Athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 10:51:08 (3610)

1999-12-21 10:51:08# 125. lþ. 51.91 fundur 248#B athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans# (aths. um störf þingsins), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[10:51]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég heyri að það sem ég sagði áðan hefur ekki alveg komist til skila. Ég vil sérstaklega ítreka það að vegna þessa samtals sem ég átti við Kjell Halvorsen, norska sendiherrann, þá var ekkert sem kom fram í því samtali sem gaf til kynna að þetta mál gæti haft einhver pólitísk áhrif á milli þessara tveggja landa, Íslands og Noregs, alls ekki. Hér kemur fram í skýrslu hans, sem ég hef verið að lesa, að hann hefur það eftir mér að ríkisstjórnin hafi lagt áherslu á að ná málinu fram og það séu ekki allir sammála um málið hér innan lands. Það er bara nokkuð það sem allir vita. Allt annað í þessu plaggi sýnist mér vera vangaveltur sendiherrans og nú vilja menn reyna að gera mig ábyrga fyrir þeim vangaveltum og ég frábið mér það. Ég frábið mér það að ég þurfi að bera ábyrgð á vangaveltum norska sendiherrans á Íslandi.