Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 12:30:12 (3621)

1999-12-21 12:30:12# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[12:30]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt ábending hjá hæstv. iðnrh. að lögin standa til þess að hægt sé að ráðast í þessa framkvæmd án þess að mat á umhverfisáhrifum fari fram. En hinar almennu leikreglur eru þær að svo skuli gert, þetta er undanþáguákvæði. Menn hafa áður beitt skynseminni um miklu minni framkvæmdir sem deilur stóðu um. Þetta undanþáguákvæði í lögunum um mat á umhverfisáhrifum var sérstaklega sett með framkvæmdir við brú yfir Gilsfjörð í huga. Það var sérstaklega sett með tilliti til þess að matið á umhverfisáhrifum tefði ekki þá framkvæmd. Það kom hins vegar í ljós um þá tiltölulega litlu framkvæmd að um hana var mikill ágreiningur, m.a. vegna umhverfisáhrifa, og þá tóku menn þá ákvörðun að fylgja hinum almennu leikreglum og láta fara fram mat á umhverfisáhrifum á framkvæmdinni þó svo undanþáguákvæðið hafi sérstaklega verið sett inn í lögin um mat á umhverfisáhrifum til að undanþiggja þessa framkvæmd slíku mati, þessa framkvæmd sérstaklega. Það er það sem ég er að segja við hæstv. iðnrh.

Ljóst er að með því að beita þessu undanþáguákvæði laganna, sem ég dreg ekki í efa að er lagaleg heimild fyrir, þá eru menn að undanþiggja framkvæmdirnar frá hinum almennu leikreglum og ég tel að átökin og deilurnar í þjóðfélaginu um að það verði ekki gert séu svo miklar að skynsamir menn hefðu átt að sjá að sér og eigi að sjá að sér og láta hinar almennu leikreglur í málinu gilda til að magna ekki upp óþarfa andstöðu og neyða menn eins og þann sem hér stendur, sem er fylgjandi því að í þessar framkvæmdir verði ráðist ef almennum leikreglum er fylgt, til að taka aðra afstöðu.