Fundur í iðnn. með skipulagsstjóra ríkisins

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 20:07:39 (3574)

1999-12-20 20:07:39# 125. lþ. 50.93 fundur 244#B fundur í iðnn. með skipulagsstjóra ríkisins# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[20:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í upphafi fundar urðu umræður um þær alvarlegu ásakanir sem féllu á fundi á laugardag og þá var rætt um störf þingsins með eðlilegum hætti og það varðaði framhald þeirrar umræðu sem síðan hefur farið fram í dag. Það voru uppi óskir um að henni yrði frestað en síðan þróuðust mál á þann veg sem menn létu gott heita að menn beittu sér fyrir því að fundur yrði haldinn í iðnn. og m.a. var bréfað til forseta út af því máli í dag, sem ég geri ráð fyrir að hæstv. forseta sé kunnugt. Ég tel það því fullkomlega eðlilegt að menn skýri frá niðurstöðu þess fundahalds og það varðar tilhögun þessa fundar og framhaldið hér í ljósi þess að það er búið að vera hér á dagskrá og hefur borið á góma áður.

Ég tel þar af leiðandi, herra forseti, að það sé ekki tilefni til að kvarta undan því að hér sé gerð grein fyrir þeirri stöðu málsins áður en umræðan heldur frekar áfram, auk þess sem það er auðvitað forseta að úrskurða um slíkt og sjá um að menn haldi sig við dagskrárefnin en ekki sjálfskipaðra siðameistara í umræðum, eins og hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem notaði síðan ræðutíma sinn, sem hann ásakaði aðra fyrir að hafa misnotað, til að ráðast mjög ómálefnalega að öðrum í fullkomlega efnislegri umræðu um málið.

Ég held hins vegar, herra forseti, með vísan til þeirra raka sem ég hef flutt að það sé fullkomlega eðlilegt að menn geri grein fyrir lyktum mála í iðnn. með þeim hætti sem hér var gert af hv. þingmönnum Rannveigu Guðmundsdóttur og Árna Steinari Jóhannssyni.

(Forseti (GuðjG): Forseti er ósammála því að lyktir mála í iðnn. hafi eitthvað með fundarstjórn forseta að gera og minnir á að forseti Alþingis varð við því í dag að fresta fundi Alþingis klukkan sex svo að nefndin gæti komið saman. Forseti telur að menn geti rætt það sem gerðist í iðnn. í umræðunum í kvöld og í nótt en þetta snýr ekki að fundarstjórn forseta.)