Fundur í iðnn. með skipulagsstjóra ríkisins

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 20:09:48 (3575)

1999-12-20 20:09:48# 125. lþ. 50.93 fundur 244#B fundur í iðnn. með skipulagsstjóra ríkisins# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[20:09]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því að hér hefur verið rekinn endahnútur á mál sem var upp tekið í gær í kjölfar þess að skipulagsstjóri ríkisins var borinn þungum og að mínum dómi ómaklegum sökum. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson tók málið upp á Alþingi og sjálfur tók ég það upp í morgun og óskaði eftir því að fundur yrði haldinn í iðnn. Alþingis og málið upplýst.

Hæstv. umhvrh. gaf mjög mikilvæga yfirlýsingu um málið í morgun og lýsti trausti á skipulagsstjóra ríkisins, sagði sérstaklega að ekki væri ástæða til að efast á nokkurn hátt um trúverðugleika hans. Nú hefur þetta mál verið tekið til umfjöllunar í iðnn. þingsins. Ég vil þakka formanni iðnn., hv. þm. Hjálmari Árnasyni, fyrir að hafa boðað til fundar og tekið málið til umfjöllunar. Hann er maður að meiri fyrir vikið að mínum dómi og ég vil lýsa ánægju minni yfir þessum málalyktum.