Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 12:34:33 (3623)

1999-12-21 12:34:33# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[12:34]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei deilt um það við hæstv. iðnrh. eða neinn annan að lögin um mat á umhverfisáhrifum veita heimild til að undanþiggja Fljótsdalsvirkjun frá því mati sem lögin kveða á um að eigi að fara fram. Ég hef aðeins sagt að þegar þessi lagasetning var til umræðu á Alþingi, þá hafi Fljótsdalsvirkjun ekki verið efst í huga manna eða aðrir þeir virkjunarkostir sem síðar kom í ljós að hæstv. iðnrh. telur að falli undir undanþáguákvæðið.

Það sem ég hef hins vegar sagt við hæstv. iðnrh. og aðra er að beita ætti skynseminni þegar séð var að andstaða fjölmargra aðila í samfélaginu við slíka framkvæmd byggðist fyrst og fremst á því að undanþiggja ætti hana almennum leikreglum. Þá átti að beita skynseminni og halda ekki fast við lagasmuguna heldur reyna að fá eins marga í lið með sér í þessu mikla deilumáli með því að fallast á að það ætti að lúta almennum leikreglum.

Það er rétt að á árinu 1991 voru menn með ýmis plön uppi sem ekki mundu samræmast þeim viðhorfum í umhverfismálum sem eru í dag. Ástæðan er einfaldlega sú að heimurinn breytist og mennirnir með. Þau atriði sem við leggjum áherslu á í dag, átta árum síðar, eru eðlilega talsvert öðruvísi en menn hugsuðu fyrir átta árum. Menn dá margir Einar Benediktsson skáld fyrir hugsjónir hans um beislun íslenskrar vatnsorku en ég er alveg sannfærður um að ef þær hugmyndir um virkjun Gullfoss og fleiri sem hann bar fram á sínum tíma og mörgum núlifandi mönnum þykir hið merkilegasta framtak væru á dagskrá Íslendinga í dag, þá mundu þær ekki verða framkvæmdar vegna þess að hugsunarháttur okkar hefur breyst. Þær voru ekki stöðvaðar á þeim tíma frá náttúruverndarsjónarmiðum heldur af ótta við erlent fjármagn. Nú er sá ótti ekki fyrir hendi en slík framkvæmdaáform yrðu stöðvuð í dag frá náttúruverndarsjónarmiðum og til slíkra breytinga verðum við að taka tillit.