Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 11:46:22 (3615)

1999-12-21 11:46:22# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[11:46]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði: ,,Við erum að meta umhverfisáhrifin af þessari virkjun.`` Hver er niðurstaðan eftir að þingið hefur fjallað um þetta? Að málið algerlega vanbúið að því er varðar umhverfisþáttinn til að taka ákvörðun um þessa framkvæmd.

Hæstv. ráðherra dró ekkert undan enda hefur hún auðvitað ekki getað það. Hún sagði fyrir rúmu ári að framkvæmdin ætti að fara í lögformlegt umhverfismat og hún sagði að Landsvirkjun hefði getað haft frumkvæði að því að setja framkvæmdina í lögformlegt umhverfismat en gerði ekki, sagði hæstv. ráðherra. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra, sem er nú einu sinni yfirmaður umhverfismála: Hvað hefur ráðherrann gert frá því að hún settist í ráðherrastól til að beita sér fyrir því að þessi framkvæmd fari í lögformlegt umhverfismat? Hefur ráðherrann gert eitthvað? Getur hún sýnt fram á það, sagt eitthvað í þessum ræðustól sem sýnir fram á það að hún hafi beitt sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að málið færi í lögformlegt umhverfismat? Hefur ráðherrann reynt það innan ríkisstjórnar, gert tilraun til þess meðal samráðherra sinna að fá þá í lið með sér til þess að þetta færi í lögformlegt umhverfismat? Ráðherrann segir að það sé almennt sjónarmið hennar að náttúran eigi að njóta vafans og nota eigi bestu tæki, svo sem umhverfismat til þess að dæma um áhrif framkvæmda. Ef ég skil ráðherrann rétt úr þessum ræðustól, þá er hæstv. ráðherra enn þeirrar skoðunar að nota eigi bestu tæki svo sem umhverfismat til að dæma um áhrif framkvæmda.

Því er það spurning mín: Hvað hefur hæstv. ráðherra gert til þess að þessi virkjun fari í lögformlegt umhverfismat frá því að hún settist í stól ráðherra? Hefur verið gerð tilraun af hennar hálfu innan ríkisstjórnarinnar að svo verði gert?