Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 16:29:54 (3556)

1999-12-20 16:29:54# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[16:29]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted fyrir frábæra ræðu og þakka það að hún hefur dregið fram með nokkuð öðrum efnistökum en aðrir hafa gert ýmsa nýja þætti sem ekki hafa verið í umræðunni. Það er góð og málefnaleg viðbót við önnur þau rök sem flutt hafa verið hér í þessari umræðu, bæði af þeim sem hér stendur og öðrum sem talað hafa.

Ég kemst ekki hjá því að biðja hv. þm. að staðfesta þær fullyrðingar sem koma fram í nál. okkar en bornar hafa verið brigður á hér. Ég stend á því fastar en fótunum að í nál. okkar standi að verkmaður Landsvirkjunar í gróðurfarsrannsóknum, Ágúst H. Bjarnason, hafi ekki sett það fram í sinni skýrslu sem við höfðum þegar við sömdum okkar nál., að hann hefði farið inni á Eyjabakka, hvorki út í Eyjar né gönguleiðina inn Snæfellsnesið og inn að Háöldu. Þær upplýsingar komu síðar fram eftir að nál. var skrifað, og mig langar til þess að spyrja hv. þm. um viðhorf hans og staðfestingu á þessum orðum og þeim upplýsingum sem hv. þm. Kristján Pálsson dregur hér hvað eftir annað inn í umræðuna. Þær komu eftir að nál. var skrifað og voru birtar í Morgunblaðinu en ekki gafst tóm til í því ágæta blaði að bera fram nokkrar þær gróðurfarsrannsóknir sem fylgt hafa þessu máli.