Athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 10:36:20 (3602)

1999-12-21 10:36:20# 125. lþ. 51.91 fundur 248#B athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[10:36]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins undirstrika það sem hæstv. umhvrh. sagði áðan, að það hefur alltaf verið stefna Íslendinga í þessu máli að það væri íslenskt mál, að ákvörðunin og ábyrgðin í málinu ætti að liggja hér og hvergi annars staðar. Hins vegar höfum við orðið þess vör að andstæðingar málsins hafa borið sig upp við Norðmenn. Andstæðingar málsins hafa gengið á fund Norðmanna. Andstæðingar málsins hafa sent bænarskrár til Norðmanna. Það hefur ríkisvaldið ekki gert og ríkisstjórnin ekki gert. Við lítum svo á að hér sé um alíslenskt mál að ræða. Þátturinn sem snertir Norsk Hydro er eingöngu viðskiptalegs eðlis. Verði sá þáttur ekki aðgengilegur, þá verður ekkert mál. Það höfum við alltaf sagt og þannig er málið. Ég sé því ekki að nokkurt tilefni sé til upphlaups vegna þessarar skýrslu norska sendiherrans sem mér finnst að vísu dálítið sérkennilegt að skuli vera komin á borðið með þeim hætti sem hér hefur gerst. Það er hárrétt sem umhvrh. segir að þetta er íslenskt mál, íslensk ákvörðun og íslensk ábyrgð.