Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 16:39:45 (3558)

1999-12-20 16:39:45# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[16:39]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér er enn á dagskrá mál sem mikið hefur verið rætt, bæði í þingsölum og víða í samfélaginu og það til fjölda ára.

Ég hef í meginatriðum komið sjónarmiðum mínum á framfæri í fyrri umræðum um þetta mál en tel nauðsynlegt að bæta nokkru við og rifja örfá atriði upp en í upphafi vil ég, herra forseti, segja þetta.

Þetta mál er ekki þess eðlis að skoðanir í því skiptist eftir stjórnmálaflokkum. Þetta mál er ekki þess eðlis að það skiptist eftir hreinum línum milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þess vegna, herra forseti, er nauðsynlegt að taka fram að ef einhverjir hv. þm. gleyma sér í hita leiksins og telja sig tala fyrir munn stjórnarandstöðunnar í heild, fyrir munn þingflokks Samfylkingarinnar í heild, þá er það ekki svo. Í þessu máli getur enginn talað fyrir þessa hópa í heild sinni.

Herra forseti. Viðhorf mín í þessu máli eru kunn. Ég vil aðeins til þess að hafa sagt það, segja að það er ljóst að í stefnuyfirlýsingu og verkefnaskrá Samfylkingarinnar fyrir síðustu þingkosningar er ekkert, ekki eitt einasta atriði sem er í andstöðu við málflutning minn í þessu máli.

Herra forseti. Áður í umræðunni hefur verið rætt um skoðanakönnun sem gerð var fyrir nokkru og í fyrri umræðu um málið gerði ég hana að nokkru umræðuefni sérstaklega varðandi almenna þekkingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Nú hefur skoðanakönnunin verið birt í heild sinni og er greinilegt að það sem ég lét mér um munn fara í fyrri umræðunni hefur verið staðfest og færð enn færð enn frekari rök fyrir því.

Herra forseti. Ljóst er að meginniðurstaða þessarar könnunar er sú að yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna er fylgjandi starfandi stóriðju í landinu og telur hana hafa góð áhrif á atvinnu- og efnahagslíf. Viðhorfin hafa ekki breyst í áratug. Meira að segja eru ívið fleiri jákvæðir nú en í könnun sem gerð var árið 1989. Íslendingar telja jákvætt að byggja upp stóriðju á Íslandi sem byggir á mengunarlausri orku frekar en að fylgja eftir alþjóðlegum samþykktum um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Nærri helmingur landsmanna telur engu að síður að mengun frá stóriðju sé mikið eða nokkurt vandamál. Nær 60% landsmanna eru fylgjandi því að áfram verði haldið að virkja vatnsafl þrátt fyrir að virkjunum fylgi oft röskun af völdum miðlunarlóna. Meira en helmingur landsmanna telur að stóriðja, virkjanir og ferðaþjónusta geti farið vel saman á Austurlandi og svo virðist sem landsmenn séu ekki viðkvæmari gagnvart virkjunum á Austurlandi en annars staðar á landinu hvað varðar áhrif á ferðaþjónustu.

Herra forseti. Samkvæmt þessari skoðanakönnun vita 80% landsmanna og 67% Austfirðinga lítið eða ekkert um hvað felst í lögum um mat á umhverfisáhrifum. 63% landsmanna segjast ekki vita hver hefði annast umhverfismat á Fljótsdalsvirkjun samkvæmt gildandi lögum. Innan við 10% landsmanna vita að framkvæmdaraðilinn, Landsvirkjun, hafði séð um matið og greitt kostnaðinn af því.

Herra forseti. Þetta er afar athyglisvert í ljósi ýmissa ummæla sem fallið hafa varðandi t.d. undirskriftasöfnun sem hér fer fram og ég mun gera að umtalsefni skömmu síðar í ræðu minni.

Herra forseti. Stuðningur Austfirðinga við álverið er mun meiri en annarra landsmanna en andstaðan er hlutfallslega nærri því jafnmikil á Austurlandi og annars staðar á landinu. Mun fleiri hafa tekið afstöðu í málinu á Austurlandi en annars staðar á landinu en á Austurlandi eru innan við 10% hlutlausir en hins vegar er fjórðungur hlutlaus á landinu öllu. Stuðningur Austfirðinga við virkjun í Fljótsdal er líka mun meiri en annarra landsmanna en andstaðan er nærri jafnmikil og annars staðar. Áberandi er, herra forseti, hve útbreitt það viðhorf er meðal landsmanna að álverið og virkjunin styrki byggð og atvinnulíf á Austurlandi. Þá er eftirtektarvert að bæði Austfirðingar og landsmenn allir nefna stóriðju næst á eftir sjávarútvegi en næst á undan ferðaþjónustu þegar spurt er hvaða atvinnugrein sé áhrifamest til að styrkja byggð og atvinnulíf á Austurlandi.

Væntingar Austfirðinga og landsmanna eru miklar sem sést m.a. á því að mikill meiri hluti telur að tilkoma álvers muni stuðla að því að hækka laun á Austurlandi og íbúum í fjórðungnum muni fjölga. Einnig er athyglisvert að skoða skoðanakönnunina í samræmi við það hvernig hugmyndir og skoðanir skiptast milli stjórnmálaflokka. Um 75% kjósenda ríkisstjórnarflokkanna eru jákvæðir í garð stóriðju. Um 60% kjósenda Samfylkingarinnar eru einnig jákvæðir í garð stóriðju og það er ekki síður athyglisvert að um 30% kjósenda vinstri grænna eru jákvæðir í garð stóriðju. Stór hluti kjósenda stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi er jákvæður gagnvart stóriðju og virkjun á Austurlandi þvert gegn því sem meiri hluti hv. þm. þessara flokka hafa haldið fram hér innan veggja.

Herra forseti. Hægt væri að fara yfir þessa skoðanakönnun lið fyrir lið og velta fyrir sér tengslum við málflutning og m.a. þá undirskriftasöfnun sem átt hefur sér stað. Ég vil þó ekki þreyta þingheim eða draga þá umræðu sem hér á sér stað á langinn með því að fara nákvæmlega yfir. Áður en ég skil við þessa könnun vil ég þó taka fyrir tvær athyglisverðar spurningar sem skýra hugsanlega ýmislegt í þessu máli. Þær eru í tengslum við það að hv. þm. vinstri grænna hafa gjarnan í umræðunni talað eins og þeir væru að tala fyrir munn meiri hluta þjóðarinnar, þeir tala fyrir munn hóps sem allt veit um málið.

Herra forseti. Í skoðanakönnuninni er m.a. spurt: ,,Telur þú að fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun muni hafa áhrif á Dettifoss?`` Hver er niðurstaðan? Jú, meiri hluti þeirra sem svara segja nei, tæplega 63%. Herra forseti. Vegna þess að ég nefndi það ekki í upphafi, er sú skipting sem ég nefndi hér, skipting eftir Austurlandi, þ.e. þetta er það hvernig Austfirðingar svöruðu könnuninni. Nú kem ég að því sem mér þótti hvað merkast í könnuninni en það er það þegar skoðað er hvernig kjósendur vinstri grænna skiptast í þessari könnun, þá er að sjálfsögðu afar athyglisvert að rétt tæplega 47% þeirra svara neitandi spurningunni: Telur þú að fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun muni hafa áhrif á Dettifoss? Það er meiri hluti kjósenda vinstri grænna á Austurlandi sem svarar því annaðhvort játandi eða óviss eða rétt tæp 54% telur að Fljótsdalsvirkjun muni hafa áhrif á Dettifoss eða er ekki viss um það.

Herra forseti. Önnur spurning ekki síður athyglisverð er svohljóðandi: ,,Telur þú að fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun muni hafa áhrif á Hafrahvammagljúfur eða Dimmugljúfur öðru nafni?`` Hver er niðurstaðan? Jú, hún er þessi: Mikill meiri hluti kjósenda vinstri grænna á Austurlandi eða tæp 78% svara þessari spurningu játandi eða eru óvissir. Það eru einungis rétt rúmlega 24% þeirra sem eru vissir um það að fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun muni ekki hafa áhrif á þessi fögru gljúfur.

Herra forseti. Ég læt að sinni lokið umfjöllun minni um þá skoðanakönnun sem hefur upplýst okkur mjög um þá þekkingu sem fyrir er varðandi þetta mál meðal almennings.

Það er athyglisvert í allri þessari umræðu hvernig andstæðingarnir hafa stöðugt verið á flótta í málinu. Eitt atriði hefur vakið sérstaka athygli mína, en það er það þegar stjórnmálaflokkurinn Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er jafnvel kominn svo langt í málflutningi sínum að kalla til tilskipanir Evrópusambandsins máli sínu til stuðnings. Þessi hópur sem varla má nokkuð heyra úr þeirri átt getur þó nýtt einstaka pappíra ef talið er að þeir henti í málinu. Ég lít ekki á mig sem mikinn sérfræðing í tilskipunum Evrópusambandsins en þessi umræða vakti þó hjá mér löngun til að skoða örlítið þessa pappíra. Herra forseti. Hér segir í 1. gr. 5. tölul. þeirrar tilskipunar sem hvað mest hefur verið fjallað um:

,,Tilskipunin gildir þó ekki um framkvæmdir sem landslög hafa þegar verið sett um í einstökum atriðum þar eð í slíkum tilvikum hefur markmiðum hennar, þar á meðal upplýsingamiðlun verið náð með lagasetningu.``

Herra forseti. Ég ætla ekki að kveða fastar að orði um þetta en það hlýtur a.m.k. einhver vafi að vera í þessu máli og vekja efasemdir um málflutning þeirra sem hafa talið þetta vera styrk í málflutningi sínum.

Þá kem ég, herra forseti, að öðrum þætti sem hefur einnig verið athyglisverður í þeim flótta sem átt hefur sér stað undanfarnar vikur. Allir kannast við hina svokölluðu Umhverfisvini sem hafa farið mikinn á undanförnum vikum, sem virðast hafa ótakmarkaðan aðgang að fjármagni, fjármagni sem ekki hefur verið upplýst hvaðan kemur, fjármagni, herra forseti, sem við ættum að velta fyrir okkur hvort væri ekki rétt að um samtök sem þessi ættu að gilda svipaðar reglur og margir hv. þm. hafa krafist að ættu að gilda um stjórnmálaflokka, þ.e. reikningshald slíkra samtaka væri gert opinbert. Að sjálfsögðu er afar mikilvægt að vita hverjir standa á bak við allt það fjármagn sem er greinilega á ferðum þarna.

Herra forseti. Ég talaði um flóttann. Örlítil og örstutt tilvitnun í grein talsmanns hinna svokölluðu Umhverfisvina, þess ágæta manns, Ólafs F. Magnússonar sem nú fyrir stuttu eftir væntanlega miklar og ítarlegar rannsóknir þótti ástæða til að upplýsa Reykvíkinga í sjónvarpsstöð sem eingöngu er bundin við höfuðborgarsvæðið og fjallaði sérstaklega um heilsufar Reyðfirðinga árið 2015. Herra forseti, það væri athyglisvert fyrir þennan vandaða vísindamann að mæta til Reyðfirðinga sjálfra og fjalla um það hvernig hann telur að heilsufar þeirra verði árið 2015.

Herra forseti. Með leyfi forseta hljóðar þessi tilvitnun í grein talsmanns hinna svokölluðu Umhverfisvina frá því 17. desember þannig:

[16:45]

,,Þannig hefur fjöldi undirskrifta glatast, þegar listar hafa verið fjarlægðir af óprúttnum aðilum. Einnig hefur verið reynt að hrekja Umhverfisvini með undirskriftalista burt úr verslunarmiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu og sums staðar tekist.``

(Gripið fram í: Þetta er nú ekki fallegt.) Það er ekki furða, herra forseti, þó markmiðunum stóru og miklu hafi ekki verið náð þrátt fyrir að beitt væri nýjustu tækni. Það mátti hringja í ákveðið símanúmer og pikka inn kennitölur. Þar hefði jafnvel mátt hafa þjóðskrána við hlið sér, hvernig átti að vera hægt að sannreyna annað? Að vísu sögðu talsmenn hinna svokölluðu Umhverfisvina að fylgst yrði með. Það er kannski skýringin á því að hægt hefur á söfnuninni. Þeir eru væntanlega uppteknir við það nú að fara yfir lista sína, hringja og athuga: Átt þú að vera hér? Hefur þú gefið heimild til þess að þitt nafn sé hér skráð eða hvað?

Herra forseti. Ég vitnaði í ummæli starfsmannsins, framkvæmdastjórans eða hvaða titil viðkomandi ber hjá svokölluðum Umhverfisvinum, þar sem hann gaf í skyn að það væri að sjálfsögðu ekkert öruggt í þessari frekar en í öðrum undirskriftasöfnunum sem efnt hefði verið til. Gerði viðkomandi lítinn greinarmun á því hvort pikkaðar væru kennitölur í gegnum síma eða hvort menn mættu út í búð og skrifuðu á lista nafn vina, kunningja eða þess vegna óvina.

Herra forseti. Það er býsna merkilegt að bera saman yfirlýsingar frá þessum hópi. Enn minni ég á að ég er að ræða um þetta í samhengi við þann flótta sem þessi hópur hefur verið á í málinu. Það er ekki langt síðan því var lýst yfir af forsvarsmönnum svokallaðra Umhverfisvina að nú yrði safnað 70 þús. undirskriftum á undraskömmum tíma og listarnir síðan afhentir. Enginn hefur séð þessa lista. Engir listar hafa verið afhentir og nú heyrum við í fjölmiðlum að þar séu aðrar tölur á ferðinni. Það er búið að fresta afhendingunni og nú skal haldið áfram fram á næsta ár. Hversu lengi veit enginn vegna þess að enn eru uppi markmið um það að ná ákveðnum tölum. Ekki lengur 70 þús. Nei, það virðist svo fjarlægt að þeir eru hættir að tala um það. Nú er enn vitnað til undirskriftasöfnunarinnar um Varið land og nú skal reynt að slá Íslandsmet og fara aðeins yfir þau mörk sem þar var náð. Enn hefur dregið úr því göfuga markmiði hinna ágætu Umhverfisvina að slá öll met með glæsibrag. Nú er markmiðið aðeins að fá einu nafni meira en náðist með Vörðu landi og er þá ekki rætt um hlutfall af íbúum landsins í því samhengi.

Herra forseti. Hvað sem líður vandræðagangi og örvæntingu svokallaðra Umhverfisvina þá stendur eftir að þeim hefur ekki tekist að safna nema um það bil helmingi þeirra undirskrifta sem gert var ráð fyrir í upphafi. Í raun segir það allt sem segja þarf. Þetta er niðurstaðan þrátt fyrir að svokallaðir Umhverfisvinir hafi stóran hluta fjölmiðlaaflsins með sér þar sem sjónarmiðum andstæðinga stóriðju á Austurlandi er stöðugt hampað. Hér þarf ekki, herra forseti, að tína til alla þá fjölmiðla sem hér komu við sögu. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum hv. þm.

Herra forseti. Þetta er niðurstaðan. Auglýsingaherferð í ljósvakamiðlum og dagblöðum og skrifstofuhald sem samtals kostar milljónir króna hefur ekki skilað meiri árangri. Herra forseti. Þetta er niðurstaðan þrátt fyrir allt fræga fólkið, menningarvitana og listamennina sem hafa farið mikinn til stuðnings svokölluðum Umhverfisvinum. Herra forseti. Þetta er niðurstaðan þrátt fyrir að reynt hafi verið að greiða ýmsum frjálsum félagasamtökum fyrir að veita aðstoð við söfnun undirskrifta. Það er rétt og skynsamleg ákvörðun hjá svokölluðum Umhverfisvinum að lýsa yfir að undirskriftasöfnunin sé farin í jólaleyfi. Sagnfræðingar framtíðarinnar meta það kannski svo að uppgjafaryfirlýsing þessi hafi verið eina gáfulega ákvörðun hinna sérkennilegu samtaka á stuttu og ólánslegu æviskeiði.

Herra forseti. Úrskurður skipulagsstjóra vegna álvers á Reyðarfirði. hefur verið dregið fram í þessari umræðu sem eitt af þeim vandamálum sem upp hafi komið. Ég bendi á þetta í tengslum við flótta andstæðinganna vegna þess að þessi úrskurður átti að breyta öllu ferlinu og skapa allt aðrar tímaforsendur en áður höfðu verið. Það held ég að sé á miklum misskilningi byggt. Í samræmi við það sem ég sagði áðan þá mun ég ekki fara að rekja öll þau bréfaskipti sem átt hafa sér stað út af þessu máli en ég hef hér í höndum töluverðan bunka af bréfum sem farið hafa á milli og skapa ýmsar efasemdir um þá niðurstöðu að í úrskurðinum væri ekki hægt að fjalla sérstaklega um 120 þús. tonna álver við Reyðarfjörð.

Herra forseti. Í þessu samhengi er einnig nauðsynlegt að vekja athygli á því að til eru fleiri úrskurðir en eingöngu þessi um álverið við Reyðarfjörð. Það er einnig til úrskurður um álver við Hvalfjörð. Það er afar athyglisvert að bera þá saman. Við sjáum hér að mikill munur er á pappírsflóði en einnig á niðurstöðum. Við Hvalfjörð var talið mögulegt að veita heimild og hafa hana áfangaskipta eins og óskaði hafði verið eftir varðandi álver við Reyðarfjörð. Herra forseti. Ég vil aðeins vitna í eitt bréf þessu til staðfestingar. Í bréfi sem sent var til Skipulagsstofnunar, dags. 18. nóvember sl. segir, með leyfi forseta:

,,Eins og lýst er í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum er áformað að álverið verði byggt í áföngum á löngum tíma og fyrsti áfangi er 120 þús. árstonn. Framkvæmdaraðili gerði ráð fyrir að umsókn um mat á umhverfisáhrifum yrði einnig afgreidd með hliðsjón af áætluðum áföngum enda er verulegur munur á 120 þús. tonnum og 480 þús. árstonna álveri. Þannig yrði mat og skilyrði fyrir fyrsta áfanga byggt á fyrirliggjandi umhverfisrannsóknum í Reyðarfirði, síðari áfangar yrðu háðir skilyrðum um frekari rannsóknir eftir þörfum á grundvelli reynslu af rekstri og mengunarvörnum í fyrsta áfanga og mældum áhrifum á umhverfið.``

Herra forseti. Hér er held ég tekinn af allur vafi um að það var ekki í andstöðu við framkvæmdaraðila að áfangaskipta úrskurði. Hins vegar varð niðurstaðan önnur. Það útilokar þó ekki að á seinni stigum verði niðurstaðan í þessa átt.

Herra forseti. Orkuverðið hefur einnig komið nokkuð við sögu. Ýmsir svokallaðir virtir hagfræðingar hafa reiknað og reiknað og komist að niðurstöðu. Það er alveg sama þó oft hefur verið bent á að inn í þá miklu og væntanlega vönduðu útreikninga vanti lykiltölur og á þessu stigi sé ekki um þær að ræða. Við höfum lög um Landsvirkjun og þar eru reglur um hvernig megi semja um orkuverðið. Þessi umræða hefur augljóslega þann eina tilgang að reyna að hafa áhrif á væntanlega fjárfesta. Við höfum séð það, herra forseti, að í þessu máli virðast því miður of margir beita öllum brögðum til að hafa áhrif, eftir öllum leiðum sem þeim koma í hug. Annað atriði sem væntanlega allir hv. þm. hafa orðið varir við er að reynt hefur verið að hafa áhrif á norska fyrirtækið Norsk Hydro og þeim brögðum beitt sem til falla hverju sinni til að reyna að hræða þá frá því að fjárfesta hér.

Herra forseti. Hér liggur ekki eingöngu fyrir þáltill. frá hæstv. iðnrh. heldur liggja hér einnig fyrir tvær brtt. Önnur þeirra fjallar um að málið sé sett í þann farveg sem lög um mat á umhverfisáhrifum gerir ráð fyrir. Ýmsir hv. þm. segjast ekki á móti virkjun en telja eðlilegt að málið fari þennan farveg. Þetta er á margan hátt mjög skiljanleg afstaða. Það mun reyna á meininguna á bak við þessi orð þegar kemur að lokaafgreiðslu málsins. Þegar búið er að greiða atkvæði um brtt. og hún, eins og línur liggja í þingsal, hefur verið felld þá reynir á hvort hv. þm. hafa meint það sem þeir segja, að þeir séu í raun ekki á móti virkjun. Þá mun á það reyna.

Herra forseti. Önnur brtt. sem ég tel afar sérkennilega fjallar um að málið skuli fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Af hverju segi ég að hún sé sérkennileg? Jú, hv. flutningsmenn tillögunnar hafa talað á þeim nótum að afar nauðsynlegt væri að þessi framkvæmd færi í mat á umhverfisáhrifum. Með því að senda málið í þjóðaratkvæðagreiðslu er í raun verið að segja að málið fari ekki í mat á umhverfisáhrifum heldur eigi almenningur í landinu að taka afstöðu til framkvæmdarinnar, ekki til þess hvort hún fari í umhverfismat. Það hefði að vissu leyti verið skiljanlegri tillaga.

Herra forseti. Stærsti og viðamesti þáttur þessa máls er að sjálfsögðu atvinnu- og byggðamálaþátturinn. Um það snýst þetta mál í raun og veru. Ég tel mig hafa gert þeim þætti þokkalega skil í fyrri ræðum mínum við fyrri umræðu um þá þáltill. sem hér liggur fyrir. Í millitíðinni hafa hins vegar birst nýjar tölur um íbúaþróun í þessu landi. Ég held að það fari ekki fram hjá nokkrum manni sem kynnir sér þær tölur að nauðsynlegt er að fara í þær framkvæmdir sem hér er fjallað um. Ég á að sjálfsögðu við, herra forseti, að það er ekki hægt að skilja á milli virkjunarframkvæmda og byggingu álvers við Reyðarfjörð. Í raun snýst þetta mál um hvort við viljum nýta þau tækifæri sem nú gefast til að hafa áhrif á þá óheillavænlegu byggðaþróun sem allt of lengi hefur verið í okkar landi.

Herra forseti. Margar blaðagreinar hafa verið ritaðar um þetta mál, bæði með og á móti. Í máli ýmissa hv. þm. hefur einnig verið sáð efasendum um að bygging álvers við Reyðarfjörð muni hafa áhrif á byggðaþróun á Austurlandi. Ein er sú grein sem ég tel að svari þessu öllu. Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna til blaðagreinar sem birtist í Morgunblaðinu þann 4. desember sl. Þessi grein er rituð af Gísla Gíslasyni, bæjarstjóra á Akranesi, en eins og væntanlega öllum hv. þm. er kunnugt eru stóriðjuver ekki fjarri þeim ágæta kaupstað. Þar segir:

,,Það fer ekki fram hjá neinum að mál málanna nú um stundir snýst um virkjanir og stóriðju á Austurlandi. Fyrir þá sem búa á Akranesi og í nágrenni er umræðan kunnugleg. Upp er risið þjóðlið sem hvorki vill virkjun né stóriðju, en Austfirðingar gera sér grein fyrir mikilvægi málsins og eiga þeir við ramman reip að draga í umfjöllun sinni um það. Þessi staða er áþekk því þegar fjallað var um byggingu járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og álver Norðuráls hf. Hart var gengið fram í andstöðu við þessi tvö fyrirtæki á Vesturlandi, en andstaðan virðist vera enn óvægnari við þessi áform á Austurlandi. Virðist sem byggða- og atvinnumál séu ekki sú tískulína sem áhugavert sé að safna undirskriftum fyrir. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá er rétt að huga nokkuð að þeirri þróun sem átt hefur sér stað við Hvalfjörðinn þegar atvinnumál og byggðaþróun á Austurlandi er skoðuð.``

Herra forseti. Síðar í greininni segir Gísli Gíslason, með leyfi forseta:

,,Ekki lái ég Austfirðingum að horfa vongóðir til þess að bygging álvers á Reyðarfirði og nauðsynlegar undirbúningsframkvæmdir muni hleypa miklum krafti í allt athafnalíf. Það er sú reynsla sem ólygin er af Vesturlandi. Á árunum frá 1952 til 1959 fjölgaði íbúum á Akranesi um 1.000 manns og má rekja stóran hluta þeirrar fjölgunar til framkvæmda við sementsverksmiðjuna og þeirra umsvifa sem verksmiðjan skapaði hjá fyrirtækjum sem hafa um langan aldur þjónað verksmiðjunni. Þegar hafist var handa um undirbúning og framkvæmdir við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga hljóp mikið líf í flutninga til Akraness og á árunum frá 1973 til 1980 fjölgaði Skagamönnum um tæplega 800 manns. Eftir samdráttartíma og fækkun íbúa á Akranesi hefur þróunin snúist við, m.a. í kjölfar framkvæmda við álver Norðuráls hf. og Hvalfjarðargöng og er nú útlit fyrir að um næstu áramót hafi frá árinu 1996 fjölgað á Akranesi um rúmlega 200 manns og forsendur eru fyrir því að sú ánægjulega þróun haldi áfram.``

Herra forseti. Að lokum vil ég lesa lokaorðin í þessari ágætu grein bæjarstjórans á Akranesi, með leyfi forseta:

,,Engin af þeim hrakspám sem settar voru fram varðandi járnblendiverksmiðjuna og álverið á Grundartanga hafa ræst. Vonandi munu Austfirðingar njóta þess í sinni umræðu hvernig til hefur tekist við Hvalfjörðinn þannig að hagsmunir þeirra verði metnir á grundvelli röksemda og staðreynda en ekki þeirrar tísku í umhverfismálum sem við þekkjum erlendis frá og viljum varast.``

Þetta voru lokaorð greinar Gísla Gíslasonar, bæjarstjóra á Akranesi. Ég vona að hv. þingmenn taki tillit til þeirra sem tala af reynslu og viti um þetta mál.

Herra forseti. Það mun koma í ljós við lokaafgreiðslu þessa máls hverjir hv. þm. meta atvinnu- og byggðarökin ofar þrengstu umhverfissjónarmiðum. Það verður prófsteinn á það hvaða hv. þm. treysta sér til að vera trúverðugir í þeirri baráttu sem fram undan er til að sigrast á þeim þjóðarvanda sem hin óheillavænlega byggðaröskun er.

Herra forseti. Þeir hv. þm. sem greiða atkvæði gegn þeirri þáltill. sem hér er til umræðu hafa að mínu mati dæmt sig úr leik í þeirri baráttu.