Fundur í iðnn. með skipulagsstjóra ríkisins

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 20:00:31 (3570)

1999-12-20 20:00:31# 125. lþ. 50.93 fundur 244#B fundur í iðnn. með skipulagsstjóra ríkisins# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[20:00]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega þakka fyrir að orðið var við ósk fulltrúa stjórnarandstöðnnar í iðnn. af hálfu forseta þingsins og reyndar formanns iðnn. að haldinn var fundur klukkan sex í iðnn. um ágreiningsmál sem hér hefur verið rætt aftur og aftur frá því við byrjuðum þessa umræðu á laugardaginn. Það var vegna ásakana og orða sem féllu úr ræðustól á hendur skipulagsstjóra ríkisins. Þess vegna var mikilvægt að iðnn. kæmi saman, ræddi málin og ætti orðastað við skipulagsstjóra eftir að hann hafði skilað greinargerð til þingsins sem þingmenn í iðnn. hafa fengið og þeir sem áhuga hafa á málinu hafa getað kynnt sér.

Herra forseti. Þetta var afar mikilvægur fundur, góður og gagnlegur og það var sannfæring mín að honum loknum að öll mál hefðu verið skýrð og við gætum sameinast um afstöðu til að ljúka þeim þætti hvað skipulagsstjóra ríkisins og embætti hans varðaði. Það var von okkar í stjórnarandstöðu að skipulagsstjóri hefði varpað svo góðu ljósi á vinnuferli og ábyrgð skipulagsstjóraembættisins að við gætum sameinast um bókun. Tillaga okkar var að bóka að iðnn. hafi fundað með skipulagsstjóra ríkisins, hann hafi skýrt vinnuferli stofnunarinnar við úrskurð vegna frummatsskýrslu og að iðnn. væri sannfærð um að stofnunin hefði ekki af ásetningi leynt nefndina neinum gögnum. Við vorum ekki upptekin af orðalagi en iðnn. var sameiginlega sannfærð um að skipulagstjóri ríkisins hefði ekki af ásetningi leynt nefndina neinum gögnum. Ég minni á að skipulagsstjóra ríkisins hefur verið legið á hálsi fyrir það að niðurlagsorð í einu af þremur bréfum Hollustuverndar ríkisins, sem hafa fylgt greinargerð hans, hafi ekki verið birt í skýrslu hans um umhverfismat. Við þessu var ekki orðið vegna þess að meiri hlutinn er mjög upptekinn af því að halda því áfram fram að skipulagsstjóri hafi leynt nefndina upplýsingum. Á það getum við í stjórnarandstöðunni alls ekki fallist.

Þetta vil ég að komi fram úr þessum ræðustóli, herra forseti.