Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 23:53:35 (3592)

1999-12-20 23:53:35# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[23:53]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Sú tillaga sem við erum að fjalla um er pólitískur leikur Framsfl. Hún er tilraun til að stilla pólitískum andstæðingum og reyndar líka pólitískum samstarfsmönnum upp að vegg, láta þá bera ábyrgð með Framsfl. á máli sem þeim fannst að þeir stæðu einir uppi með. Þeim fannst og kannski var það rétt að þeir væru einir að taka út erfiðleikana sem fylgdu því að fara í þessa virkjun og þessa stóriðju og að Sjálfstfl. slyppi eins og stundum áður við gagnrýnina en fengi aftur á móti hrósið og það sem félli til af upphefð fyrir það sem verið var að gera. Þeir ákváðu að leggja það til að þetta mál yrði tekið inn í Alþingi, ekki af því að þeir teldu að væri á því nein nauðsyn heldur vegna þess að þeir töldu að það væri pólitískt skynsamlegt. Það mundi rétta Framsfl. við og það mundi kannski koma einhverjum illa.

Nú er að sannast að þessi leiðangur er að mistakast hjá Framsfl. og það illa. Framsfl. er ekki að uppskera úr þessum leiðangri það sem hann hafði hugsað sér vegna þess að þegar menn bjóða upp á sýningu á verkum sínum, þegar gestirnir koma og verða margir til að skoða sýninguna fer ekki hjá því að verkin verða metin. Hér hafa menn verið að meta verkin. Hver er niðurstaðan? Það er nánast hægt að setja út á allt sem viðkemur undirbúningi málsins, því miður. En stjórnarliðar, fylgismenn Framsfl. og Sjálfstfl., sem tóku við þessu máli inn í sali Alþingis, eru tilbúnir að fylgja því hvernig sem það lítur út að lokum. Það hefur komið í ljós í umræðunni og í umfjöllun málsins, í nefndum og meðal þingmanna. Umræðan gefur ekki af sér breytingar á afstöðu manna, ekki ef þeir eru í stjórnarflokkunum. Hins vegar hefur margt komið fram í þessu máli sem gerir það t.d. að mörgu leyti öðruvísi í mínum augum en það var þegar það kom fyrst fyrir mín augu í þinginu. Margt hefur verið upplýst í umræðunni.

Hæstv. forsrh. hefur alveg sérstaka ánægju af því að gera lítið úr Samfylkingunni og niðurlægja hana. Um daginn lýsti hann því þannig að Samfylkingin hefði enga skoðun á málinu, hún vildi bara eitthvert umhverfismat, hún vildi bara láta skipulagsstjóra og umhvrh. ráða niðurstöðunni. Í þessu felst alveg gersamlega fullkomin fyrirlitning á því sem hefur verið ákveðið á hv. Alþingi að sé háttur á að meðhöndla mál eins og þetta. Hæstv. forsrh. ber enga virðingu fyrir þeim vinnubrögðum sem hafa verið ákveðin á hv. Alþingi. Hann gerir bara grín að þeim. Á sama tíma, reyndar fáeinum dögum áður, upplýsti hæstv. forsrh. líklega nokkru fyrr en hann ætlaði að gefa út ævisögu sína að þegar verið var að byggja ráðhúsið, sem var umdeild bygging og stendur hér stutt frá, hefðu margir verið óánægðir með það mál. Hver voru aðalrökin hjá þeim sem voru á móti ráðhúsinu? Þau voru að ráðhúsið væri of stórt, það tæki of mikið pláss í Tjörninni og það væri of dýrt. Hæstv. forsrh. upplýsti að hann hefði verið á móti ráðhúsinu vegna þess að ráðhúsið var of stórt. Það tók of mikið pláss í Tjörninni og hann var hræddur um að það yrði of dýrt. Hann var sem sagt sammála þeim sem voru að berjast gegn ráðhúsinu. Hann var að hæla sér af því við þjóðina núna eftir öll þessi ár að hann hefði verið á móti þessu máli. Ég spyr: Er alveg víst að hæstv. forsrh. styðji það mál sem við erum núna að fjalla um? Er það alveg öruggt eða hefur hann kannski orðið undir í ríkisstjórninni eins og hann var forðum undir þegar þeir voru að byggja ráðhúsið? (Gripið fram í: Það skyldi nú ekki vera?) Það skyldi nú ekki vera.

Því miður er niðurstaðan af þessari skoðun á málinu sú að hægt er að líkja henni við það þegar nemandi er sendur heim úr skólanum með verkefni, við skulum segja að þetta hafi verið verkefni í reikningi, og þegar kennarinn er búinn að fara yfir verkefnið er ekki eitt einasta dæmi rétt. Þegar nemandinn, sem hreykinn kom með verkefni sitt í skólann og lagði það fram, fær plaggið í hendur aftur þá er allt strikað með rauðu, ekkert dæmi rétt, alls staðar athugasemdir og alls staðar vitlaus útkoma. Þannig er þetta, því miður.

[24:00]

Það er eitt sem hefur verið eins og rauður þráður í gegnum umræðuna hjá þeim sem hafa mælt með þessu máli eins og það liggur fyrir, en það er byggðastefnan. Verið er að reyna að gera þá tortryggilega sem eru ekki ánæðir með hvernig þetta mál hefur verið undirbúið með því að tala til þeirra eins og þeir séu á móti landsbyggðinni, þeir séu á móti því að Austfirðingar fái loksins eitthvað sem geti bjargað byggðunum fyrir austan.

Ég er afar ósáttur við þennan málatilbúnað einfaldlega vegna þess að stóriðja getur ekki verið byggðastefna. Það er útilokað. Það er of mikið í húfi. Menn geta aldrei notað stóriðju á þann hátt vegna þess að þá eru menn að segja að þeir séu tilbúnir til að taka á sig tapið. Ætla menn að taka ákvarðanir um álver og virkjun fyrir austan til að bera af því tap vegna byggðamála? Væntanlega ekki. Ég tel að það geti ekki verið. Auðvitað verður stóriðja að byggðamáli ef niðurstaðan er jákvæð en til þess þurfa menn að fara yfir málið fyrst. En það er ekki hægt að leggja upp með stóriðjustefnu sem byggðastefnu. Þar eru menn að snúa hlutunum á haus.

Hér hefur verið spurt hvað menn vilji gera ef ekki þetta í byggðamálum. Ég svara því einfaldlega þannig að stóriðjustefna getur aldrei orðið byggðastefna. Það getur hins vegar komið byggðum vel ef menn komast að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé að virkja og byggja álver eða stóriðju. Við höfum auðvitað séð það vel á sunnanverðu Vesturlandi hvað stóriðja getur gert í atvinnumálum. Það út af fyrir sig er líka notað sem rök í þessu máli og kannski eðlilega. En þar má líka sjá dæmi um hvernig ekki á að standa að undirbúningi stóriðju.

Sannleikurinn er sá að vafasamt er hvort Íslendingar séu farnir að hagnast á járnblendifélaginu. Akurnesingar hafa hagnast á því og svæðin í kring en landið í heild hefur sennilega ekki hagnast á því enn þann dag í dag. Vegna þess að þannig var til stofnað í upphafi að raforkuverðið sem þar hefur verið það lágt og var reyndar lágt vegna þess að menn höfðu þá virkjað áður í Blöndu og höfðu ekki markað fyrir orkuna, og það vissu þeir auðvitað sem sömdu um raforku fyrir járnblendifélagið og fundu verð sem var þeim hagkvæmt og hefur verið býsna lágt fram á þennan dag, auk þess sem íslenska ríkið lagði ítrekað fram hlutafé í þetta og á tímabili voru það orðnir 4 milljarðar. Ég veit ekki hvort 1,5 milljarðar hafa skilað sér til baka. Það eru þær tölur sem mig minnir að séu réttar. Það eru því líkur á því að við eigum eftir að sjá hagnaðinn af því fyrirtæki. En vonandi mun sá rekstur halda áfram að ganga eins og hann hefur gert undanfarin ár og að lokum verði það hagkvæmt.

En hvað er það sem umræðan hefur leitt í ljós í umfjöllun þingnefnda Alþingis og hér í þingsölum? Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í umhverfisþáttinn, það hafa ýmsir þingmenn gert mjög vel og engin ástæða til að endurtaka þau rök. En þau rök sem hafa verið færð fram hvað varðar undirbúning málsins að þessu leyti segja öll, þau hrópa það raunverulega, að þarna hafi illa verið að málum staðið. Það er allt of mikið af vel rökstuddum ábendingum frá hv. þm. sem sanna það að þarna hafa menn ekki staðið rétt í ístaðinu.

Ég er einn af þeim sem telja að ef farið hefði verið í eðlilegt umhverfismat og umfjöllun þessa máls, þá hefði það getað leitt til þess að við hefðum valið hagkvæmasta kostinn og þann kost sem hefði getað leitt til sátta.

Það sem nú liggur fyrir og hefur komið skýrt fram í gögnum sem hafa verið til umfjöllunar hjá hv. þingnefndum er að með því að virkja á Eyjabökkum á þann hátt sem nú liggur fyrir og ríkisstjórnarflokkarnir ætla sér, þá er ekki verið að nýta virkjunarkosti sem fyrir hendi eru að fullu. Það er mjög alvarlegt mál og verður kannski aðalumfjöllun máls míns að fara yfir það. Það liggur nefnilega fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir ætla sér að sökkva Eyjabökkum --- sem margir líta á sem mjög alvarlegt umhverfisslys --- án þess að nýta það vatnsafl til fulls sem er á þessu svæði. Það er að mínu viti mjög alvarlegt mál.

Þarna er ég að vísa til þess að Orkustofnun hefur skoðað annan möguleika á virkjun á þessu svæði, svokallaða Hraunavirkjun. Sú virkjunartilhögun var skoðuð í framhaldi af því á sínum tíma þegar niðurstaðan var sú að hagkvæmara væri að bora göng en nota þá skurði sem í upphafi var reiknað með í þessari virkjun. Ég vitna hér til greinagerðar um Hraunavirkjun frá Orkustofnun en hennar er getið í bréfi frá 2. desember 1999, en þar segir í upphafi, með leyfi forseta:

,,Á fundi umhvn. hinn 30. nóv. sl. voru fulltrúar Orkustofnunar beðnir um nánari greinargerð um svokallaða Hraunavirkjun. Meðfylgjandi er minnisblað sem dr. Hákon Aðalsteinsson hefur dregið saman af þessum sökum.``

Á þessu minnisblaði er talað um virkjun Hraunavatns og þar kemur fram að sú virkjun er nefnd í yfirliti um þróun virkjunarhugmynda í greinargerð Orkustofnunar með till. til þál. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Þar kemur enn fremur fram að stórt inntakslón á enda langs skurðar, Gilsárvatnalón, réð mestu um að Fljótsdalsvirkjun með veitu norðan Norðurdals varð fyrir valinu.

Ég ætla að vitna í þetta áfram, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þegar ákveðið var að færa aðrennslisveitu virkjunarinnar af yfirborði í göng, ákvað Orkustofnun að skoða einnig möguleika á betri nýtingu Hraunavatns. Á þessum árum, (1989--1991) var beðið eftir Fljótsdalsvirkjun vegna álvers á Keilisnesi, og því augljóslega ekki tími til að verkhanna nýjan kost.``

Ég vek athygli á að þetta er á árunum 1989--1991. Síðan er virkjuninni lýst stutt: ,,Sameining Fljótsdals- og Hraunavirkjana í eina virkjun, Hraunavirkjun meiri, með stöðvarhúsi í Suðurdal.`` --- Í stað Norðurdals sem hin virkjunin er. --- ,,Þetta er í raun byggt á sömu útfærslu og tilhögun Hraunavirkjunar, en gangaleggnum norðan Norðurdals sleppt en aðalgöng sunnan Suðurdals stækkuð í staðinn. ... Aðalmiðlun Hraunavirkjunar, hvort sem það er hin minni eða meiri, er á Eyjabökkum.``

Það er sem sagt ekki verið að tala um virkjun sem breytist að þessu leyti. Áfram er gert ráð fyrir lóni á Eyjabökkum. Þetta er tillaga um áfangaskipta virkjun, þ.e. fimm áfanga, og ég vek athygli hv. alþm. á því að þeir fimm áfangar gefa af sér 2.800 gwst. á ári. En eins og þingmenn muna er gert ráð fyrir að Fljótsdalsvirkjun sem hér er til umfjöllunar gefi af sér 1.390 gwst. á ári. Þarna erum við sem sagt að tala um helmingi stærri virkjun. Og hér segir áfram, með leyfi forseta:

,,Þessi tafla segir enn fremur að þessi virkjun stendur hvorki né fellur með einstaka veitum og því er ekkert tilefni til að hafna hugmyndinni í heild, þótt menn séu ekki fyllilega sáttir við allt sem hefur verið skoðað fram til þessa. Orkustofnun hefur reynt að fara yfir sem mest af virkjunarsvæðinu með sérfræðingum til að safna upplýsingum um náttúrufar, til að endanleg forathugun og frumhönnun verði markviss.``

Síðan er vitnað í helstu rannsóknir sem hafa birst í skýrslum til stuðnings þessari tillögu Orkustofnunar.

Hraunavirkjun er kynnt sem valkostur við Fljótsdalsvirkjun. Í stað þess að veita Jökulsá í Fljótsdal út Fljótsdalsheiði og virkja í mynni Norðurdals eins og lagt er til í áætluninni um Fljótsdalsvirkjun er ánni veitt austur fyrir Suðurdal og fram með honum og virkjað í mynni hans. Það er gert ráð fyrir að byggingarkostnaður útfærslnanna verði svipaður, um 50 milljarðar kr., miðað við verðlag í desember 1994. Þá er þessi tillaga tilbúin eins og hún liggur fyrir og er kynnt af Orkustofnun.

Orkuverð frá Hraunavirkjun yrði 15--20% lægra en frá Fljótsdalsvirkjun. Ég endurtek: 15--20% lægra orkuverð en frá Fljótsdalsvirkjun og þessi tillaga er tilbúin 1994. Þeir segja enn fremur á minnisblaðinu um skýrsluna:

,,Útgáfa þessarar skýrslu um Hraunavirkjun markar tímamót hvað varðar forathuganir Orkustofnunar á virkjunarkostum.``

Gera hv. alþm. sér grein fyrir því hversu alvarlegt þetta mál er? Að til skuli vera valkostur, tillaga ekki frá hverjum sem er, heldur frá Orkustofnun þar sem Orkustofnun gerir ráð fyrir því að orkuverð frá þeirri virkjun verði 15--20% lægra en frá Fljótsdalsvirkjun og að við stöndum frammi fyrir því árið 1999 að þessi kostur hafi verið geymdur, hann hafi ekki verið skoðaður. Honum er ekki lýst í gögnunum sem hér liggja fyrir heldur hefur Orkustofnun komið þessu á framfæri í viðtali við þingnefndir. Þegar þetta mál er reifað í þingnefndum og á hv. Alþingi, þá spyr ég, sjá menn ekki hversu fáránlegt það er að sökkva Eyjabökkum sem er mikið umhverfisslys í augum fjölmargra Íslendinga og það án þess að nýta bestu virkjunarkosti á svæðinu? Hverjir bera ábyrgð á slíku, hæstv. forseti?

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Velti hann þessu máli aldrei fyrir sér, að það þyrfti að skoða það? Hvers vegna í ósköpunum lét hæstv. ráðherra ekki skoða þetta mál? Skipti það engu að hægt yrði að fá 15--20% lægra raforkuverð á svæðinu? Að menn væru að kasta náttúruverðmætum án þess að nýta að fullu það svæði sem um væri að ræða? Er það í takt við afstöðu fólks í dag við að skerða náttúruna að kasta frá sér slíkum möguleikum eins og þarna eru fyrir hendi?

Síðan vil ég vekja athygli hv. þm. á því hversu stærðarmunurinn á þessari virkjun og Fljótsdalsvirkjun er mikill. Við erum annars vegar að tala um Hraunavirkjun sem getur orðið allt að 2.800 gwst. en hins vegar Fljótsdalsvirkjun sem er 1.390 gwst. og fyrsti áfangi Hraunavirkjunar yrði samkvæmt þessum hugmyndum nægilega stór fyrir álverið í Reyðarfirði. En auðvitað þarf að koma til viðbótarvirkjun við Fljótsdalsvirkjun ef svona verður farið að eins og hér er til stofnað af hæstv. ríkisstjórn.

Hver gæti verið ástæðan fyrir því að menn hafa látið þennan möguleika óskoðaðan frá því 1994, svo ég fari nú ekki aftar? Tillagan er að vísu frá 1991 en þær rannsóknir sem Orkustofnun leggur til grundvallar hugmyndinni eins og hún liggur fyrir núna eru sumar hverjar fram til ársins 1994 og tíminn frá 1994 hefur ekki verð nýttur að neinu leyti til þess að skoða þennan kost. Hver gæti verið ástæðan?

[24:15]

Því miður, hæstv. forseti, tel ég að ástæðan fyrir þessu geti eingöngu verið ein. Hún er sú að hæstv. ríkisstjórn einblínir á að ekki megi meta umhverfisáhrif af þessari virkjun. Hæstv. ríkisstjórn hlýtur að telja að ef það verði gert þá verði hætt við þennan kost. Það er a.m.k. það sem ég get helst látið mér detta í hug. Hvaða ríkisstjórn horfir fram hjá því að hægt sé að fá 15--20% lægra orkuverð af jafnstórri virkjun og þessari nema hafa fyrir því einhverja ríka ástæðu? Ég held því fram að þetta atriðið sé næg ástæða til að hér verði staldrað við og að menn láti þetta mál ekki ganga til enda. Það liggur fyrir rökstudd tillaga frá Orkustofnun sem bendir eindregið til að meira að segja sé hægt að hafa hagnað af þessu álveri sem menn hafa verið að reikna sig fram og til baka með ef þessi kostur yrði valinn. En til þess þarf að fara yfir allt málið eins og reyndar aðrir hv. þm. hafa rökstutt að gera þurfi hvort sem er, ætli menn að sýna þessu máli þá virðingu í sölum Alþingis sem því ber.

Það hefur verið rætt töluvert, hæstv. forseti, hvernig ganga muni hjá Landsvirkjun að semja um raforkuverð svo dugi. Menn hafa haft um það efasemdir. Ég ætla ekki að endurtaka þá umræðu en verð því miður að segja að ég tel að Landsvirkjun gæti ekki valið sér erfiðari samningsaðila í þessu máli. Íslenskir aðilar sem koma að þessu máli munu finna það best allra hversu langt er hægt að teygja Landsvirkjun og íslensk stjórnvöld í þessu máli. Ég er sannfærður um að þeir sitja nú og reikna út svartasta lágmark á raforkuverði sem pólitísk samstaða geti orðið um. Þeir þurfa ekki að semja um meira því að hæstv. ríkisstjórn hefur lagt svo mikið undir í spilinu að hún verður að ganga að þessu svartasta lágmarki. Hún er búin að kynna þetta mál sem eitt af sínum allra stærstu málum og getur ekki annað en gengið brautina á enda.

Það hefur margoft komið fram hjá ríkisstjórninni að hún er að reyna að nota einn af aðalsamningsaðilunum, Norsk Hydro, sem einhvers konar grýlu á pólitíska andstæðinga sína. Sagt hefur verið að Norsk Hydro stilli okkur upp við vegg, að ef ekki verði gengið í þetta núna strax þá verði bara hætt við allt saman. Hins vegar hafa komið yfirlýsingar frá Norsk Hydro um að þeir séu ekki á móti því að fram fari umhverfismat. Ég verð að segja að mér finnst ótrúlegt að Norsk Hydro, eftir að hafa sent frá sér slíka yfirlýsingu, sé að stilla okkur upp við vegg. Hvers vegna ættu þeir að gera það? Ef það er eitthvað að marka það sem þeir segja þá hljóta þeir að vera tilbúnir að gefa okkur tækifæri til að fara yfir málið og fara yfir það með okkur. Hvers vegna er Norsk Hydro að spila út þessum varnöglum? Af hverju ættu þeir að segja það en í raun og veru meina að ef við göngum ekki að þessu þá hætti þeir bara við? Hver gæti ástæðan verið? Það væri þá bara ein ástæða, sú að stjórnendur Norsk Hydro vilji hafa útgönguleið í þessu máli, að þeir vilji geta hætt við. Er hugsanlegt að þeir vilji hætta við af umhverfisástæðum? Það er einn möguleikinn.

Ég trúi því ekki að þeir sömu menn og sagt er að stilli okkur upp við vegg og krefjist þess að málið sé keyrt nógu hratt áfram, eins og stjórnarliðar fullyrða, séu með yfirlýsingar um að þeir séu tilbúnir til að fara í umhverfismat. Það hafa þeir gert og samkvæmt fréttum frá Noregi hefur fyrirtækið verið að reyna að ná vopnum sínum með því að sýnast umhverfisvænna en það hefur verið á undanförnum áratugum.

Auðvitað væri líka hægt að láta sér detta í hug að þetta fyrirtæki sé á svo veikum efnahagsgrunni reist að ef menn ekki láti reyna á þetta núna, að semja strax, sé möguleikinn ekki til staðar. Er það þannig? Halda menn virkilega að það standi allt og falli með því hvort gengið verði að þessu í vetur? Er þá mikið í þetta að sækja? Ætli hagnaðurinn sem menn eru að takast á um sé þá mikill? Hann getur varla verið mjög mikill ef allt stendur og fellur með því að gengið verði í málið núna eins og það liggur fyrir og ekki gefst tími til að skoða möguleika á því að framleiða rafmagnið með 15--20% lægri tilkostnaði en ráð er fyrir gert í þeim áætlunum sem nú liggja fyrir. Þetta er dæmi um hve hörmulega íslensk stjórnvöld hafa klúðrað undirbúningi þessa máls. Við þessa umfjöllun kemur í ljós að möguleiki sé á að framleiða rafmagn 15--20% ódýrara en hann hafi verið látinn eiga sig árum saman í skúffum Orkustofnunar. Það er furðulegt að hæstv. ráðherra hafi ekki látið sér detta í hug að undirbúa málið og hafa það tilbúið þegar kæmi að möguleikum á að selja orku til stóriðju.

Komið hefur fram að Norsk Hydro sé tilbúið að vera með okkur í þessu, fyrirtækið sé tilbúið að eiga 20--30%. Þó hefur farið á milli mála hvað þeir vildu eiga mikið. Það eru ýmsar vísbendingar um að þeir hafi takmarkaðan áhuga á verulegum eignarhlut. Hvað segir það okkur? Norsk Hydro gæti haft hag af því að taka þátt í þessu álveri þó enginn hagnaður yrði af því. Fyrirtækið getur hagnast verulega á því að taka þátt í álverinu þó hagnaður af því verði enginn. Það er gert ráð fyrir því að þeir selji aðföngin og framleiðsluna og eins er gert ráð fyrir því að þeir fái verulega upphæð fyrir tækniþekkinguna. Álverið þarf ekki að bera sig til þess að Norsk Hydro hafi hagnað af þátttöku sinni.

Hvernig verður þetta þá? Íslenskir aðilar taka þátt í samningunum með Norsk Hydro til að ná sem lægstu raforkuverði. Hvar verður áhættan? Hún verður hjá Landsvirkjun. Þeir hjá Landsvirkjun sögðust ætla að reikna allt raforkudæmið sér, það yrði sér stóriðjupakki hjá þeim og þeir ætluðu sér ekki að tapa á þessu dæmi. Nei, ekki aldeilis. Þeir ætluðu ekki að gera það. Batnandi er mönnum best að lifa en það hefur komið fyrir að Landsvirkjun hafi tapað. Sannleikurinn er sá að Landsvirkjun hefur ekkert til að veðsetja nema íslenska neytendur á markaðnum, ekkert annað.

Maður getur velt því fyrir sér, út frá tölum um raforkuverð til stóriðju og raforkuverð til almennra nota á Íslandi, hvort Landsvirkjun hafi einhvern tíma áður tapað á sölu raforku til stóriðju. Ég er með línurit sem sýnir raforkuverð frá árunum 1966--1998. Það þarf ekki mjög glögg augu til að sjá að frá árinu 1966 og til 1974 hækkaði raforkuverð til almennra nota stórkostlega í hlutfalli við raforkuverð til stóriðju. Af hverju skyldi það hafa verið? Það var vegna þess að menn gerðu á sínum tíma mjög vondan samning um sölu á raforku til Ísals. Almennir raforkunotendur á Íslandi þurftu að borga með honum. Þeir borguðu með honum þar til hann fór að lækka, þessi mismunur á raforku til stóriðju og til almennra nota, á árunum í kringum 1974--1980.

Þá fór mismunurinn að aukast aftur. Hvað hafði gerst? Jú, menn höfðu byggt Blönduvirkjun og ekki bara Blönduvirkjun heldur var gerður raforkusamningur vegna sölu á rafmagni inn í Hvalfjörð, til járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Hvað skyldu menn hafa fengið fyrir rafmagnið þar? 6,5 mill var það. Þeir seldu rafmagn til þessa fyrirtækis á 6,5 mill frá því að fyrirtækinu var komið í gang og ég skal ekki segja hve lengi. Ætli það hafi ekki verið í fyrra sem gerður var annar samningur. Þetta fyrirtæki þurfti ekki einu sinni að borga 6,5 mill allan tímann. Eitt skiptið þegar það var nánast farið á hausinn þá samdi Landsvirkjun við það um að lækka raforkuverðið allverulega frá þessum 6,5 millum sem þeir voru með.

Þannig er þessi raunasaga og sama tíma jókst aftur munurinn milli almenns raforkuverðs og raforkuverðs til stóriðju. Svo gerist undrið upp úr árinu 1988. Þá minnkar munurinn aftur. Hann hefur verið að minnka, hann minnkaði til ársins 1993--1994 og hefur verið svipaður síðan. Þessi mismunur á raforkuverðinu er einna minnstur núna frá upphafi. En nú á að gera samning. Ég held að það sé eðlilegt að þeir sem stjórna Landsvirkjun vilji forðast að sá samningur verði svipaður og þeir samningar sem ég lýsti á undan. Það er enginn vafi á því að íslenskir raforkunotendur hafa greitt niður raforku til stóriðju hvað eftir annað á þessum árum. Það þarf ekki að segja mér annað en að Landsvirkjun hefur enga til að setja í pant nema okkur. Þeir munu ekki geta skilið á milli þegar á reynir, milli almennra raforkunotenda á Íslandi og stóriðjunnar. Ef þeir tapa á því að selja stóriðjunni þá verða þeir að innheimta það af almennu raforkusölunni, því miður.

Ég ætla ekki að blanda mér í umræðuna um þá fjárfesta sem eiga að koma til skjalanna á Íslandi. Eitt vil ég þó segja um það mál. Mér finnst með miklum eindæmum sem hér hefur gerst á undanförnum mánuðum. Allt í einu þykir ekkert mál fyrir Íslendinga að byggja svo sem eitt álver, upp á 480 þús. tonn jafnvel. Forstjóri Þjóðhagsstofnunar gengur um og gerir lítið úr þessu, segir að þetta sé ekkert mál. Það eru aðeins örfá missiri síðan fluttar voru ræður um að Íslendingar gætu ekki tekið svona áhættu. Hvað skyldi vera langt síðan Íslendingar seldu meiri hluta sinn í járnblendifélaginu? Út á hvað gekk rökstuðningurinn fyrir því að selja meiri hlutann þar? Hann gekk út á að vitlaust væri að taka þá áhættu að eiga þetta. Íslendingar ættu ekkert að vera að því. Ríkið ætti ekkert að vera að því heldur ætti bara að selja þetta. Fjárfesting sem þessi var talin tóm vitleysa. Mig minnir að rætt hafi verið um að Íslendingar ættu ekki að eiga í þessum stóru fyrirtækjum vegna áhættunnar.

[24:30]

Það hefur líka komið fram svo það sé nefnt, meira að segja í síðasta bréfi frá Seðlabankanum sem kom í hólf þingmanna, að efnahagsleg vandamál Íslendinga væru fólgin í því að það væru of fá og stór egg í körfunni. Vandinn væri sá að við værum með allt of stóran hluta okkar í sjávarútveginum og álinu. Þetta var í bréfi Seðlabankans frá einhverju virtu erlendu hagfræðifyrirtæki sem ... (Gripið fram í: Standard & Poor´s.) Já, rétt hjá hv. þm. Nú ætlum við að bæta enn við og ekkert lítið. Við ætlum að fara út í mjög stórt álfyrirtæki.

Nú hefur komið fram eitthvert vandamál í sambandi við umhverfismat á þessu álveri og þetta umhverfismat virðist ætla að tefjast eitthvað. Ég hef velt því dálítið fyrir mér hvaða áhrif það geti haft. Mér sýnist að það geti haft þau áhrif að ekki sé endilega víst að Norsk Hydro sé tilbúið til að ganga til samninga á meðan ekki er vitað hvaða skilyrði eru gerð fyrir þessu fyrirtæki þarna fyrir austan því að auðvitað þurfa menn að vita það. Eitthvað kostar það af peningum að koma til móts við kröfur vegna umhverfismála sem gætu komið upp og á meðan menn vita ekki hvaða kröfur það eru, eru menn kannski ekki alveg jafnfrjálsir til samninga. Ég held að það geti skýrt þá miklu taugaveiklun sem hefur verið undanfarna daga út af úrskurði skipulagsstjóra, að menn telji að þetta geti tafið málið og að vorið geti kannski dottið upp fyrir hjá hæstv. iðnrh., hann geti bara ekki klárað málið fyrir þinglok t.d., því að það er á honum að skilja í þingsölum að hann telji að það þurfi að koma með málið inn til þingsins. Þess vegna gæti verið að sú taugaveiklun sem við höfum orðið vör við væri vegna þess að það þyrfti að skipta snarlega yfir í fyrsta áfanga ef ætti að vera hægt að klára þetta mál.

Hæstv. forseti. Það var ekki ætlun mín að fara að halda langa ræðu. Ég tel hins vegar að þetta mál sé svo illa undirbúið frá hæstv. ríkisstjórn að það sé með eindæmum að menn skuli ekki vera tilbúnir til að hlusta á gagnrýnisraddirnar. Í dag held ég að menn gætu verið menn að meiri að gera það og mér hefur sýnst að síðasta dæmið um að menn séu tilbúnir að endurskoða pólitískar ákvarðanir sínar segi okkur að það þurfi ekki endilega að vera vont fyrir þá.

Sjálfstæðismenn í höfuðborginni gengust fyrir undirskriftasöfnun. Þeir börðust gegn máli sem meiri hlutinn í Reykjavík hafði ætlað sér að framkvæma, þ.e. að láta byggja í Laugardalnum. Andstaðan við þetta mál í borginni reyndist verulega mikil. Þegar meiri hlutinn í Reykjavík fór að skoða málið komst hann að þeirri niðurstöðu að hann ætti að hlusta á fólkið í borginni. (Gripið fram í: Jafnvel þó að það væri samþykkt skipulag.) Jafnvel þó að það væri samþykkt skipulag, já. Það var ekki vegna þess að menn hefðu neyðst til þess að gera þetta á einhverjum lagalegum forsendum eða eitthvað slíkt, nei. Það er vegna þess að meiri hlutinn í Reykjavík ákvað að hlusta á fólkið í borginni, jafnvel þó að það væru sjálfstæðismenn sem höfðu haft forgöngu í málinu. Ákveðið var að hætta við þetta, skoða málin upp á nýtt. Ég er sannfærður um að meiri hlutanum í Reykjavík mun ekki verða legið á hálsi í framtíðinni fyrir það að hafa verið tilbúinn að endurskoða afstöðu sína. Það var ekki vegna þess að menn væru mjög sáttir við það. Þeir höfðu greinilega þá skoðun að skynsamlegt væri að byggja, a.m.k. sagði borgarstjórinn það í viðtölum. Hann ákvað samt að hlusta á fólkið í borginni. Ég held að mönnum væri nær að hlusta á fólkið í landinu en að ana áfram með bundið fyrir augun eins og hæstv. ríkisstjórn er að gera. Satt að segja er ég ekki spámaður, enda mundi fara illa fyrir ríkisstjórninni ef ég væri það. Mér finnst einhvern veginn að göngulag ríkisstjórnarinnar í þessu máli hljóti að enda með því að hún falli með einhverjum hætti um koll og þessar fyrirætlanir muni að lokum verða þessari hæstv. ríkisstjórn til ófarnaðar.

Ég held að hún hefði átt að hafa vit á því að hlusta á gagnrýnina sem hefur komið fram við umfjöllun málsins, taka það úr þessum farvegi, ræða við Norsk Hydro um að taka þetta mál allt til skoðunar til að finna hagkvæmasta kostinn til að virkja fyrir austan og þann kost sem hægt væri að ná víðtækri sátt um, taka sér tíma í þetta mál, þann tíma sem þarf. Ef það er svona hagkvæmt að virkja þarna og ef það er svona hagkvæmt að framleiða ál, hleypur sá möguleiki ekki frá okkur á nokkrum mánuðum. Í áliðnaðinum hugsa menn í áratugum, það höfum við a.m.k. heyrt fram að þessu en íslenska ríkisstjórnin talar eins og að í áliðnaðinum sé hugsað sé í vikum.

Ég hef tekið eftir því, hæstv. forseti, að margir hv. þingmenn verða mjög skáldlegir og vitna í bókmenntir, fara með kvæði og stökur þegar þeir ljúka ræðum sínum í þessu máli. Ég velti því svolitla stund fyrir mér hvar væri að finna einhverja hliðstæðu í bókmenntunum við þessa vegferð hæstv. ríkisstjórnar. Ég er ekki mjög lesinn maður, en að lokum flaug mér í hug kvæði eftir skáld. Þetta kvæði er eftir Guðmund Böðvarsson úr Borgarfirði. Ég hugsa að hann hafi með innsæi sínu séð fyrir sér íslensku ríkisstjórnina þegar hann var að kveða þetta kvæði á sínum tíma því að þetta kvæði er um afreksverk sem unnið var á fjöllum og ríkisstjórnin hefur hugsað sér að vinna afrek á fjöllum. Mér fannst einhvern veginn þegar ég fór að hugsa málið að þetta væri kannski það sem kæmist næst því í mínum huga. Þetta minnir mig á þessa tilraun ríkisstjórnarinnar til afrekanna.

Hæstv. forseti. Ég fer fram á að fá að lesa þetta kvæði.

(Forseti (ÍGP): Þingmaðurinn fær leyfi til þess.)

  • Vallhumall vex í þúfu
  • Völku gömlu frá Tjörnum.
  • Stóð sú við sætingu og rakstur
  • sjaldan á engjateigi,
  • fornleg um þykkju og þel.
  • Langtímis fór hún á fjalli
  • að fé, með toppmjóa húfu,
  • gagnkunnug hálendishagans
  • holtum, móum og dýjum,
  • Einbúa og Útbrúnir þekkti,
  • Illasund, Háamel,
  • því hún rak á hverjum degi
  • hreppstjórans ær úr kvíum,
  • með sér að morgni tók hún
  • mal sinn og blöndulegil,
  • staf sinn, og stytti sig vel.
  • Valka var vel að manni,
  • í vextinum stutt og digur,
  • ótæpt var í hana spunnið
  • andanum til að duga,
  • og ófremdin sárt henni sveið,
  • oft vó hún upp stórgrýti í vörður
  • og vann þar lofsverðan sigur,
  • en oflangt frá alfaraleið,
  • því henni brann það í huga
  • að hafa sér nokkuð unnið
  • til frægðar fyrri en væri
  • fram hjá í markleysu runnið
  • örfleygt ævinnar skeið.
  • Kristfinnur Kortsson af Skaga
  • var kaupamaður á Tjörnum,
  • kattliðugt kvikindi var hann
  • og krækti leikandi báðum
  • hælunum aftur fyrir haus,
  • list sína löngum á kvöldum
  • hann lék fyrir krakkaskarann
  • og hélt sínum fræknleik til haga
  • hreykinn af sínum dáðum,
  • galandi gort og raus,
  • kallandi kalls til Völku:
  • --- klofstutt og rasssíð er Valka,
  • brauðstirð og liðalaus.
  • Það var á aftni einum
  • að örfáar gamalrollur
  • kreikuðu heim undir kvíar,
  • komnar án hunds og smala,
  • margs var þá spurt, --- og spáð
  • að ef til vill álfasollur,
  • iðkandi brellur nýjar,
  • villt hefði um fyrir Völku,
  • var þá með nokkrum kala
  • munuð mörg þeirra dáð,
  • en ekki var um að tala:
  • afi var sendur að leita.
  • Drjúg eru reynds manns ráð.
  • Afi á Refsstaða-Rauðku
  • reið nú skætinginn glaðan,
  • margur var brekkubollinn,
  • Berjadalinn og Flatann
  • leitaði hann inn og út,
  • og vestur við Vatnsmýrarpollinn
  • Völku fann hann að lokum,
  • og dauðskelfdur datt hann af baki
  • og drottin um liðsinni bað hann,
  • því illa var ástatt um Völku:
  • öðrum stuttfæti sínum
  • krækt hafði hún yfir kollinn
  • og kom honum ekki þaðan,
  • allt var í hörðum hnút.
  • En Valka mín, --- okkur öllum
  • sem ætluðum stórt að gera,
  • skal endast til hugarhægðar
  • í hjásetu á lífsins fjöllum,
  • sú lífsreynsla mín og margra,
  • að misheppnan afreksverksins ---
  • fékk manni nokkurrar frægðar,
  • og fráleitt er því að bera
  • frá tapinu sorg og sút.