Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 16:31:41 (3557)

1999-12-20 16:31:41# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[16:31]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Við í 2. minni hluta umhvn. höfðum í nál. okkar gögn að styðjast við þegar við settum fram umsögn okkar um rannsóknir Ágústs H. Bjarnasonar grasafræðings en það var umsögn Þóru Ellenar Þórhallsdóttur prófessors sem við vorum að vitna þar í. Hvorki ég né hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson né Þórunn Sveinbjarnardóttir, Kolbrún Halldórsdóttir eða Össur Skarphéðinsson vorum stödd þar að fylgjast með ferðum Ágústs H. Bjarnasonar. Við vorum ekki til vitnis um hvar hann fór og hvar hann fór ekki. Það eina sem við höfum eru upplýsingar frá honum sjálfum og upplýsingar um þær rannsóknarniðurstöður sem hann lagði fram og það sem við vitnuðum til í nefndaráliti okkar var eftirfarandi setning frá Þóru Ellen Þórhallsdóttur: ,,Eins og fram kemur í skýrslu Ágústs H. Bjarnasonar fór hann aldrei á Eyjabakkasvæðið sumarið 1998 en gerði athuganir við Hölkná, Laugará og Grjótá.`` Það er ekki sæmandi hv. þm. Kristjáni Pálssyni að koma ítrekað upp í ræðustól og væna þingmenn um að bera kjaftasögur. Þetta er óviðeigandi, óviðurkvæmilegt, herra forseti, og ég fer fram á að forseti geri athugasemdir við þingmanninn vegna orða hans.