Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 16:27:39 (3555)

1999-12-20 16:27:39# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[16:27]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Herra forseti. Ég læt nú útúrsnúninga og geðvonsku hv. þm. lítil áhrif á mig hafa. Ég rökstuddi mitt mál ítarlega. Ég var að vekja athygli á og draga fram í dagsljósið ýmis atriði um rekstur álvers úr því að farið var að ræða um frummatsskýrslu um 480 þúsund tonna álver við Reyðarfjörð. Það var ekki ég sem gerði það að fyrra bragði, það var gert í ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar fyrr í umræðununum. Þess vegna taldi ég rétt að koma inn á það mál.

Ég held nefnilega að Reyðfirðingum, Austfirðingum eða öðrum landsbyggðarmönnum hafi alls ekki verið gerð grein fyrir því hvað það þýðir að búa í nágrenni við 480 þúsund tonna álver. Ég held að menn átti sig alls ekki á því, því miður, og ég held að stuðningur þeirra við þetta mál væri ekki slíkur sem hann er á Austfjörðum ef menn áttuðu sig á því af hverju fólk fælist mengandi stóriðju og af hverju hún er kölluð mengandi stóriðja. Fyrir öllu þessu tel ég, herra forseti, að ég hafi reynt að færa fram gild rök.

Hv. þm. tekst ekki að setja mig upp við vegg með það að ég sé á móti málinu hvernig sem það snúi. Það er akkúrat verkefni mats á umhverfisáhrifum að skoða allar hliðar svona máls. Ef virkjun sem ekki skaðar hálendið á þennan hátt gæti nýst til að byggja 120 þúsund tonna álver sem er minna mengandi en 480 þúsund tonna álver sem yrði með hreinsibúnaði sem er hægt væri að sætta sig við, en það stendur ekki til með 120 þúsund tonna álverið sem er á teikniborðinu nú, þá er það niðurstaða sem þarf að skoða. Ég er ekki tilbúin að svara því hér og nú að ég sé alfarið á móti slíkri niðurstöðu. En ég krefst þess að eftir slíkri niðurstöðu sé leitað og það er það sem mat á umhverfisáhrifum á að færa okkur.