Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 22:08:49 (3585)

1999-12-20 22:08:49# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[22:08]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir)(andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt sem kemur fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það er ekki að finna, a.m.k. fann ég það ekki í skýrslu Landsvirkjunar, hvaða hlutfall þetta væri af stofnkostnaði sem færi til mótvægisaðgerða.

Hins vegar kemur mjög skýrt fram í áliti 2. minni hluta umhvn. að það hafi komið fram í umræðum í þeirri nefnd að þar hafi Landsvirkjun komið skilaboðum skilmerkilega á framfæri að þeir noti venjulega ákveðið hlutfall til þessara mótvægisaðgerða. Ég leitaði sérstaklega eftir ítarlegri upplýsingum hjá Landsvirkjun af því að sömu spurningar vöknuðu hjá mér og hjá hv. þm. Svar þeirra sem ég fékk --- nú tek ég fram að það var einungis í síma sem ég leitaði eftir þessum upplýsingum --- en hið almenna svar eða hin almenna prósenta sem Landsvirkjun hefur notað til mótvægisaðgerða hjá sér þegar þeir fara út í mannvirkjagerð er í kringum 1--2%. Ef maður heimfærir það upp á þessa virkjun hugsa ég að það hlaupi á 200--300 millj. kr.