Athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 10:32:13 (3600)

1999-12-21 10:32:13# 125. lþ. 51.91 fundur 248#B athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[10:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í morgun vöknuðu landsmenn upp við fréttir af því að íslensk stjórnvöld hefðu haft í hótunum við Norðmenn. Ef fyrirtækið Norsk Hydro ekki sýndi samstarfsvilja gagnvart virkjunarframkvæmdum austur á Fljótsdal, þá gæti það haft slæmar afleiðingar í samskiptum Íslendinga og Norðmanna. Þetta eru að sjálfsögðu mjög alvarlegar fréttir og fáheyrð framkoma af hálfu íslenskra stjórnvalda og í samskiptum þessara þjóða.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvaða aðili hafi gengið fram fyrir skjöldu með þessum hætti. Ekki reyndist það vera hæstv. iðnrh. eins og einhvern kynni að hafa grunað heldur var það hæstv. umhvrh. Af öllum ráðherrum er það sá sem á að standa vörð um hagsmuni náttúrunnar og umhverfisins innan ríkisstjórnarinnar (KHG: Íslendinga.) sem hefur í hótunum við þá sem vilja láta umhverfið njóta vafans í lögformlegu umhverfismati og hótar nú Norsk Hydro og Norðmönnum að þeir skuli hafa verra af ef þeir ekki makka rétt í þessu máli.

Að mínum dómi er það ekki hæstv. umhvrh. einn sem skuldar Alþingi og þjóðinni skýringar heldur hæstv. forsrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar.