Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 11:02:26 (3613)

1999-12-21 11:02:26# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[11:02]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ekki er ofsögum sagt að við erum að fjalla um eitt umdeildasta mál síðari tíma á Íslandi. Það er alveg ljóst að málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar allrar er með þeim hætti að þetta mál hefur skipt þjóðinni í tvær stríðandi fylkingar. Ríkisstjórnin hefur framkallað alvarlegar og illvígar deilur með því að fara ekki með málið í umhverfismat. Krafan um lögformlegt umhverfismat er vissulega ekki ný og ekki er boðlegt að halda því að þinginu að tímaskortur komi í veg fyrir það. Ef farið hefði verið að því sem margir í stjórnarandstöðunni óskuðu eftir fyrir svo sem hálfu öðru ári og reyndar fyrrv. umhvrh. Guðmundur Bjarnason líka að farið yrði með málið í lögformlegt umhverfismat, þá stæðum við ekki í þeim sporum nú rétt fyrir aldamótin að svo er komið að ríkisstjórninni hefur tekist að skipta þjóðinni upp í tvær stríðandi fylkingar í þessu máli og málið er orðið mjög alvarlegt hvernig sem á það er litið.

Ég held líka að við stöndum frammi fyrir því núna þegar á að fara að afgreiða þetta mál og setja það í atkvæðagreiðslu að ríkisstjórnin hafi sett það í mikla óvissu enda tel ég nokkuð ljóst að deilur muni harðna ef það á að knýja það í gegn. Raunar er fullkomin óvissa um það hvort um þátttöku Norsk Hydro verði að ræða eða hvort þeir dragi sig út úr myndinni. Reyndar er staðreyndin sú að málið er vanbúið til ákvarðanatöku, bæði varðandi umhverfisþáttinn og fjárhagslegar forsendur.

Ég held einfaldlega að við stöndum frammi fyrir því og sú málsmeðferð sem málið hefur hlotið á þingi og öll meðferð þess innan þings og utan sýni okkur raunverulega eitt, að það er raunverulega ein niðurstaða í þessu máli. Hún er sú að ríkisstjórnin þorir ekki að fara með þessar fyrirhuguðu framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun í umhverfismat. Það er raunverulega það sem upp úr stendur eftir umræðuna.

Ég mun gera það helst að umræðuefni í ræðu minni sem snýr að fjárhagslegum forsendum þessa máls og Fljótsdalsvirkjunar sem ég held að sé því miður öll í skötulíki. Alveg burt séð frá umhverfisþættinum, alveg burt séð frá lögformlegu umhverfismati og við stæðum bara frammi fyrir því að meta hvort þetta væri fjárhagslega hagkvæmt fyrir þjóðina og fyrir Austfirðinga og atvinuuppbyggingu þar, þá hlýtur að vera mikill vafi í hugum þingmanna og þeirra sem eiga að taka ákvörðun hvort fjárhagslegar forsendur séu undir þessu máli. Ég held nefnilega að staðreyndin sé sú að fjárhagslega standi þetta allt á miklum brauðfótum. Þess vegna snýst málið ekki eingöngu um lögformlegt umhverfismat hvort í það á að fara eða ekki heldur hvort fjárhagslegar forsendur séu fyrir þessu máli öllu, hvort það sé þjóðhagslega hagkvæmt og hvort þetta mál, þegar upp verður staðið, skili sér aðeins í því ef á annað borð verður farið út í það að þetta verði stór og mikill reikningur á skattgreiðendur. Um það hafa ekki fengist svör í umræðunni og fást ekki þegar gengið verður til atkvæðagreiðslu.

Áður en ég vík að fjárhagslegri undirstöðu þessara framkvæmda vil ég aðeins svara í það sem menn hafa helst sett á oddinn vitaskuld sem er lögformlegt umhverfismat. Ég las með mikilli athygli álit sem kom frá umhvn. sem fjallaði um þetta mál. Ég verð að segja að mér fannst og finnst að álit umhvn. --- hvort sem litið er á álit 1. minni hluta sem fulltrúar stjórnarflokkanna skipa sem eru hlynntir þessu, Kristján Pálsson og Ásta Möller, eða 2. minni hluta sem aðrir nefndarmenn umhvn., undir forustu Ólafs Arnar Haraldssonar, hafa sett fram. Mér finnst bæði þessi álit tæta niður skýrslu Landsvirkjunar og það standi ekki steinn yfir steini að því er varðar umhverfismat. Ekki steinn yfir steini. Það er niðurstaðan varðandi meðferðina í þinginu á umhverfisþættinum að málið er allt hið versta og mjög vanbúið og raunverulega staðfestir það sem þeir hafa sagt sem talað hafa fyrir lögformlegu umhverfismati hvað það er nauðsynlegt.

Reyndar var það svo að þegar ég var að lesa álit 1. minni hluta umhvn. hélt ég lengi vel að ég væri að lesa álit þeirra sem standa fyrir og vilja fá lögformlegt umhverfismat sem sýnir náttúrlega hvað þeim líður illa sem hafa þurft að standa í umhvn. að þessu áliti 1. minni hluta. Það er réttilega tekið fram, mjög heiðarlega af 1. minni hluta eins og segir hér:

,,Fyrsti minni hluti telur ljóst að gróið og mjög sérstakt land fer undir vatn við virkjunarframkvæmdirnar og fossar hverfa sem eftirsjá er að. Má nefna að hraukar, sem eru sérstæð landform sem eiga sér fáar hliðstæður svo vitað sé, munu hverfa með tilkomu lónsins. Þá hefur því oft verið lýst að Eyjabakkar hafi sérstöðu vegna hæðar sinnar yfir sjávarmáli en Eyjabakkar og Vesturöræfi munu vera hæstu stóru samfelldu gróðurlendin á miðhálendi Íslands. Þá er mikil fossaröð í Jökulsá í Fljótsdal enda fellur áin 600 m á 30 km. Með virkjuninni hverfur jökulvatnið úr farvegi hennar og má búast við að aðeins seinni part sumars, þegar miklar leysingar eru í jöklinum og lónið er orðið fullt, verði rennsli í fossunum að einhverju verulegu marki.``

Síðan segir, en það er verið að vitna í skýrslu Landsvirkjunar, með leyfi forseta: ,,Þar kemur fram að áhrif virkjunarframkvæmda á náttúrufar og friðlýst svæði eða svæði á náttúruminjaskrá verða mikil á Eyjabakkasvæðinu.``

Þetta eru allt lýsingar sem hægt er að taka undir. Þetta er álit 1. minni hluta. Þau sem skipa 1. minni hluta, hv. þm. Kristján Pálsson og Ásta Möller, hafa því verið í miklum erfiðleikum þegar þau voru að semja þetta nál. og hefur örugglega liðið mjög illa. Ég skil mjög vel að það hefur verið erfitt mál fyrir þau tvö að þurfa að standa að við hliðina á ríkisstjórninni sem ætlar með góðu eða illu að keyra þetta mál í gegn.

Auðvitað mætti lesa ýmislegt annað sem fram kemur í þessu áliti sem hægt er að taka undir. Það er nánast hægt að taka undir allt sem stendur í þessu áliti 1. minni hluta. Þeir benda á mótvægisaðgerðir ef ég man rétt og það er fært niður hjá 2. minni hluta líka að þær eru allar í skötulíki og raunverulega ekki hægt að taka neina ákvörðun um það hvort þetta séu einhverjar mótvægisaðgerðir sem er byggjandi á.

Vissulega er rétt líka hjá 1. minni hluta umhvn. að ástæða er til þess að hafa verulegar áhyggjur af þróun byggðar á þessu svæði þar sem þessar virkjunarframkvæmdir eiga að vera og vissulega er rétt að fólki hefur fækkað mjög í fjórðungnum eins og raunverulega víða á landinu. Þetta er allt saman satt og rétt. En menn verða að athuga og gera upp við sig, hvort þetta sé rétta leiðin til atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Erum við að gera þarna rétt með því að fara þessa leið? Það eru stór spurningarmerki í mínum huga varðandi það þegar litið er fram hjá umhverfismatinu hvort rétt sé að fara í þessar framkvæmdir.

Ég þarf ekki að segja margt um álit 2. minni hluta sem er mjög vel unnið og sýnir hvað málið er raunverulega allt hálfkarað hvað varðar mat á umhverfisáhrifum. Það kemur líka vel fram í áliti 2. minni hluta hvað mikil handabakavinnubrögð hafa verið á þessu máli af hálfu ríkisstjórnarinnar og hvernig hefur raunverulega verið traðkað á lýðræðinu vegna þess að aftur og aftur kemur fram að vinnubrögðin hafi verið með þeim hætti að vegna tímaskorts var ekki hægt að kalla hina og þessa til sem ástæða væri til. Ekki var hægt að kalla til þá sem óskuðu eftir og ríkisstjórnin eða forsvarsmenn málsins buðu upp á að fólk gæti komið og fengið viðtöl við umhvn. og iðnn. sem væri raunverulega ígildi lögformlegs umhverfismats og réttar fólks til að tjá sig í málinu. Hvað eftir annað kemur fram að vinnubrögðin eru með ólíkindum.

Mér fannst það mjög sérstakt miðað við hvernig þessi mál hafa þróast, miðað við það sem fram kom hjá Norsk Hydro að nefndin skyldi ekki hafa gefið sér tíma, sem hefði ekki þurft að vera langur, til að kalla til fulltrúa Norsk Hydro sem voru með miklar meiningar í þessu máli um lögformlegt umhverfismat og hafa sjálfir sett fram að þeir vilja stuðla að því að slíkt umhverfismati fari fram. Þetta eru aðilar Norsk Hydro sem hafa komið mikið inn í þessa umræðu sem taka ekki mikla fjárhagslega áhættu í málinu. Það virðist fyrst og fremst eiga að vera íslenska þjóðin og skattgreiðendur sem eiga að standa undir áhættunni af allri framkvæmdinni.

Annar minni hluti hefur farið út í þá lagaóvissu sem er fyrir hendi í málinu og bendir þar m.a. á nýja og endurskoðaða tilskipun EES sem hefur verið sett fram þar sem Íslandi bar að lögleiða efni hennar í landsrétti fyrir mars á þessu ári sem snertir umhverfismat. Þeir benda einnig á eins og hér segir orðrétt, með leyfi forseta:

[11:15]

,,Lagaóvissan er fyrst og fremst fólgin í því að þótt gilt virkjunarleyfi sé talið vera fyrir hendi bendi öll rök til þess, m.a. studd af dómafordæmum frá EB-dómstólnum, að fyrir þurfi að liggja öll leyfi lögbærra aðila áður en lagt er í framkvæmdir af þessu tagi og samkvæmt íslenskum lögum séu það virkjunarleyfi og framkvæmdaleyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.``

Síðan er bent á að sveitarstjórn Fljótsdalshrepps hafi ekki gefið út framkvæmdaleyfi og það sé staðfest í greinargerð með tillögu iðnrh. Þá vekur nefndin athygli á því að samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands gerir fyrirvara um lónstærð á Eyjabakkasvæðinu og aðra tilhögun virkjunar og komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegra væri að virkja við Kárahnúka en Eyjabakka ef á annað borð yrði virkjað á svæðinu. Athugasemdirnar sem hér hafa komið fram eru því ekki fáar.

Loks er farið út í það sem ég mun gera að meginmáli, þ.e. ófullkomið arðsemismat. Raforkuverð liggur ekki fyrir en það er ein af þeim forsendum sem leggja þarf til grundvallar við arðsemismat virkjunarinnar. Út af fyrir sig er auðvitað hægt að skilja að ríkisstjórnin, sem á eftir að fara í samningaviðræður, vilji ekki sýna allt sem hún hefur á hendi varðandi orkuverðið. Það er þó ein af meginforsendum þess að þingmenn geti lagt mat á það hvort við séum að fara út í arðbæra framkvæmd eða ekki. Ég veit ekki hvort það hefur komið fram í þessari umræðu en ég óska þess að hæstv. iðnrh., ef það er þá hægt, svari þinginu með því að segja hve hátt orkuverðið þyrfti að vera til að standa undir þessum framkvæmdum. Ég held að það sé ekki til of mikils mælst að spyrja hvert verðið þyrfti að vera til að standa undir þeim framkvæmdum.

Í áliti 2. minni hluta er einnig farið út í hinar svokölluðu mótvægisaðgerðir sem að mati 2. minni hluta þurfa að vera stórfelldar. Þær eru jafnframt algerlega ómótaðar. Ekki liggur fyrir hvar, hverjar eða hvenær þær verða og þaðan af síður hversu kostnaðarsamar þær verði og hver eigi að greiða fyrir þær. Slíkar aðgerðir hafa ekki verið kynntar sem hluti af stofnkostnaði við virkjunina. Margir treysta mjög á þessar mótvægisaðgerðir og ég veit ekki til þess að fyrir liggi hvernig ganga eigi frá þeim þætti málsins.

Auk þessa fer 2. minni hluti yfir það sem hann álítur brot á alþjóðasamningum í þessu máli og nefnir þar Ramsar-samninginn um verndun votlendis sem Íslendingar gerðust aðilar að árið 1978. Jafnframt er bent á á að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi einnig gert athugasemdir við umfjöllun um tvo aðra alþjóðasamninga, annars vegar um Ríó-samninginn um líffræðilega fjölbreytni. Stofnunin telur umfjöllunina mjög takmarkaða og villandi. Þar kemur sá misskilningur fram að samningurinn snúist nær eingöngu um hættuna á útrýmingu tegunda. Loks er nefndur til Bernarsamningurinn um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu. Mér finns álit 2. minni hluta mjög fróðlegt og gott innlegg í umræðuna. Í einni setningu má segja að álit 2. minni hluta tætir niður skýrslu Landsvirkjunar, þar stendur ekki steinn yfir steini eftir að málið hefur verið skoðað. Þetta mál er bersýnilega vanbúið varðandi lögformlegt umhverfismat og ekki hefur verið farið yfir hvaða áhrif það hefur á náttúruna ef Eyjabökkum verður sökkt.

Ég hafði ekki hugsað mér að hafa langt mál við þessa umræðu. Ég vil þó fjalla aðeins um arðsemina annars vegar og hins vegar hverju þetta mun skila fyrir byggðina á Austfjörðum. Mikið er lagt upp úr áhrifunum á byggðir á Austfjörðum og atvinnuuppbyggingu. Auðvitað er erfitt að leggja mat á það þegar svo margir veigamiklir þættir arðseminnar eru óljósir. Almennt má segja að vandi Austfjarða er mjög mikill eins og annars staðar á landinu. Auðvitað er sú staða og byggðaröskun sem átt hefur sér stað mjög alvarleg. Það er augljóst af því að á fyrstu níu mánuðum þessa árs fluttu 1.320 manns frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Að viðbættum flutningi frá útlöndum til höfuðborgarsvæðisins fluttu rúmlega 2.000 til höfuðborgarsvæðisins. Það segir okkur hve staðan er alvarleg á landsbyggðinni. Þar þarf að bregðast við í atvinnuuppbyggingunni en spurningin er hvort þetta sé rétta leiðin.

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa bent á að kostnaður fyrir sveitarfélögin hér sé 3--5 millj. kr. fyrir hvern þann sem hingað flytur. Miðað við tölur frá fyrstu níu mánuðum þessa árs er um að ræða 6--10 milljarða vegna búferlaflutninga fólks frá landsbyggðinni. Byggðavandinn er auðvitað vandi landsins alls eins og ýmsir hafa haldið fram í þessum ræðustól. Undir það skal tekið. Búferlaflutningar kosta okkur mjög mikið, hvort sem litið er til landsbyggðarinnar eða höfuðborgarsvæðisins. Þetta er sameiginlegt vandamál sem taka þarf á en spurningin er hvort þeir fjármunir sem fara eiga í þessar framkvæmdir og Fljótsdalsvirkjun séu ekki betur nýttir með öðrum hætti til að stuðla að atvinnusköpun og uppbyggingu á landinu.

Talað er um að áhrifin á Austfirði verði þau að 270 störf verði til í fyrsta áfanga. Auðvitað munar verulega um það auk 200--250 afleiddra starfa. Þetta gæti orðið aukning um 1.250--1.350 störf á Miðausturlandi á um það bil 15 árum miðað við 480 þús. tonna álver. Það er ekkert skrýtið að slík fjölgun á störfum eins og hér er lýst freisti Austfirðinga. En því miður, jafnvel þó að þetta mál verði samþykkt á þingi þá er mikil óvissa um þessi störf og hvort þessi framkvæmd verður að veruleika. Eftir að hafa farið yfir málið, sérstaklega varðandi arðsemina, er ég ekki viss um að af þessari framkvæmd verði.

Það má einnig líta til þess, herra forseti, að skipulagsstjóri hefur sett ýmislegt fram í sínum athugasemdum. Það gefur til kynna að ekki sé allt sem sýnist varðandi byggða- og samfélagsþróun á Austfjörðum eins og þeir vilja vera láta sem tala fyrir þessum framkvæmdum. Að mati skipulagsstjóra ríkisins vega byggðasjónarmið þungt í ákvarðanatöku um byggingu álvers. Til þess hins vegar að geta metið jákvæð og neikvæð áhrif þarf afdráttarlaust að gera grein fyrir því í hverju jákvæð áhrif á byggð felast, betur en gert er í frummatsskýrslu, t.d. um áhrif á byggðir á Austurlandi utan Miðausturlands um varanleika áhrifa á fólksfjöldaþróun og um áhrif á vinnuafl í þeim atvinnuvegum sem fyrir eru á svæðinu.

Skipulagsstjóri lítur á þetta sem óvissuþátt í þessu öllu saman. Það er ekki svo lítið. Þetta er það sem menn eru að horfa á varðandi atvinnuuppbygginguna. Síðan segir skipulagsstjóri að í sérfræðiáliti um samfélagsleg áhrif komi fram að talið sé að talsvert skorti á að mat á samfélagslegum áhrifum sem lagt er fram í frumatsskýrslu og fylgiskjölum hennar sé fullnægjandi. Matið gerir ekki á fullkomlega viðunandi hátt skil ýmsum atriðum eins og áhrifum á fólksfjölda, búsetu, samsetningu íbúa, atvinnuþróun og atvinnugreinar í nærliggjandi byggðarlögum. Ekki er fjallað um tímabundin neikvæð áhrif sem vinnuaflsskortur geti haft í öðrum iðnaði sem fyrir er innan þjónustugreina og ferðaþjónustunnar. Skipulagsstjóri hefur ýmsa fyrirvara að því er varðar byggð og samfélagsþróun á Austfjörðum verði þessar framkvæmdir að veruleika.

Ég vil, herra forseti, aðeins víkja að fjárhagslegum undirstöðum þessara framkvæmda. Eitt af því sem ríkisstjórnin og hæstv. iðnrh. hafa fyrst og fremst teflt fram í þessu máli er að efnahagslegi ávinningurinn af Fljótsdalsvirkjun vegi þyngra en þau náttúruverðmæti sem muni glatast. Þá skiptir miklu að menn standi traustum fótum að því er varðar fjárhagslegan ávinning af þessari framkvæmd. Ef fórna á dýrmætu náttúrusvæði undir þessar framkvæmdir þá hljóta menn að þurfa að vera nokkuð vissir um fjárhagslegar undirstöður þeirra, sem ég tel að séu á brauðfótum.

Ýmsir hagfræðingar hafa í þessu máli komist að niðurstöðum sem eru nokkuð ógnvekjandi og benda til þess að hér séum við ekki að fara út í eitthvað sem gæti kallast arðbær framkvæmd. Þorsteinn Siglaugsson hefur m.a. sett fram ýmsa útreikninga í þessu efni sem starfsmenn Landsvirkjunar hafa svo aftur reynt að hrekja. Mér finnst það hafa verið veikburða tilburðir af hálfu Landsvirkjunarmanna og lítið hald í rökum þeirra. Landsvirkjun hefur reynt að hrekja útreikninga sem ýmsir hagfræðingar hafa sett fram, m.a. Þorsteinn Siglaugsson. Þorsteinn hefur sett fram áætlanir sem miðast við mismunandi líftíma og mismunandi ávöxtun og orkuverð. Það er sama við hvað er miðað, það virðist tap á þessum framkvæmdum, alveg sama hvernig á þær er litið.

Hér er t.d. teflt fram 22 milljarða fjárfestingu, 40 ára líftíma, 1 kr. á kwst. í orkuverð og 6% ávöxtun. Samt er 7 milljarða tap. Þorsteinn setur líka fram 60 ára líftíma, 22 milljarða fjárfestingu, 1 kr. á kwst. í orkuverð og 6% ávöxtun. Niðurstaðan er engu að síður 3,6 milljarða tap. Síðan teflir hann fram því sem hann telur raunhæfa áætlun sem er 40 ára líftími, 30 milljarða fjárfesting, 0,88 aurar á kwst. og 7,20% ávöxtun sem er meðalávöxtun á sambærilegum framkvæmdum á heimsmarkaði. Þá er 22 milljarða kr. tap. Ef maður gefur sér sömu forsendur en 60 ára líftíma þá er tapið 19 milljarðar.

[11:30]

Sambærilegt má segja að hafi komið fram hjá Guðmundi Ólafssyni og fleiri hagfræðingum sem hafa sett fram útreikninga í þessu máli, að tapið er yfirleitt á bilinu 10--20 milljarðar. Það er óviðunandi staða, herra forseti, að ætla þinginu að taka ákvörðun um þessa framkvæmd með allt í vindinum að því er varðar fjárhagslegar forsendur. Ég held að það standi í Morgunblaðinu í dag að ekki verði gengið til samninga náist ekki viðunandi arðsemi. Það segja sérfræðingar Landsvirkjunar. Þeir ítreka að allur undirbúningur Landsvirkjunar fyrir orkusölu til álvers í Reyðarfirði miði að því að tryggja arðsemi framkvæmdarinnar. Fyrirtækið mun ekki ganga til samninga ef viðunandi arðsemi náist ekki út úr þeim samningaviðræðum sem fram undan eru.

Þetta er afar skýrt og auðvitað er það alveg sjálfsagt að það verður varla gengið til samninga nema menn séu nokkuð öruggir á því að arðsemin verði viðunandi. En hvað er þá viðunandi arðsemi í þessu efni? Ef menn ætla að byggja ákvörðun sína á viðunandi arðsemi, þá bara stöndum við, held ég, frammi fyrir því að aldrei verði farið út í neinar framkvæmdir. Við erum ekki að tala um neitt smátt ef það á að fara út í 480 þús. tonna álver með heildarfjárfestingu upp á 230 milljarða. Það hefur t.d. verið sett fram að ef þessir 230 milljarðar skiptist jafnt milli álvers og virkjunar, þá megi reikna með 100 milljarða tapi.

Menn hafa leikið sér með tölur varðandi orkuverðið og hafa talað um þetta allt frá 88 aurum upp í 1,50 kr. Því hefur verið haldið fram að alhæsta orkuverð sem nefnt er, 1,50 kr., mundi skila 2% ávöxtun sem er allt of lágt. Hvað segir hæstv. iðnrh. um það ef við fengjum nú orkuverð sem væri 1,50 sem er það hæsta sem nefnt hefur verið og menn hafa reiknað út að það mundi skila 2% ávöxtun? Telur hæstv. ráðherra að það sé ekki allt of lágt? Mér fannst það mjög sérstakt þegar iðnrh. sagði í Morgunblaðinu 20. ágúst að áætluð heildarfjárfesting við fyrsta áfanga væri 60 milljarðar sem skiptust jafnt milli virkjunar og álvers. En eftir að umræðan hófst um arðsemi virkjunarinnar þá lækkaði sú tala skyndilega um 8 milljarða. Það liðu bara örfáar vikur frá því að ráðherrann hélt þessu fram og að menn voru skyndilega komnir með þetta niður í það að fjárfestingin lækkaði skyndilega um 8 milljarða kr. Ég held því að það sé mjög mikil óvissa í þessu öllu saman. Maður veltir fyrir sér varðandi raforkuverðið hvort við stöndum bara ekki frammi fyrir því að tvennt geti raunverulega orðið niðurstaðan í þessu máli ef menn ætla að ana út í þessar framkvæmdir án þess að hafa fjárhagslega traustar forsendur, þ.e. að verð til almennra notenda hækki eða þessi framkvæmd skili rekstrartapi sem skattgreiðendur verða að bera. Það er þetta sem ég óttast og það er kjarninn í mínu máli að ég óttast að við gætum staðið frammi fyrir því.

Ef fara á í 480 þús. tonna álver, þá erum við að tala um orku sem jafngildir allri virkjaðri raforku á Íslandi í dag og stofnkostnaður álvers af þessari stærð jafngildir allri virkjaðri orku á Íslandi þannig að við erum ekki að tala um neitt smáræði í þessu efni.

Herra forseti. Ég held út af fyrir sig að það þjóni ekki miklum tilgangi að halda langa tölu um þetta mál. Ég held að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. iðnrh. séu sannfærð um að þetta sé framkvæmd sem í eigi að ráðast og ætli sér að keyra málið í gegn með góðu eða illu og að þrátt fyrir allt sem hér er teflt fram af hagfræðingum og öðrum sem innlegg í þetta mál til að reyna að sýna fram á að það er svo langt í frá að hægt sé að gera sér góðar vonir um arðsemi af framkvæmdinni þá ætli þeir sér engu að síður að keyra málið í gegn. Maður veltir fyrir sér tilgangi þess að fara í gegn með málið eins og þeir ætla sér. Það hefur komið fram í þessum ræðustól, og held ég að þeir hafi rétt fyrir sér sem því halda fram, að Framsfl. hafi fyrst og fremst komið með málið inn í þingið, sem var út af fyrir sig óþarfi fyrst þeir ætluðu ekki að fara með málið í lögformlegt umhverfismat, til að reyna að stilla Sjálfstfl. við hlið sér í þessu máli.

Herra forseti. Mér þykir mjög slæmt að hæstv. umhvrh. skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu vegna þess að ég hef aldrei heyrt hana svara almennilega fyrir ummæli sem hún lét frá sér fara þegar hún sóttist eftir því að verða varaformaður Framsfl. fyrir rúmu ári síðan. Þá var hún einmitt spurð um fyrirhugaðar framkvæmdir í Fljótsdalsvirkjun. Ég spyr, (Gripið fram í.) herra forseti, um hæstv. ...

(Forseti (GuðjG): Hæstv. umhvrh. er í húsinu og forseti getur (Gripið fram í.) gert ráðstafanir til að láta hana vita að hennar sé óskað.)

,,Það er svo langt síðan``, segir hæstv. umhvrh. Menn verða að standa við sín orð, alveg sama hvort þau eru gömul eða ný, þegar þetta mál er annars vegar. Menn geta ekki sagt eitt í dag og annað á morgun í svona stóru máli. Menn verða að geta treyst því sem ráðherrar segja í þessu efni. Að vísu var hæstv. umhvrh. ekki þá orðinn umhvrh. en hún var að sækjast eftir því að fá stöðuhækkun, ef svo má orða það, í sínum flokki til þess að eiga meiri líkur kannski á ráðherrastól. Hún sóttist eftir því að verða varaformaður Framsfl. Þar gaf hún ákveðnar yfirlýsingar til fólks sem horfði því mikið til hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur í þessu efni eftir að hún varð ráðherra og fólk taldi málinu vel borgið í hennar höndum og að það væri nokkuð ljóst að þessi framkvæmd mundi fara í lögformlegt umhverfismat þegar þetta væri komið í hennar hendur. Það er alveg ástæða til þess að heyra álit hæstv. ráðherra í þessu máli.

Þá kemur hæstv. ráðherra í salinn. Ég ætla ekki að ónáða ráðherrann mikið í þessu efni. Ég held að hún sé alveg ákveðin, alveg sama hverju teflt er fram í þessu máli, hvort sem það eru rök sem sýna fram á að það er glæfraspil að fara út í þessa framkvæmd með svo ótraustar fjárhagslegar forsendur og undirstöður undir þessu máli eða að málið sé allt mjög vanbúið til þess að fara í umhverfismat. Umhvn. hefur sýnt fram á það í sínu áliti og líka í framsögum og ræðum manna í umhvn. að þeir hafa algerlega hrakið það sem er í skýrslu Landsvirkjunar þar sem stendur ekki steinn yfir steini. Það sem ég var að vitna í, herra forseti, og vil beina því til hæstv. umhvrh. eru orð sem hún lét falla þegar hún var að bjóða sig fram til varaformanns Framsfl. og taldi Framsókn vera helsta mótvægið við Sjálfstfl. Þá var hún spurð um afstöðu til málefna hálendisins, virkjana og stóriðju. Þetta var 19. nóvember 1998. Þá sagði hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, núverandi umhvrh., með leyfi forseta:

,,Okkur er öllum að verða betur ljóst hvað hálendið er dýrmætt. Við erum í hópi útvalinna þjóða hvað óspillta náttúru varðar. Ég tel að við verðum að vernda hálendið, sem og aðrar náttúruperlur landsins. Ég útiloka þó ekki frekari uppbyggingu vatnsaflsvirkjana, en við verðum að fara með gát.``

Síðan kemur það sem ég spyr hæstv. ráðherra um. Áfram heldur núverandi umhvrh. og segir, með leyfi forseta:

,,Það er von mín að Landsvirkjun taki frumkvæði í því að láta umhverfisathuganir sínar fara í sama ferli og lögformlegt umhverfismat. Landsvirkjun hefur í dag virkjunarleyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun, en það leyfi var gefið út áður en lög um umhverfismat voru samþykkt. Það er mitt almenna sjónarmið að náttúran eigi að njóta vafans og nota eigi bestu tæki, svo sem umhverfismat, til að dæma um áhrif framkvæmda.``

Þarna er hæstv. umhvrh., sem að vísu var ekki orðinn umhvrh. þegar þessi orð voru töluð, raunverulega að segja að hún telji nauðsynlegt að fólk geti nýtt sér andmælarétt og að mál eigi að fara í eðlilegan umsagnarferli og lögformlegt umhverfismat. Öðruvísi skil ég ekki hæstv. ráðherra. Þegar hún setti þessi orð fram í samtali við að ég held Morgunblaðið fyrir réttu ári síðan þá taldi hún nauðsynlegt að málið færi í lögformlegt umhverfismat. Ég get ekki skilið ráðherrann öðruvísi og ég bið hana því um að túlka það sem þarna kemur fram. En það er ekki hægt að túlka þetta öðruvísi þegar hv. þm. og núverandi ráðherra sagði:

,,Það er mitt almenna sjónarmið að náttúran eigi að njóta vafans og nota eigi bestu tæki, svo sem umhverfismat, til að dæma um áhrif framkvæmda.``

Og þegar við erum að tala um bestu tæki í því efni, þá er varla um það deilt að við erum að tala um lögformlegt umhverfismat. Það skulu því vera mín lokaorð að beina því til hæstv. umhvrh. að hún svari þeirri spurningu sem hér er lögð fram.

Herra forseti. Ég vil þó að lokum segja að þetta mál allt saman og málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar hefur fyrst og fremst haft þær afleiðingar að skipta þjóðinni í tvær stríðandi fylkingar og það er miður að ríkisstjórnin skuli fara af stað með málið með þeim hætti þar sem tilgangurinn var enginn annar hjá Framsfl. en að festa Sjálfstfl. með sér í þessu máli og skipta þjóðinni upp í stríðandi fylkingar. Það hefur verið margsýnt fram á það af hagfræðingum að fjárhagsgrundvöllur framkvæmdanna stendur á mjög ótraustum fótum og eins víst að tugmilljarða tap verði á þessum framkvæmdum ef út í þær verður farið sem enginn mun greiða að lokum nema skattgreiðendur.

Það eina sem er öruggt í þessu máli er að ef á annað borð verður ráðist í þessar framkvæmdir þá munu dýrmætar náttúruperlur glatast og að því munu komandi kynslóðir seint geta fyrirgefið okkur að hafa staðið. Ég held því að ríkisstjórnin verði bara sjálf að bera ábyrgð á því mikla umhverfisslysi sem hér er í uppsiglingu. Það versta við þetta allt saman er að ef ráðist verður í það, þá eru allar líkur á að við séum ekki að fara út í arðbærar framkvæmd heldur sé verið að taka hér ákvörðun um að vísa tugum milljarða á skattgreiðendur.