Athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 10:39:29 (3604)

1999-12-21 10:39:29# 125. lþ. 51.91 fundur 248#B athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[10:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Auðvitað veit öll þjóðin að ríkisstjórnarflokkarnir hafa alls ekki haft þetta fyrir pólitískt mál, það er nú eitthvað annað. Það var t.d. ekki pólitík þegar hæstv. utanrrh. og 1. þm. Austurl. boðaði austfirskum sveitarstjórnarmönnum fagnaðarerindið sem 1. þm. kjördæmisins og sem hæstv. utanrrh. (Forsrh.: Pólitískt ... Norðmönnum.) (Utanrrh.: Var ég að tala við Norðmenn á Austurlandi? Hvaða Norðmenn voru á fundinum?) Ég heyri að hæstv. ráðherrum er órótt sem vonlegt er.

Herra forseti. Ég held að ekki séu öll kurl komin til grafar í samskiptum íslenskra stjórnvalda t.d. við fyrirtækið Norsk Hydro. Hvað með yfirlýsingar og pantaðar yfirlýsingar frá því fyrirtæki? Ætli það geti ekki verið svo án þess að ég geti lagt dóm á orð sem ég heyrði ekki. Ég var ekki vitni að fundi hæstv. umhvrh. og þessa norska sendiherra. Eitthvað gefur þessum embættismanni tilefni til þeirra hugleiðinga þó sem kannski er ranglega verið að leggja umhvrh. í munn. En þetta má vera býsna ónákvæmur embættismaður sem í skýrslugjöf til sinnar ríkisstjórnar er með vangaveltur af þessu tagi ef þær eru algerlega út í loftið. Auðvitað er einfalt fyrir hæstv. umhvrh. að koma hér og láta fullyrðingu standa gegn fullyrðingu og verður sjálfsagt lítið sannað í því. En er þetta, herra forseti, ekki því miður mjög því marki brennt sem flest annað í málsmeðferðinni hefur verið, að pólitísk örvænting, sérstaklega Framsfl., er orðin þvílík í þessu máli að það er einskis svifist og ekki er hikað við að gera ómaklegar árásir að mannorði embættismanna ef svo ber undir? Og hvað munar þá um að draga pínulítið úr trúverðugleik norska sendiherrans? Það er varla alvarlegra mál en t.d. aðförin að skipulagsstjóra á dögunum.

Herra forseti. Því miður stöndum við frammi fyrir því að tilgangurinn helgar hér algjörlega meðalið hjá stjórnarflokkunum.