Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 22:17:06 (3590)

1999-12-20 22:17:06# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[22:17]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar gæsku Landsvirkjunar við gróður þessa lands og landsmenn þá held ég nú að hv. þm. Kristján Pálsson ætti að kynna sér t.d. viðhorf bænda í Þingvallasveit til þessa fyrirtækis. Ég er ekki viss um að hann kæmist að sömu niðurstöðu eftir þá rannsóknarför.

Varðandi deilur okkar um það hvert Ágúst H. Bjarnason fór eða fór ekki þá kann auðvitað að vera að viðkomandi vísindamaður hafi skipt um skoðun frá 4. des. til 9. des. á því hvað nákvæmlega teljist vera Eyjabakkar. Ég skal ekkert um það segja. Mér virðist á því sem hv. þm. les hér upp að Ágúst H. Bjarnason segist hafa farið um svæði sem ég í svona fljótu bragði segði 15--20% af Eyjabökkum.

Það skiptir hins vegar engu máli. Ekkert úr þessu ferðalagi grasafræðingsins birtist í greinargerð hans. Þar er ekki orð um þessa gönguferð hans. Að öðru leyti vil ég minna á að ég hef undir höndum bréf frá þessum vísindamanni þar sem hann tjáir mér þetta sjálfur. Ég get vel fallist á að hann hafi farið um þetta svæði sem hv. þm. nefnir hér. Það bara skiptir engu máli, það eru engar niðurstöður úr því ferðalagi í skýrslu hans.