Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 17:02:31 (3559)

1999-12-20 17:02:31# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[17:02]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns auglýsa eftir hæstv. iðnrh. Finni Ingólfssyni.

(Forseti (ÁSJ): Ég mun láta athuga það.)

Reyndar hefði ég kosið að fleiri ráðherrar ríkisstjórnarinnar hefðu verið til staðar við þessa umræðu. (Iðnrh.: Ég get gegnt fyrir hana.) Hæstv. iðnrh. sem er ekki hógværasti maður ofan jarðar segist gegna fyrir ríkisstjórnina alla (Gripið fram í: Í þessu máli.) í þessu máli. Reyndar held ég að þetta mál sé þannig vaxið að þetta komi ekki neinum einum ráðherra við. Þetta kemur ríkisstjórninni allri við, öllum ráðherrum og þjóðinni allri.

Við erum að fjalla um till. til þál. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Reyndar kemur fram í þáltill. að hún er víðfeðmari en þessi fyrirsögn gefur til kynna vegna þess að í tillögunni er vísað til grg. þar sem fram kemur að um er að ræða fleiri virkjanir og fleiri mannvirki en Fljótsdalsvirkjun eina.

Þessi umræða hefur spannað allvítt svið. Hún hefur verið frá sjónarhorni umhverfis- og náttúruverndar, hún hefur verið frá sjónarhóli byggðamála, atvinnumála og efnahagsmála almennt. Ég ætla, herra forseti, að gera hlé á máli mínu þar til þögn er í þessum sal.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill biðja hv. þm. að hafa þögn í salnum.)

Ég sagði, herra forseti, að þessi umræða hefði farið fram og málin skoðuð frá mörgum sjónarhólum, t.d. náttúruverndar, byggðamála, efnahagsmála, frá sjónarhóli arðseminnar í þröngum og víðum skilningi. Mest hefur borið á náttúruverndar- og umhverfisrökum, enda ekki að undra. Það á að eyðileggja, fórna fallegum náttúruperlum þessa lands og það sem meira er, þau verk sem þar verða unnin verða ekki aftur tekin. Mikið er því í húfi. Um það deilir enginn maður. Það deilir enginn maður um að eftirsjá er að þeim náttúruperlum sem á að fórna. En svo miklir hagsmunir eru í húfi, segir ríkisstjórnin og þar með hæstv. iðnrh., að þau sjónarmið verði að víkja og það er meira að segja tilvinnandi að brjóta alþjóðlega samninga sem við höfum gert og skuldbindingar eru látnar víkja til hliðar fyrir þessum miklu hagsmunum. Og hverjir eru þeir? Það er byggðastefna, atvinnuuppbygging og það eru þjóðhagslegir hagsmunir þegar heildstætt er á málin litið.

Hæstv. iðnrh. sem ég gat um áðan að væri ekki hógværasti maður ofan jarðar segir í fréttaviðtali fyrir nokkrum dögum undir fyrirsögninni ,,Hafa hæst sem minnst vita`` og vísar í þá sem hafa gagnrýnt þessa ráðagerð að hér hafi mikið breyst til batnaðar á undanförnum árum, frá því um miðjan þennan áratug. Hann segir að mikið atvinnuleysi hafi verið um miðjan áratuginn 1995. Síðan þegar aukin stóriðja kom til sögunnar hafi hagur þjóðarinnar vænkast og hann segist vera þess fullviss að þær virkjanir sem við erum að fara að ráðast í núna og bygging málmbræðslu í Reyðarfirði sé framfara- og happaspor fyrir þjóðina. Hann gengur reyndar lengra og segir að það deili enginn um þjóðhagslegan ávinning af þessum framkvæmdum. Reyndar telur hæstv. iðnrh. og viðskrh. að ávinningur sé að þessu máli hvernig sem á það er litið. Þannig talar hann um 5--6% arðsemi hjá Landsvirkjun af þessari framkvæmd, og þegar á þjóðarhag er litið, þegar heildstætt er litið á málin, þá deili enginn um að þetta sé til góðs.

En hann gekk lengra og hann gengur lengra. Í ræðu hér sl. laugardag sagði hæstv. iðnrh. að svo mikill væri ávinningurinn af þessu að unnt væri að lækka orkuverð til landsmanna, til almennings, um 20--30% á næsta áratug. Þetta sagði hæstv. ráðherra orðrétt. (Iðnrh.: Það er stefna Landsvirkjunar að gera það.) Stefna Landsvirkjunar? Hér var það hæstv. iðnrh. sem talaði til þjóðarinnar á Alþingi. (Iðnrh.: Í hennar umboði.) Og sagði: ,,Það er unnt að lækka orkuverð til landsmanna um 20--30% á fyrsta áratug næstu aldar.`` Ég skráði þetta niður og setti innan gæsalappa. Þetta voru orð hæstv. iðnrh. sem vísaði til þess ávinnings sem yrði af virkjunarframkvæmdum í Fljótsdal. Og hvað erum við þá að tala um? Hvað erum við að tala um ef við ætlum að lækka orkuverð til landsmanna, almennings, um 20--30%? Hvað skyldi þetta þýða? Hvað skyldi þetta þýða fyrir Reykvíkinga? Fyrir Reykvíkinga þýðir þetta 420 millj. á ári. Fyrir landsmenn alla hálfan annan milljarð og nú fer maður að skilja þegar menn segja, hinir smærri hagsmunir, náttúruperlurnar, verða að víkja fyrir hinum stóru, hinum þjóðhagslega ávinningi og hæstv. iðnrh. er byrjaður að telja upp og hann segir:

Í fyrsta lagi munum við fyrir vikið geta lækkað orkuverð til almennings um hálfan annan milljarð á ári og þetta mun gerast á næsta áratug vegna þessara framkvæmda.

En víkjum aðeins að þeirri staðhæfingu hæstv. ráðherra að enginn deili um ávinninginn af þessum framkvæmdum. Skyldi það nú vera alveg rétt? Eða hefur hæstv. ráðherra ekki lesið greinar og greinargerðir hagfræðinga á borð við Sigurð Jóhannesson, Jóhann Rúnar Björgvinsson, Þorstein Siglaugsson og fleiri? (Gripið fram í.) Og Guðmund Ólafsson. Það skyldi þó aldrei vera að þeir einir sem starfa á vegum hæstv. iðnrh. eða tengjast ráðuneyti hans verji þessa ráðagjörð. Það skyldi þó aldrei vera að þeir séu á einhvern hátt tengdir Landsvirkjun eða iðnrn. Það skyldi þó aldrei vera, en að aðrir setji fram gagnrýni.

Birst hafa margar greinar, sagði síðasti ræðumaður, um þetta mál og það er rétt. Þar á meðal birtist grein eftir tvo starfsmenn Landsvirkjunar rétt fyrir helgina í Morgunblaðinu, Kristján Gunnarsson og Stefán Pétursson. Þeir voru að ræða um þjóðarhaginn sem hæstv. iðnrh. segir engan mann deila um. Í þessari grein segja þeir, með leyfi forseta:

,,Nokkuð hefur borið á því í umræðunni að undanförnu að Landsvirkjun leggi þjóðhagsleg áhrif til grundvallar þegar kemur að samningum um stóriðju. Jákvæð þjóðhagsleg áhrif eru að sönnu mikilvæg en þau hafa engin áhrif á ákvarðanatöku fyrirtækisins um að ráðast í framkvæmdir.``

Við erum ekki að hugsa um þjóðarhag, segir Landsvirkjun og talsmenn hennar, við erum að hugsa um arðsemina fyrir Landsvirkjun og undir þetta tekur hæstv. iðnrh. í greininni í DV sem ég vísaði til áðan. Hann segir: Arðsemin af þessari framkvæmd fyrir Landsvirkjun verður á bilinu 5--6%, og þetta ítrekaði hæstv. ráðherra í ræðu sinni á laugardag. (Iðnrh.: Verður að vera.) Verður að vera 5--6%. Hæstv. iðnrh. kallaði hér fram í og sagði: Arðsemin verður að vera 5--6%, til þess væntanlega að farið verði í þessar framkvæmdir. (Iðnrh.: Það mundi lækka orkuverðið.) Til þess að farið verði í þessar framkvæmdir væntanlega. Við skulum þá hyggja að þessum stærðum í málinu og hverjar eru stærðirnar sem við verðum að skoða? Í fyrsta lagi: Hvað kemur virkjunin til með að kosta? Hvað kostar virkjunin? Þegar við ræddum þetta mál við fyrri umræðu þá vorum við að tala um 30 milljarða, er það ekki rétt? (Gripið fram í: Jú.) Það er rétt. Í seinni tíð hafa menn viljað lækka þessa tölu og þar með talin er Landsvirkjun. Þegar útreikningarnir fóru á verða henni mótdrægir, þá var þessi tala lækkuð niður í 25 milljarða kr. Við skulum halda okkur við þá stærð. Við skulum halda okkur við þá stærð sem Landsvirkjun sjálf vill ræða, 25 milljarða kr.

Hvað framleiðir þessi virkjun mikið? Fyrst þegar farið var að ræða þessi mál var talað um 1.250 gwst. og hagfræðingarnir reiknuðu. Landsvirkjun, iðnrn. og hæstv. iðnrh. óttuðust að tölurnar yrðu þeim mótdrægar. Þá var hækkað. Þá var framleiðslugetan hækkuð í 1.390 gwst. Höldum okkur við þá stærð sem Landsvirkjun og hæstv. iðnrh. komu með. 1.390 gwst. og við skulum reikna með því að þessi orka skili sér algerlega til fyrirtækisins. Ég hef spurst fyrir um það hve mikið af orkunni megi reikna með að skili sér og sérfræðingar segja að reikna megi með því að á bilinu 5--7% tapist á leiðinni.

[17:15]

Við skulum segja að það sé heldur minna, að orkan skili sér betur. Við skulum gefa okkur að 96% af þessari orku skili sér til málmbræðslunnar. Þá erum við að tala 1.335 gwst. sem skila sér til málmbræðslunnar. Þá erum við komin með tvær stærðir. Við erum komin með framkvæmd sem kostar 25 milljarða, við erum komin með orku sem mæld er í 1.335 gwst. sem skilar sér inn í fyrirtækið. Hvað kostar þessi orka?

Eigum við að halda okkur í þeirri tölu sem er hagstæðust núna í orkusölu til stóriðju á Íslandi? Hver skyldi hún vera? Hún er 14 mill. Hún er ein króna á kwst. Við þurfum ekkert að fara niður í orkuverðið frá 1998 þegar hún var 88 aurar. Við skulum halda okkur í meðaltalinu eins og það hefur verið undanfarin ár og tala um 14 mill, krónu á kwst., höldum okkur við það. Við skulum ekki gleyma því að í þáltill. talar ríkisstjórnin um markaðsverð í heiminum þegar hún er að tala um orkuverð. Hvernig skyldi markaðsverð í heiminum vera?

Í Morgunblaðinu nú fyrir helgina kom fram frétt um að áliðnaðurinn í Ástralíu væri að flytja úr því landi. Bæði fögnuðu stjórnvöld því vegna þess að þau sögðu að fyrir vikið mundi draga úr losun koltvísýrings um 5--6% og af þessu væri mikill hagnaður, en þetta var ekki meginástæðan. Meginástæðan var sú að álfyrirtæki voru að leita í lægra orkuverð. Orkuverðið í Ástralíu er núna innan við 10 mill. Þessi álfyrirtæki eru að leita til landa sem bjóða enn betur, enn lægra verð, Mósambík, Malasía og Kína, langt innan við 10 mill.

En ég segi: Höldum okkur í háu verði, höldum okkur í 14 mill, höldum okkur í einni krónu á kwst. Við erum búin að fá það út að 1.335 gwst. fara til fyrirtækisins, það eru 1.335 millj. kwst. og við fáum eina krónu fyrir kwst. Þá fáum við inn 1.335 millj. kr. Nú erum við komin með enn eina stærðina, 25 milljarða fyrirtæki, og við fáum fyrir það 1.335 millj. kr. á ári.

Nú má deila um orkuverðið og þeir leyfa sér það spekingar Landsvirkjunar. Þeir segja að það komi til greina að hafa lægra verð fyrst í stað og ég ætla að vitna í þessa grein, með leyfi forseta:

,,Það má líkja þessu við leigusala sem leigir viðskipta- eða hagfræðistúdent húsnæði í langtímaleigu. Hann getur verið tilbúinn til þess að lækka leiguna tímabundið ef hann hefur tryggingu fyrir hærri leigugreiðslum á síðari stigum er greiðsluhæfi leigjandans hefur hækkað til muna.``

Ég spyr nú: Hvað gerist þegar hagfræðistúdentinn hættir námi, og hann kemst í eitthvað feitara, lægra orkuverð? (Gripið fram í: Þá flytur hann út.) Þá flytur hann út. Þá fer hann eitthvað annað.

Höldum okkur við þessar stærðir, og ef þær eru rangar þá þarf að gera grein fyrir því í þessum ræðustól. Hvað er þetta mikil upphæð og mikið hlutfall af brúttófjárfestingunni, þær 1.335 millj. sem við erum að fá inn? 6%. Það eru um 6% sem við erum að fá þannig inn.

En eitthvað kostar þetta, þetta er ekki hreinn gróði. Við verðum að reikna með afskriftum í fyrsta lagi og við verðum að reikna með viðhaldskostnaði og við verðum að reikna með rekstrarkostnaði. Hér hafa menn líka verið að deila um stærðirnar. Þó eru þær deilur ekki mjög djúptækar. Sigurður Jóhannesson hagfræðingur, sem reiknaði með 11--13 milljarða tapi á virkjuninni í Fljótsdal, reiknaði með 45 ára afskriftatíma. Þegar rætt var um Keilisnes fyrir tíu árum reiknaði Þjóðhagsstofnun með 40 ára afskriftatíma. Þegar Búrfellsvirkjun var til umræðu á sínum tíma var reiknað með 50 árum. Nú skulum við bara líta á þær tölur sem Landsvirkjun sjálf notar, hvað segir hún?

Hún segir að eðlilegt sé að reikna með afskriftum á mannvirkjunum, steyptum mannvirkjum á 60 árum, það eru 75% af virkjuninni, af brúttófjárfestingunni. En með vélabúnaðinum á 30 árum, það eru 25%. Hvað er vegið meðaltal af þessu? Það eru 45 ár sem við höfum þar. Hvað er það mikið? Það er 2,2% á ári. Þá erum við komin með í afskriftir 2,2% af brúttófjárfestingunni í afskriftir á ári.

Hvað með viðhald og rekstur? Eigum við að byggja á ársskýrslu Landsvirkjunar og nota hálft annað prósent, 1,5% í rekstur og viðhald, eigum við að gera það? Það væri að vissu leyti mjög raunsætt vegna þess að þetta er búið að vera svona um árabil og hefur ekki farið lækkandi þrátt fyrir aukna umsetningu. Eða eigum við að vera íhaldssamari og láta Landsvirkjun og hæstv. iðnrh. og ráðgjafa hans njóta vafans og hafa lægri kostnað? Við skulum gera það. Við skulum fara alla leið niður í 0,8%. Við skulum fara niður í 0,8%.

Hvað erum við komin þá með í afskriftir og rekstrarkostnað? Það eru 3%. Það eru 3% sem við erum komin með þar. Þá drögum við 3% frá í afskriftir og rekstur og viðhald --- hvað erum við þá með eftir? Þá erum við eftir með 668 milljónir. Árleg innkoma var 1.335 millj., og við drögum núna þessi 3% frá, 668 millj., og hvað stöndum við þá með eftir? Við stöndum eftir með 667 millj. kr.

Þar með er ekki öll sagan sögð. Lítum nú á skilyrði Landsvirkjunar og ekki bara Landsvirkjunar heldur hæstv. iðnrh. Finns Ingólfssonar sem hann staðfesti áðan í frammíkalli um að krefjast ávöxtunar, arðsemi upp á 5--6%. Er það há ávöxtun? Er það mikil ávöxtun? Ekki finnst þeim það hjá Alþjóðabankanum. Þeir setja lágmark 7% arðsemi skilyrði fyrir lánveitingum. Ég er ekki í aðdáendaklúbbi Alþjóðabankans eða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en þetta eru þau skilyrði sem sú stofnun setur fyrir lánveitingum. Hvað skyldu menn vilja á markaði þegar um áhættufjárfestingu er að ræða? Þetta er áhættufjárfesting, vegna þess að við erum að tala um virkjun sem á að lána til eins fyrirtækis. Þetta er ekki til almennings. Þetta er dæmalaust í sögunni. Það er verið að reisa virkjun sem á að veita orku til eins fyrirtækis, þetta er áhættufjárfesting. Hver skyldi vera arðsemiskrafan í áhættufjárfestingum? Hún er á bilinu 12--20%.

Ef við höldum okkur samt við þessar lágu arðsemiskröfur, þessar lágu arðsemiskröfur hæstv. iðnrh. og höldum okkur við þær tölur sem Landsvirkjun sjálf reiðir fram. Hún segir að hún vilji fá 5,5% ávöxtun á eigið fé, hvað eru það þá miklir peningar? Við byggjum á skýrslum og þeim gögnum sem liggja frá Landsvirkjun um eigið fé sem er 30% og þar af leiðandi lánsfé 70%, og við byggjum á þeirra skilyrðum sem þeir setja sér sjálfir og hæstv. iðnrh. staðfestir, 5,5% ávöxtun af eigin fé. Þá erum við að tala um 413 millj. kr. Þeir vilja fá 5,2% af lánsfénu, það eru 910 millj. kr. --- sem við eigum ekkert í og Landsvirkjun á ekkert í en verður að ná inn til að fullnægja þessum skilyrðum sem hún sjálf og stjórnvöld eru að setja.

Hvað gerir þetta samtals? Þetta gerir samtals 1.323 millj. kr. En eins og kom fram áðan áttum við bara eftir 667 milljónir þegar við vorum búin að draga frá afskriftirnar og viðhalds- og rekstrarkostnað. En hér kemur fram að við þurfum 1.323 millj. kr. til þess að fullnægja þeim skilyrðum sem Landsvirkjun og hæstv. iðnrh. og ríkisstjórn setja sjálf um arðsemi. Ef við nú drögum frá þá upphæð sem við áttum eftir, 667 milljónir, frá þeirri upphæð sem við þurfum á að halda, 1.323 milljónum, standa eftir 656 milljónir, þetta er hallinn. Þetta er hallinn á hverju ári.

Þetta þýðir með öðrum orðum, miðað við hátt orkuverð eins og það gerðist til álvera í heiminum og mjög lága ávöxtunarkröfu, þýðir þetta tap upp á 656 millj. kr. á ári.

En hvað um verðgildi Eyjabakkanna? Ég er ekki byrjaður að ræða um það. Hvað um verðgildi Eyjabakkanna, eru þeir kannski einskis virði? Ég er ekki með það inni í þessum útreikningum. Hvað með 213 þús. tonn af koltvísýringi sem álverksmiðja af þessari stærðargráðu pumpar út í andrúmsloftið, hvað kostar þetta? Þar hafa menn verið að tala um 1.000 kr. á tonnið. Hvað þýðir þetta þá í krónum talið ef við fengjum leyfi fyrir þessum kvóta? Við erum að tala þar um rúmar 200 millj. kr.

[17:30]

Í þessu dæmi hef ég ekki tekið með í reikninginn að Fljótsdalsvirkjun þarf að skila meira, þ.e. álverksmiðjan þarf á meiri orku að halda en Fljótsdalsvirkjun ein annar. Þar nægja engar 1.335 gígavattstundir. Það þarf 1.700 gígavattstundir sem er 27% meiri orka. Þar af leiðandi þarf að uppreikna tapið hlutfallslega sem verður samkvæmt þessu 854 millj. kr. Þá reikna ég ekki með mengunarkostnaði sem mundi færa þessa tölu yfir einn milljarð. Við skulum reikna með því að mengunarkostnaðurinn lendi á álverinu eins og stundum hefur verið rætt, á lífeyrissjóðunum sem hæstv. iðn.- og viðskrh. vill binda í þessari framleiðslu. Ef við reiknum hann hins vegar inn í kostnað af virkjuninni þá erum við að tala um einn milljarð á ári hverju.

Í umræðunni fyrr í dag sté í ræðustól hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. Hann sagði í andsvari við þingmann sem hér hafði rætt þessi mál að ekki væri hægt að tala um arðsemi af þessari framkvæmd. Það væri ekki hægt á þessari stundu. Það hefur hæstv. viðskrh. engu að síður gert. Hann hefur talað um lágmarksarðsemiskröfu upp á 5--6%. En til þess að ná því marki þá vildi ég fá það staðfest hjá hæstv. ráðherra hvort það sé ekki rétt hjá mér að til að ná því marki þyrfti orkuverðið ekki að vera ein króna á kwst. heldur 1,50 kr. eða 20 mill. Ef þetta er rangt hjá mér þá krefst ég þess að sýnt verði fram á það. Ef ekki er hægt að hrekja þetta þá játa menn á sig fúsk sem er ekki hægt að bjóða Alþingi Íslendinga og ekki hægt að bjóða íslensku þjóðinni. Það hlýtur að vera krafa okkar að fá fram rök sem hrekja það sem hér er sagt.

Samkvæmt samþykkt sem gerð var sl. sumar, eins og rifjað var upp af þingmönnum hér fyrr við umræðuna, hv. þm. Þuríði Backman og Kolbrúnu Halldórsdóttur, áttu samningur um rafmagnsverð og heimildir til þessara framkvæmda að liggja fyrir, þessar upplýsingar ættu að liggja fyrir fyrir 31. des. 1999. Þá áttu þessar upplýsingar að liggja fyrir. Nú spyr ég: Eru ekki einhver rök fyrir því að við frestum afgreiðslu þessa máls þar til gengið hefur verið frá þessum samningum? Getum við ráðist í að eyðileggja þessa náttúruperlu, smærri hagsmunina sem eiga að víkja fyrir hinum stærri, fyrr en við vitum hverjir þeir eru? Er þetta ekki lágmarkskrafa fyrir hönd náttúrunnar, hinna smærri hagsmunum sem menn leyfa sér að kalla svo og eiga að víkja fyrir hinum stærri, þegar í ljós kemur að öll þessi spilaborg er bara spilaborg, að þessar röksemdir eru reistar á sandi? Það stendur ekki steinn yfir steini. Menn leyfa sér að koma fram í fjölmiðlum og segja að um þetta standi engar deilur. Þegar menn fara að skoða málin kemur í ljós að aðeins þeir sem eru tengdir ríkisstjórninni og sérstaklega iðnrn. verja þessa gjörð á efnahagslegum forsendum. Það eru þeir einir.

Ég hefði að vissu leyti virt það ef menn hefðu sagt opinskátt: Við teljum þjóðhagslegan ávinning af því að niðurgreiða orkuverð til stóriðju svo mikinn að við erum reiðubúin að ráðast í þessa framkvæmd, hin þjóðhagslegu rök mæla með því. Ég hefði viðurkennt það sem rökvísi. Svo hefði mátt deila um hvort það væri rétt eða rangt. En við stöndum ekki frammi fyrir þessu. Menn bera það á borð að Landsvirkjun eigi að bera arð af þessum framkvæmdum.

Nú spyr ég hæstv. iðnrh. og bíð spenntur eftir því að heyra hans rök hér á eftir. (Iðnrh.: Ég þarf að fara fljótlega.) Ég skal ekki vera lengi í stólnum, því mig þyrstir í þessar samræður. (Gripið fram í.) Já, við þurfum að fá þessi rök fram á sjónarsviðið. Spurningarnar eru komnar fram. Margar spurningar hafa komið fram. (Gripið fram í.) Já, gott. Nú bíð ég eftir að heyra þær röksemdir.

Í seinni ræðu minni mun ég fjalla um aðra þætti þessa máls sem lúta að 480 þús. tonna álveri og 300 milljarða innspýtingu í hagkerfið sem við erum vöruð við að sé að ofhitna með 5,6% verðbólgu á liðnum tólf mánuðum og þjóðhagsspá upp á 4,5%. Nú er Þjóðhagsstofnun eitthvað að draga í land. Þjóðhagsstofnun er að draga í land, enda tengist hún ríkisstjórninni, og leyfir sér náttúrlega að amast út í láglaunafólkið sem krefst hækkunar á lúsarlaunum. Það veldur ofhitnun og kemur til með að gera í málflutningi þessara aðila á næstu vikum og mánuðum. Ég efast ekkert um það. En núna, vegna þess að ríkisstjórnin þarf að koma þessu í gegn þá verður dregið aðeins í land í þessum efnum, ég spái því.

En mér leikur forvitni á að vita: Ef það er rétt niðurstaða hjá mér að um sé að ræða verulegar niðurgreiðslur á orkuverði til stóriðju sem nemur allt að einum milljarði kr. á ári, hvaða augum líta áhugamenn um alþjóðavæðingu fjármagnsins, um GATT og EES, á framtíð niðurgreiðslna af þessu tagi? (Gripið fram í: Er það ekki lögbrot?) Kemur ekki til með að verða litið á það sem svo? Ég bara spyr. Ég er ekki að gera þetta að meginmáli, alls ekki. Ég er aðallega að tala um íslenskan þjóðarhag. En það væri fróðlegt að heyra vangaveltur hæstv. iðnrh. að þessu leyti.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt að þessu sinni. Ég mun hlýða vandlega á það sem frá hæstv. iðnrh. kemur. Þessari umræðu er ekki lokið. Henni verður fram haldið og hún mun halda áfram í kvöld væntanlega og á morgun, kannski hinn, ég veit það ekki. Hins vegar hefði ég kosið að þessi umræða yrði stytt og ákvörðun tekin um að setja þetta mál út af borðinu þar til niðurstaða fæst í samningum um orkuverð. Þannig gætum við raunverulega vitað hvað menn eiga við með því að minni hagsmunir eigi að víkja fyrir meiri hagsmunum. Er ekki grundvallaratriði að vita hverjir þessir meiri hagsmunir eru?