Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 11:52:53 (3618)

1999-12-21 11:52:53# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, Frsm. 1. minni hluta ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[11:52]

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Umræða um þáltill. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun hefur nú staðið fram á nótt í nokkra daga og flest af því sem þarf að draga fram í því efni hefur svo sem komið fram en þó vil ég drepa á örfá atriði.

Mér finnst menn gera lítið úr lagaóvissu. Ég held að við getum átt í erfiðleikum vegna þess að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun stríði gegn tilskipun 85/337 EBE frá 27. júní 1985, sem EES-samningurinn leggur okkur á herðar, og tilskipun nr. 97/11 EC frá 3. mars 1997. Þá er einnig rétt að kanna dómafordæmi frá Evrópudómstólum í skyldum málum samanber kæru Náttúruverndarsamtaka Íslands til Eftirlitsstofnunar EFTA og umsögn Aðalheiðar Jóhannsdóttur til umhvn., dags. 1. des. 1999, sem fylgja þessu áliti. Það er álit 1. minni hluta iðnn. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun.

Mér finnst með ólíkindum að hafa komið að þessu ferli og upplifa hvað vinnubrögðin eru slæleg. Það er svo himinklárt í mínum huga að það að færa þetta mál til umfjöllunar inn í hið háa Alþingi með þeim hætti sem gert er er algerlega óviðunandi og það sannar líka niðurstaða umhvn. þar sem meiri hluti nefndarinnar greiðir atkvæði í raun og veru með því og er með ályktun um að framkvæmdin eigi að fara í lögformlegt umhverfismat.

Ástæða er til að draga fram að það eru engin plön og engar skýrslur eða áætlanir um mótvægisaðgerðir sem er mjög alvarlegt mál. Það er mjög ófullnægjandi fram sett hvaða áhrif þessar framkvæmdir munu hafa á dýralíf og í raun og veru kemur fram á öllum stigum málsins þegar farið er í gegnum skjöl og rannsóknir að miklu minna hefur verið unnið að rannsóknum en menn hafa viljað vera láta í gegnum allt þetta ferli. Við erum á engan hátt í stakk búin til þess að sjá fyrir hvað við erum að taka ákvörðun um, hvað varðar mótvægisaðgerðir eða áhrif á dýralíf.

Síðan er það náttúrlega í mínum huga alveg sérstaklega alvarlegt eins og hefur komið fram í umræðunni að aðrir kostir skuli ekki vera metnir og það lýtur að öðrum kostum, eins og Kárahnúkavirkjun og það hefur komið fram að afl Fljótsdalsvirkjunar einnar dugar ekki til að mæta þörfum orkuvers í Reyðarfirði þannig að það þarf að sækja um 40 megavött í Bjarnaflagsvirkjun eða væntanlega Kröflu og að meta ekki aðra kosti, svo sem eins og Hraunaveitu eða Kárahnúkavirkjun og setja fram áætlun um slíkt er að mínu mati mjög óvönduð vinnubrögð og sérstaklega í ljósi þess að að komið hefur fram að rafmagn frá þeirri verksmiðju yrði ódýrara.

Það sem mér finnst langalvarlegast í umræðunni er skammsýni í nýtingu náttúruauðlinda. Ég kom að því í fyrri ræðu minni að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lagt fram tvær þáltill. sem ættu að mínu mati og út frá öllum félagslegum reglum að koma til ákvarðanatöku eða afgreiðslu fyrst. Það er þáltill. um sjálfbæra orkustefnu og líka þáltill. um Snæfellsþjóðgarð. Þáltill. um sjálfbæra orkustefnu er hjá iðnn. en þáltill. um Snæfellsþjóðgarð er hjá umhvn. Þar sem báðar þessar tillögur gera ráð fyrir öðruvísi notkun og eru komnar fram áður en þáltill. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun er sett fram er skylda þingsins og nefnda að fara ofan í þau mál og afgreiða þau fyrst. Það er ekkert sjálfgefið að ef við fengjum á alvarlegan hátt umfjöllun t.d. um sjálfbæra orkustefnu, þá rekst það gjörsamlega á þessa ákvörðun sem verið er að taka núna um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun því að markmiðið með mati á umhverfisáhrifum er m.a. að meta líkleg áhrif framkvæmda á náttúruauðlindir.

Helstu orkulindir Íslendinga eru takmarkaðar. Talið hefur verið að fjárhagslega geti verið hagkvæmt að virkja og framleiða sem svarar 30 þús. gígavattstundum eða 30 teravattstundum af raforku úr vatnsaflinu og um 20 þús. gígavattstundir á ári með virkjun jarðvarma eða samtals um 50 þús. gígavattstundir, þ.e. 50 teravattstundir. Frá þessum virkjunarkostum er skynsamlegt að draga a.m.k. helming orkunnar, þ.e. um 25 þús. gígavattstundir á ári vegna verndunarsjónarmiða. Nú þegar eru framleiddar um 6.050 gígavattstundir á ári eða um fjórðungur af því sem gæti verið til ráðstöfunar í heild. Sú tala á eftir að hækka í um 9.000 gígavattstundir á ári á næstu árum vegna fyrri skuldbindinga um orkusölu til stóriðju, Ísals, Norðuráls, Íslenska járnblendifélagsins. Miðað við framangreindar forsendur standa eftir um 16 þús. gígavattstundir á ári.

Orkuspárnefnd gerir ráð fyrir 2% aukningu almennrar raforkunotkunar í landinu fram til 2050 og það svarar til viðbótar sem nemur um 5.500 gígavattstundum á ári frá aldamótum talið. Eftir eru þá aðeins 10.500 gígavattstundir á ári sem nægja tæpast til að framleiða vetni eða annað vistvænt eldsneyti sem komið gæti í stað innflutts eldsneytis miðað við núverandi notkun olíuafurða. Mun ekki veita af talsverðri beislun vinds að auki til raforkuframleiðslu til að ná því markmiði að gera vetnissamfélagið hérlendis að veruleika á komandi öld. Hér er vitnað í minnisblað frá Orkustofnun, eldsneytisnotkun Íslendinga 1996 með þáltill. um sjálfbæra orkustefnu. Það er 13. mál 125. löggjafarþings.

[12:00]

Af þessu sést hversu andstætt það væri sjálfbærri orkustefnu að ráðstafa meiri orku til hefðbundinnar stóriðju en nú þegar er, hvað þá 6.700 gígavattstundum á ári sem þyrfti fyrir 480 þús. tonna álverksmiðju. Til skammsýnnar notkunar náttúruauðlinda verður einnig í mörgum tilvikum að telja ráðstöfun lands undir miðlunarlón, raforkumannvirki sem setja mark sitt á lítt snortin svæði hérlendis. Það á ekki síst við um fyrirhugaðar virkjanir norðan Vatnajökuls í þágu álvers eins og hér um ræðir.

Ég vil líka koma inn á áhrif þessara framkvæmda fyrir austan á byggð og samfélag. Þær rannsóknir og skoðanakannanir sem gerðar hafa verið eru mjög yfirborðskenndar. Einkum hefur verið vitnað í skýrslu Nýsis og framsetningu Byggðastofnunar á áhrifum á byggð og samfélag. Milljónum króna hefur verið eytt í alls konar skoðanakannanir varðandi virkjanirnar sjálfar og álverið en fá gögn byggja á því hvað Austfirðingar eru í raun hugsa sér í þessum málum, hvað heimamenn hugsa sér í sambandi við ný tilboð í atvinnumálum. Engir tilburðir eru til að kanna afstöðu brottfluttra Austfirðinga til þess að flytja heim aftur til að vinna í nýju fyrirtæki af þessu tagi. Hér er meira og minna um alls konar spekúlasjónir að ræða og hvað menn ætla að muni gerast fremur en það sé undirbyggt með könnunum á viðhorfum þeirra sem um er að ræða.

Veðurfarsathuganir og loftdreifispá er einnig mjög ábótavant. Á sjálfu virkjunarsvæðinu hafa veðurathugunarstöðvar aðeins verið um skamman tíma og því mjög erfitt að byggja niðurstöður á tímaskeiðinu sem um ræðir, það kemur fram í skýrslum frá Veðurstofu og fleiri aðilum.

Fluttar hafa verið langar ræður um hin efnahagslegu áhrif. Ég vil sérstaklega vísa til ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem hann flutti í gær og fór ítarlega yfir þau mál. Margar lærðar greinar hagfræðinga sýna fram á að hér erum við að taka stórkostlega áhættu og ákvörðun sem reist er á mjög veikum grunni hvað efnahagsleg áhrif snertir.

Þeir sem ferðinni ráða á hinu háa Alþingi segja að ekki verði samið nema viðunandi orkuverð fáist. En við skulum bara líta á staðreyndir. Við erum beggja vegna borðsins. Hér er um opinbera framkvæmd að ræða þó að við skýlum okkur ávallt á bak við það að fyrirtækið Landsvirkjun muni sjá um framkvæmdina. Það er pólitískt samhengi milli þingsins, framkvæmdarvaldsins, stofnana ríkisins og Landsvirkjunar, sem eru í okkar eigu. Hér er um samþættingu að ræða sem er mjög varhugaverð og hefur kostað okkur mikið í gegnum árin. Þegar svo stór högg eru greidd í atvinnumálum og um svo stórar upphæðir er að ræða er von að menn vilji staldra við og íhuga næstu skref af nákvæmi.

Málið snýst ekki um neina smáframkvæmd. Við munum tvöfalda orkuframleiðsluna í landinu miðað við 480 þús. tonna álver og við höfum alls ekki efni á því að misstíga okkur. Þetta eru svo stórar upphæðir, framkvæmdir sem í heild gætu kostað á þriðja hundrað milljarða. Hér hafa verið nefnd tvö hundruð til á þriðja hundrað milljarða. Þetta eru svo gígantískar upphæðir að allur almenningur áttar sig ekki á því hvað um er að ræða nema kafað sé ofan í málið. Efnahagslegu áhrifin eru, eins og fram hefur komið í ræðum fjölmargra þingmanna, mjög vafasöm að ekki sé meira sagt.

Ekki hafa verið gerðar miklar tilraunir til að meta hvers virði óspillt náttúra er. Í fyrri ræðu minni fjallaði ég um að óspillt náttúra er auðvitað auðlind í sjálfu sér. Nærtækast að meta hana út frá þeim beinu tekjum sem við höfum af ferðamannaþjónustu í landinu. Hér hefur margoft komið fram að aukningin í ferðamannaþjónustunni á síðasta ári gefur okkur tvöfalt meiri tekjur í erlendum gjaldeyri en öll sala á rafmagni til stóriðju. Aukningin í ferðamannaþjónustunni er um 6 milljarðar en salan til stóriðjunnar losar ekki nema rétt rúma 3 milljarða. Við verðum að fá betri upplýsingar og setja meiri vinnu í að meta hvers virði óspillt náttúra er, í peningum en jafnframt hugarfarslega og andlega.

Margir segja að arðsemi Fljótsdalsvirkjunar sé torfundin. Ég kom inn á það áðan. E.t.v. verður aldrei hægt að koma mönnum á eina niðurstöðu en það eru óyggjandi rök fyrir því að hér séum við á tæpasta vaði með þessar framkvæmdir. Þess vegna er fyllsta ástæða til að fara fetið.

Einnig væri ástæða til að staldra við niðurstöður frumathugana skipulagsstjóra sem hann sendi frá sér hinn 10. desember 1999. Hann sendi frá sér niðurstöður frumathugunar og úrskurð skipulagsstjóra um 480 þús. tonna álver á Reyðarfirði. Niðurstaða stofnunarinnar er, virðulegi forseti:

,,Við frumathugun hafa komið í ljós veigamiklar athugasemdir við marga þætti málsins, m.a. varðandi framkvæmdatilhögun, grunnupplýsingar um náttúrufar og staðhætti sem mat grundvalli á, við aðferðir sem beitt er við mat, viðmiðunargildi mengunar og við niðurstöður mats. Í kjölfar þessara athugasemda hefur framkvæmdaraðili lagt fram þónokkrar viðbótarupplýsingar sem eingöngu hafa hlotið kynningu fyrir sérfræðistofnunum á þeim sviðum sem efni viðbótargagna fjallar helst um.

Á grundvelli framlagðra gagna við frumathugun er það mat skipulagsstjóra ríkisins að ekki hafi verið lagðar fram nægar upplýsingar um framkvæmd og umhverfisáhrif framkvæmdarinnar til að unnt sé að taka afstöðu til þess hvort hún muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hvorki varðandi fyrsta né síðari áfanga framkvæmdarinnar. Því er niðurstaða skipulagsstjóra ríkisins sú að ráðast skuli í frekara mat á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði sbr. 8. gr. laga og 12. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Í frekara mati verði gerð frekari grein fyrir áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið, náttúruauðlindir og samfélag, eins og nánar er tilgreint í 6. kafla þessa úrskurðar.``

Hvað er verið að segja með þessum orðum? Málið er alls ekkert undirbúið. Það er ekki undirbyggt að siðaðra manna hætti. Eftir á að fjalla um mjög mörg atriði. Við getum ekki anað áfram og skilað afdráttarlausu áliti séum við ekki búin að fara yfir öll gögn til að taka ákvörðun.

Virðulegi forseti. Skipulagsstjóri ríkisins fjallar einnig um tengdar framkvæmdir. Á öðrum stað í skýrslu skipulagsstjóra segir, með leyfi forseta:

,,Við frumathugun hafa komið fram fjölmargar athugasemdir við að ekki skuli vera lagt heildarmat á umhverfisáhrif álversins í Reyðarfirði og fyrirhugaðar framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun, lagningu háspennulínu, hafnargerð, Bjarnarflagsvirkjun, Kárahnúkavirkjun o.fl.

Í svörum framkvæmdaraðila við athugasemdum kemur fram að eðlilegt verði að telja að framkvæmdaraðili álvers beri einungis ábyrgð á mati á umhverfisáhrifum þeirra tilteknu framkvæmda sem hann hyggst hefja. Framkvæmdaraðili álvers verður annar en t.d. framkvæmdaraðili vatnsaflsvirkjana.

Að mati skipulagsstjóra ríkisins er ekki stoð fyrir því í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, að krefjast þess að tengdar framkvæmdir séu metnar í einu heildarmati. Skipulagsstjóri bendir í þessu sambandi á úrskurð umhvrh. um mat á umhverfisáhrifum álvers á Grundartanga. Slíkt heildarmat mundi stuðla að markvissari vinnubrögðum og umræðu um fyrirhugaðar framkvæmdir af þeirri stærðargráðu sem álver við Reyðarfjörð, virkjunarframkvæmdir og lagning háspennulína eru. Skipulagsstofnun beindi í september 1999 þeim tilmælum til framkvæmdaraðila að mat á umhverfisáhrifum nýrrar hafnar við fyrirhugað álver og háspennulínu að álverinu yrði auglýst samtímis. Jafnframt að auglýst yrði á sama tíma mat á umhverfisáhrifum jarðgufuvirkjunar við Bjarnarflag sem talin var nauðsynleg forsenda fyrir fyrsta áfanga álversins. Við þessu var ekki orðið og bent á að um aðra framkvæmdaraðila væri að ræða. Þá er rétt að benda á að vegna mikillar óvissu um 480 þús. tonna álver á samfélag og atvinnulíf á Austurlandi og óvissa um orkuöflun vegna þess lagði Skipulagsstofnun til við framkvæmdaraðila að tilkynnt yrði til stofnunarinnar frummat á umhverfisáhrifum 120 þús. tonna álvers og kynnt álver um fyrirhugaða stækkun. Á þetta sjónarmið var ekki fallist.

Orkuþörf 480 þús. tonna álvers ein og sér kallar á umfangsmiklar framkvæmdir við orkuframleiðslu sem fyrirsjáanlegt er að kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif að mati skipulagsstjóra ríkisins. Vert er að minna á að starfsemi 480 þús. tonna álvers krefst 6.640 gígavattstunda af raforku á ári, sem er meira en heildarframleiðsla Landsvirkjunar árið 1998. Einnig að ekki hafi verið lagðar fram upplýsingar um hvernig fyrirhugað er að afla orku til 480 þús. tonna álvers, utan hvað fyrir liggur að fyrsta áfanga álvers sé fyrirhugað að virkja Jökulsá í Fljótsdal og í Bjarnarflagi auk þess sem Kárahnúkavirkjun, sem samkvæmt svæðisskipulagi miðhálendisins ætti að framleiða 3.200 gígavattstundir, er tilgreind í Noral-samkomulaginu frá 29. júní 1999 til orkuöflunar fyrir álverið. Af þessum ástæðum verður að gera kröfu um að ítarlega sé gerð grein fyrir jákvæðum áhrifum 480 þús. tonna álvers sem vega kunni upp þau hugsanlegu umtalsverðu umhverfisáhrif sem framkvæmd hennar kunni beint og óbeint að hafa í för með sér. Þar er átt við áhrif á byggð, samfélag og atvinnulíf á Austurlandi og í landinu í heild.``

Ekki er minnst um vert að vekja athygli á því að setja verður fram áætlun um hvaða áhrif þetta hafi á landið í heild.

Af framangreindu er ljóst, herra forseti, að ég get ekki, eins og fram hefur komið í nefndaráliti 1. minni hluta í iðnn., tekið ábyrgð á ákvörðun af þessu tagi á hinu háa Alþingi. Ég krefst þess að þessi framkvæmd í heild sinni fari í lögformlegt umhverfismat þar sem allir þættir séu teknir fyrir, allir þeir þættir sem við höfum rætt af miklu kappi undanfarna daga. Að mínu mati er ekki hægt að taka þessa ákvörðun miðað við þær forsendur sem gefnar eru og þess vegna mun ég og félagar mínir í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði leggja til að þáltill. um áframhaldandi framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun verði felld og fram fari lögformlegt umhverfismat á öllum þáttum fyrirhugaðrar framkvæmdar. Vísað er til till. til þál. sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lagði fram á 125. löggjafarþingi, þskj. 7, um mat á lögformlegum umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar.

Herra forseti. Málið hefur verið keyrt áfram afar höstuglega og borið við tímaskorti vegna óþreyju Norsk Hydro, samstarfsaðila okkar vegna hugsanlegs álvers. Vegna þessa vil ég lýsa vanþóknun minni á því að iðnn. skuli ekki hafa orðið við beiðni minni og stjórnarandstöðunnar í iðnn. um að fá fulltrúa frá Norsk Hydro til viðræðu, augliti til auglitis. Það hefði ég talið rausnarlegt af ríkisstjórninni, sérstaklega vegna þess að málum er stillt upp þannig að við séum í tímapressu vegna þrýstings frá Norsk Hydro og óþolimæði þeirra.