Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 10:55:17 (3612)

1999-12-21 10:55:17# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[10:55]

Þuríður Backman:

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hef ég nokkrum sinnum komið upp í þennan ræðustól en nú er mér þungt fyrir brjósti og ég finn fyrir miklum vonbrigðum með hvernig þetta stóra hagsmunamál okkar Íslendinga hefur þróast nú við lok umræðunnar um þáltill. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Herra forseti. Má ég biðja forseta um að hringja bjöllunni.

(Forseti (HBl): Það er rétt ábending hjá hv. þm. að ástæða er til að biðja hv. þm. um að hafa hljóð í salnum.)

Til hvers var verið að leggja þáltill. fram? Var það til þess að kæfa þá þáltill. sem lögð var fram í fjórða sinn við upphaf þingsins um að Fljótsdalsvirkjun ætti að fara í mat á umhverfisáhrifum? Var það vegna þess að hávær krafa er í þjóðfélaginu um að viðhöfð séu eðlileg vinnubrögð við stærstu framkvæmd sem fyrirhugað er að ráðast í eða var það til að sýna hver ræður? Var það vegna þess að hæstv. ráðherrar Framsfl. hafa lagt pólitíska stöðu sína að veði í þessu máli og því verði allt að ganga fram eins og þeir hafa lofað? Eða var það til að knýja fram afstöðu þingmanna og ráðherra Sjálfstfl. sem margir hverjir hafa komist létt frá þessu erfiða máli, sem mest hefur mætt á ráðherrum Framsfl., gera þá jafnábyrga og sýnilega í málinu?

Tillagan var sannarlega ekki lögð fram til að koma þessu erfiða máli út úr þeirri sjálfheldu sem það er í í dag. Ég kalla það sjálfheldu þegar pólitískt stolt og þrjóska heldur málinu öllu svo aðklemmdu að ekki er hægt að leita ásættanlegra leiða fyrir uppistöðulón virkjunarinnar á Eyjabökkum. Virkjunarleyfið er bundið þeirri hönnun sem gerð var fyrir 20 árum og þykir ekki ásættanleg í dag. Ef vikið er frá þeirri hönnun, þá fellur framkvæmdin sannarlega undir lög um mat á umhverfisáhrifum og það má ekki því þá særist pólitískt stolt hæstv. ráðherra Framsfl., þeirra Finns Ingólfssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Það má sem sagt ekki leita eftir annarri eða öðrum lausnum þó hagkvæmari kynnu að reynast eins og þeirri að hækka stíflugarð Fljótsdalsvirkjunar um fáeina metra og fullnægja þannig orkuþörf 120 þúsund tonna fyrsta áfanga Fljótsdalsvirkjunar og komast hjá því að virkja gufuafl við Bjarnarflag og leggja þaðan raflínur yfir öræfin.

Einnig hefur verið bent á aðrar lausnir varðandi legu uppistöðulónsins sem hlífa mundi hinum viðkvæmu og umdeildu Eyjabökkum en það má heldur ekki því að þá verður að hvika frá yfirlýstri stefnu. Í þessu máli er ekki hægt að ná sáttum nema þessar miklu framkvæmdir fari í mat á umhverfisáhrifum, fari í það sem nú er farið að kalla lögformlegt mat á umhverfisáhrifum því að í því vinnuferli er hægt að leita annarra leiða, finna aðra valkosti til samanburðar sem sátt næst um. Yfir þetta hefur margoft verið farið héðan úr þessum ræðustóli og auðvitað á að vera óþarfi að endurtaka það, en góð vísa er aldrei of oft kveðin þó að manni finnist lítið vera hlustað.

Krafan um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar verður víst að koma að utan frá Norsk Hydro svo pólitísk staða hæstv. ráðherra Framsfl., þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Finns Ingólfssonar, bíði ekki hnekki. Það kann að verða niðurstaðan í þessu stóra máli því samkvæmt fréttinni í morgun er málið farið að valda titringi í Noregi, spennu milli frændþjóða. Hótanir komnar í loftið eftir þeim fréttum sem bárust í morgun og vitnað er þar til sendiherra Noregs. Þetta er ekki lengur eingöngu viðskiptamál. Þetta er að þróast í deilumál milli Íslands og Noregs og það er ekki stjórnarandstaðan sem stendur að því. Í fréttum í morgun var verið að vitna í norska sendiherrans á Íslandi en ekki í þingmenn minni hlutans hér á þingi.

Reynt er að telja þingmönnum og þjóðinni allri trú um að hér hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar. Þessi vinna sé mjög vel unnin í hv. umhvn. og að hv. iðnn. hafi farið yfir málið og unnið úr því. Því hefur meira að segja verið haldið fram úr þessum ræðustóli að þessi vinna sé meiri en ef málið hefði farið eða eftir lögum nr. 63/1993 þar sem 63 þingmenn komi til með að fella úrskurð en ekki einn skipulagsstjóri. Því er þessi málsmeðferð í raun ofbeldi í þinglegri meðferð, ofbeldi gagnvart réttarstöðu málsins, ofbeldi gagnvart viðurkenndum vinnubrögðum, ofbeldi gagnvart þjóðinni og náttúru landsins. Þetta mál hefur klofið þjóðina í fylkingar sem erfitt verður að sætta.

Herra forseti. Í ræðum margra hv. þingmanna, t.d. Ólafs Arnar Haraldssonar, Kolbrúnar Halldórsdóttur, Katrínar Fjeldsted, Ögmundar Jónassonar, Steingríms J. Sigfússonar, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, Össurar Skarphéðinssonar og Jóns Bjarnasonar, svo nöfn fárra séu nefnd, hafa komið fram mjög margar ábendingar um vanhæfni þessarar þáltill. og ábendingar um að vinna þurfi málið betur. Því mun ég ekki fara frekar yfir alla þá þætti. Það hefur verið rækilega gert í fyrri ræðum og virðist engin áhrif hafa á afgreiðslu málsins.

Herra forseti. Í þessu stóra máli vísa ég allri ábyrgð á hæstv. ríkisstjórn.