Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 17:43:41 (3562)

1999-12-20 17:43:41# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[17:43]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Alþingi er núna að skapa forsendur fyrir því að fara út í virkjun. Síðan er það Landsvirkjunar að taka ákvörðun um hvort farið verði í að virkja. Það er þeirra sem fjárfesta í álverinu að taka ákvörðun um hvort þeir fari út í þá framkvæmd.

Mér finnst hv. þm. hafa verið að lýsa hér veikleikum opinbers rekstrar yfirleitt. Þar ber enginn ábyrgð. Ef Landsvirkjun væri einkafyrirtæki þá væru menn að hætta sínu eigin fé. (Gripið fram í: Rétt.) Rétt. Hv. þm. er að lýsa veikleikum opinbers rekstrar. Það á ekki bara við þarna, það á við alls staðar. Í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og alls staðar veður þessi veikleiki uppi. Þetta er bara gallinn á opinberum rekstri, herra forseti.

Varðandi þátt lífeyrissjóðanna í þessu. Þeir taka ákvörðun um að fjárfesta í þessu álveri. Hv. þm. hefur lýst því yfir í ræðu sinni að það séu milljarða mistök. Hann lýsir því hvernig lífeyrissjóðir, kollegar hans, muni fara út í milljarða mistök. Mér finnst athyglisvert þegar hv. þm. heldur þessu fram. Hann lýsir vantrausti á stjórnir allra lífeyrissjóða. Og ég spurði hv. þm. hvort hann treysti ekki kollegum sínum, því hann er sjálfur í stjórn lífeyrissjóðs, til að taka slíkar ákvarðanir.