Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 12:28:17 (3620)

1999-12-21 12:28:17# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[12:28]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ágætisinnlegg í umræðuna og ég efast ekkert um að hv. þm. er stuðningsmaður þess að nýta innlendar orkulindir og byggja upp atvinnu á grunni þeirra. Það sýna ótvírætt störf hans sem fyrrv. iðnrh. Það kom mér hins vegar á óvart í ræðu hv. þm. hversu þunga áherslu hann lagði á að leikreglum væri fylgt. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að gera. En hv. þm. verður að hafa það í huga þegar slíkt er sagt að menn verða þá að meina það að leikreglunum eigi að fylgja. Leikreglurnar eru m.a. þær að lög séu ekki afturvirk og þeir sem búa eiga við þann lagaramma og þau lög sem sett eru frá Alþingi eiga að geta treyst því að þeir geti starfað á grundvelli þeirra laga sem sett eru. Það er það sem Landsvirkjun hefur gert. Því fyrirtæki var afhentur þessi réttur árið 1981 og það veit ég að hv. þm. þekkir betur en nokkur annar að virkjunarleyfið var síðan afhent fyrirtækinu 1991 í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Það er líka skýrt í lögunum um mat á umhverfisáhrifum sem hér voru samþykkt, að það velktist enginn í vafa um að verið var að undanþiggja Fljótsdalsvirkjun því að hún færi í mat á umhverfisáhrifum. Þetta eru leikreglurnar. Og ef menn ætlast til þess að leikreglunum sé fylgt, þá verða menn líka að virða það að þær eru þannig.