. og skipti honum í tvær fylkingar. Annars vegar voru þeir sem eru virkjunarsinnar og hins vegar þeir sem hafa mikla menntun, þekkingu og reynslu í umhverfismálum. Þetta var sérkennileg flokkun á stuðningsmönnum Sjálfstfl.