Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 11:48:23 (3616)

1999-12-21 11:48:23# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[11:48]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mat hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að sú umfjöllun sem hér er til grundvallar sé í skötulíki og málið sé allt vanbúið. Það er alls ekki mat ríkisstjórnarinnar né ríkisstjórnarflokkanna og ég vil draga það sérstaklega fram að málið er í umhverfismati en það er ekki í lögformlegu umhverfismati og um það hafa staðið deilur á hinu háa Alþingi.

Það er einnig rétt að Landsvirkjun hefði getað sett málið í lögformlegt umhverfismat hefðu þeir óskað eftir því. Þeir hafa ekki gert það heldur kosið að fara aðra leið, þ.e. að taka saman viðamikla umhverfismatsskýrslu og senda hana hingað til Alþingis til skoðunar þannig að allir alþingismenn geti tekið ákvörðun um hvort þeir vilji standa við það sem Alþingi hefur áður ákveðið, þ.e. að hleypa virkjuninni fram með þeim hætti sem var ákveðið 1991 þegar Jón Sigurðsson gaf út virkjunarleyfið sem kom úr Alþfl. og ég veit að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kannast mjög vel við.

Ég vil líka draga það fram að bæði Framsfl. og Sjálfstfl., æðstu stofnanir þessara flokka hafa ekki skipt um skoðun í málinu. Þær hafa stutt málið í þeim farvegi sem það er í nú. Þannig fórum við í gegnum síðustu kosningar, það er alveg ljóst. Það er ákveðin mótsögn í því að ætlast til þess að ég styðji ekki þá leið sem málið er í núna af því að ég hef sérstaklega dregið það fram að Landsvirkjun hefur þetta leyfi og allir vita að þeir hefðu getað kosið sjálfir að fara með virkjunina í lögformlegt umhverfismat. En það er ekki hægt að setja ferlið af stað nema breyta lögum og um það hefur verið tekist á Alþingi.